Mánudagur, 8. nóvember 2010
Hvað er betra en að dansa?
Já, hvað er betra en að dansa?
Um helgina fór ég á sveitaball á Þingeyri og dansaði þar ásamt fólki af öllum aldri. Dansaði í tærri gleði eins og enginn væri morgundagurinn.
Einn dansfélagi minn var sennilega um 50 árum eldri og tókum við hressileg spor undir laginu hans Páls Óskars "Það geta ekki allir verið gordjöss".
Síðan þá hef ég hugsað talsvert mikið um það hversu ómetanlega mikilvægt það er að hafa heilsuna í lagi og eiga þessi tækifæri til þess að njóta lífsins til fulls, óháð aldri, stöðu eða öðru. Að geta gleymt sér í augnablikinu og framkallað þvílíka gleði og sælu á tímum þegar ríkir mikil óvissa, ógn, og annað böl sem getur alveg rænt mann hamingjunni.
Að dansa og syngja er eitthvað sem maðurinn hefur gert frá örófi alda og við gerum nánast hvar sem við erum eða hvaðan sem við komum í heiminum. Það er okkur sammannlegt og dásamlegt!
Gleðin er svo mikilvægt eldsneyti í lífinu. Til að vera glöð þurfum við stundum að skoða viðhorf okkar. Við getum alltaf valið okkur viðhorf í hverjum einustu aðstæðum á hverju einasta andartaki í lífinu. Það hvernig annað fólk eða aðstæður hafa áhrif á okkur hefur fyrst og fremst með það að gera hvaða gler eru í viðhorfaglerjunum sem við erum með á hausnum. Lendum við í gríðarlegum erfiðleikum eða virkilega erfiðu fólki getum við valið okkur það viðhorf að vera þakklát fyrir það mikla tækifæri að fá að læra og vaxa. Við eigum yfirleitt um hlaðborð af mismunandi viðhorfum að velja úr. Ég veit að raunveruleikinn er ekki alltaf svona einfaldur þó og stundum er ákaflega erfitt að snapa fram rétta viðhorfinu og brosa bara að öllu saman... en möguleikinn er alltaf fyrir hendi.
Ég hvet þig kæri lesandi óháð því hvað þú ert að ganga í gegnum í lífinu til þess að brosa framan í spegilinn, þakka fyrir að fá að draga andann í þessari mögnuðu ferð um móður jörð, syngja hástöfum einn eða í góðra vina hópi og dansa eins og enginn sjái til þín hvar sem þig langar og hvenær sem þig langar til.
Tækifærið til að lifa er núna og þú ert við stjórnina!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristbjörg,
Takk fyrir jákvæðnina og gleðina í skrifum þínum.
Segðu mér meira um áherslur þínar og af hverju þú vilt á stjórnlagaþing. Ertu flokksbundin eða tengd inn í valdaklíkuna? Er að skoða frambjóðendur og lýst vel á jákvæðnina sem kemur fram í textanum þínum hér að ofan. Reyndar er ég einnig frambjóðandi 7462. Gangi þér vel
Með góðri kveðju, Sólveig Dagmar Þórisdóttir.
Sólveig Dagmar Þórisdóttir (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 00:29
Frábær hugvekja Kristbjörg.
Eiríkur Hans Sigurðsson, 11.11.2010 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.