Fimmtudagur, 21. október 2010
Hvað hefur framsóknarkona að gera á stjórnlagaþing?
Ég er skráð í Framsóknarflokkinn.
Ég hóf afskipti af stjórnmálum árið 2006. Á þeim tíma hafði ég starfað í 7 ár að málefnum fatlaðs fólks á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík (SSR) sem stuðningsfulltrúi, deildarstjóri og forstöðumaður. Ég hafði einnig nýlokið diplóma gráðu í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Dag einn sat ég ásamt oddvita framsóknarmanna í Mosfellsbæ þar sem við vorum saman komin á hreinsunardegi hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Við fórum að ræða um atvinnumál fatlaðs fólks. Ég ræddi um mikilvægi þess að fatlað fólk ætti kost á því að hasla sér völl á almennum vinnumarkaði. Hann tók vel undir umræðu mína og bauð mér á fund. Ég endaði á lista hjá Framsókn í Mosfellsbæ fyrir kosningar það vorið. Þannig hófst mín pólitíska þátttaka.
Ég hafði mikinn áhuga á því að breyta samfélaginu og var uppfull af eldmóði eftir góða kennslu hjá þeim Rannveigu Traustadóttur prófessor og Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur lektor. Ég upplifði hrópandi ósamræmi á milli þess sem ég las um í bókunum mínum, þess hvernig stjórnmálamenn töluðu og raunveruleika fatlaðs fólks þrátt fyrir ágætan vilja flestra. Brotalamirnar stöfuðu stundum hreinlega af fáfræði og reynsluleysi úr reynsluheimi fatlaðs fólks. Það er erfitt að taka ákvarðanir um mál sem þú þekkir afskaplega lítið af eigin raun. Raunveruleikinn er ekki í samræmi við Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Ég ákvað að til þess að geta náð fram breytingum þyrfti rödd mín að heyrast innan stjórnmálanna þeas. hjá þeim sem hafa völdin til þess að breyta. Það er ekki nóg að tala bara um hlutina.
Frá þessum tíma hef ég tekið virkan þátt í pólitísku starfi og áhugasviðið hefur vaxið yfir í mörg önnur mál en aðaláhersla mín liggur á velferðarmálum. Áhersla mín snýst um að hér á landi eigi allir að geta haft það gott alveg óháð því hverjir það eru eða hver staða þeirra er.
Hér hrundi allt, rannsakað hefur verið hvað fór úrskeiðis og nú skapast einstakt tækifæri til þess að byggja samfélagið upp að nýju, sterkara og öflugra en nokkru sinni fyrr. Segja má að við höfum tækifæri til þess að endurfæðast sem nýtt lýðveldi Ísland. Eitt af okkar stærstu verkefnum er að byggja samfélagssáttmála í stjórnarskránni sem getur sameinað okkur öll sem eina þjóð. Ríkjandi menning sem byggir á siðferðisvitund, skýrum leikreglum og breyttum og faglegum vinnubrögðum er grundvallarþáttur í því að vel takist til.
Mér þykir svolítið sérstök umræðan sem sumir halda á lofti núna að ekki sé hægt að greiða fólki atkvæði sem tengist stjórnmálaflokkunum. Ég tel það of mikla einföldun. Það er deginum sannara að margir hafa brugðist í íslenskum stjórnmálum og mjög vel skiljanlegt að fólk sé reitt yfir því hvernig allt fór. Sjálf er ég oft mjög reið. En það er samt mikilvægt að benda á það að meirihluti þeirra sem starfa í stjórnmálaflokkunum er venjulegt fólk með hugsjónir og mikinn vilja til þess að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til þess að gera samfélag okkar allra betra.
Hvers vegna býður maður sig fram til stjórnlagaþings? Til þess að bæta samfélagið sitt á sama hátt og fólk fer oft að taka virkan þátt í pólitísku starfi.
Því hvet ég þig kjósandi góður til þess að skoða frambjóðendur til stjórnlagaþings sem einstaklinga og meta hvern og einn að eigin verðleikum þegar þú tekur ákvörðun þína.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:09 | Facebook
Athugasemdir
Ég fagna því að sjá þitt framboð ekki af því að við báðar erum í Framsóknarflokknum, heldur af því að þú hefur kjark og dug að ég tel til þess að berjast fyrir þínum stefnumálum.
Gangi þér vel.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 21.10.2010 kl. 02:28
Elsku vinkona. Ef það er einhver manneskja sem sinnir þvi sem hún tekur sér fyrir hendur af heilum hug algjörlega óháð flokksböndum þá ert það þú. Gæti ekki stutt neinn meira og haft meiri trú á einhverjum í þetta.
Enda við ekki sammála pólitískt séð en svo oft sammála um mikilvæga hluti. Maður er fyrst og fremst manneskja með gildi og viðmið.
Áfram þú:)
Linda (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.