Sunnudagur, 31. október 2010
Ráðlagður dagskammtur af pillu sem fær þig til að brosa :)
Lífið er svo stutt og lífið er svo óútreiknanlegt.
Vegir lífsins eru órannsakanlegir og oft vitum við ekki okkar næturstað.
Eitthvað sem virtist ótrúlegt í gær er raunveruleiki dagsins í dag.
Við þurfum að fara vel með lífið okkar.
Eitt af því sem ég tel vera mjög mikilvægt er að gleyma aldrei gleðinni, gleyma aldrei kærleikanum og fólkinu sem umkringir mann.
Þessi plötusnúður virkar á mig eins og hamingjupilla. Þegar mig vantar skyndiskammt til þess að fá mig til að brosa þá smelli ég á þetta myndband sem góðvinur minn hann Agnar Bragi benti mér á og hækka í botn :) Þvílík og sönn gleði!
Annað sem ég hef verið að hugleiða og var að ræða mikið við góða vinkonu í dag. Ef þú vissir fyrirfram að lífsgöngu þinni myndi ljúka um næstu áramót hverju myndi það breyta? Myndir þú halda áfram að gera sömu daglegu hlutina og þú gerir í dag?
Ég myndi eyða meiri tíma með fólkinu sem ég elska.
Ég myndi eða meiri tíma úti í náttúrunni og velta fyrir mér undrum augnabliksins í hinni síbreytilegu veröld okkar.
Ég myndi njóta allrar þeirrar menningar sem veitir mér hughrif eins og til dæmis góð tónlist.
Ég myndi njóta hvers augnabliks til hins ítrasta.
Það er svo margt af því sem ég eyði of miklum tíma dags daglega í sem ég myndi ekki gera ef ég þyrfti að forgangsraða tímanum sem ég ætti eftir.
Ég myndi ekki eyða tíma í erfitt fólk.
Ég myndi ekki eyða tímanum í að rífast.
Ég myndi ekki eyða tímanum í áhyggjur af hlutum sem ég get ekki breytt.
Ég myndi ekki eyða tímanum í verkefni sem skipta ákaflega litlu máli þegar upp er staðið.
Ég myndi ekki eyða tímanum í hluti sem væru aðeins til þess að þóknast öðrum en gæfu mér ekkert.
Ég myndi ekki voga mér að drepa tímann við eitthvað sem skiptir mig engu máli.
Svona má lengi telja...
Njóttu hvers dags.
Njóttu hvers einasta augnabliks sem þú dregur andann.
Lífið er svo stutt og lífið er svo óútreiknanlegt og dýrmætt.
Njóttu ferðarinnar en vandaðu hvert skref og mundu að þú skapar þína hamingju!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.