Sunnudagur, 16. janúar 2011
Hamingjubylting á Íslandi
Hamingja er bara eitt lítið orð. Þetta litla orð er þó mjög gildishlaðið og stýrir mörgu af því sem okkar daglega líf og samfélagið snýst um. Mun meiru en við áttum okkur alltaf á. Það er því þess vert að velta hamingjunni aðeins fyrir sér.
Lífið er stutt. Á þessari stundu fæðast þúsundir jarðarbúa, sumir lifa einungis í nokkra daga eða vikur og verða svo sjúkdómum eða slysum að bráð. Öðrum er ætlað að þrauka í heila öld eða jafnvel meira og reyna allt það sem lífið hefur að bjóða: sigur, örvæntingu, gleði, hatur og ást. Enginn veit hvað bíður hans/hennar. En hvort sem við lifum einn dag eða öld er meginspurningin alltaf sú sama: Hver er tilgangur lífins? Hvað gefur lífinu merkingu? (Leiðin til lífshamingju, bls. 19).
Ég hef þá trú að tilgangur lífsins sé að leita hamingjunnar. Það er ljóst. Hvort sem við erum trúuð eða trúlaus og hverrar trúar sem við erum, leitum við öll að betra lífi. Sjálft lífsaflið knýr okkur áfram í átt til hamingunnar... (Dalai Lama, Leiðin til lífshamingju bls. 17).
Sumum finnst þetta sjónarhorn kannski bera vott um sjálfselsku, einstaklingshyggju og sé ekki gagnlegt að ala á því. Ég vil meina og er sammála Howard C. Cutler geðlækni og Dalai Lama um það að:
Þegar við greinum þá þætti sem leiða til hamingjusamara lífs lærum við að leitin að hamingjunni er ekki bara okkur sjálfum til bóta heldur líka vandamönnum okkar og þjóðfélaginu (bls. 20).
Sem má kannski útleggjast einfaldlega þannig að ef maður er hamingjusamur sjálfur þá hefur maður meira að gefa. Rannsóknir hafa sýnt það að hamingjusamt fólk er tilbúnara til þess að hjálpa náunganum og samhygðin er einn hornsteinn þess að geta lifað í góðu samfélagi og svo á móti þá nærir það hamingjuna að sýna öðru fólki samhygð og gefa af sér.
Hamingjan fæst ekki keypt fyrir fé. Alveg sama hversu ríkur þú ert þá geturðu ekki keypt þér hamingju. Vinningshafar í lottó eru ekkert hamingjusamari þegar bleika lottóskýinu lýkur. Hamingjusamasta fólkið er stundum það sem hefur þjáðst mest. Það hefur lært að temja hugann og tileinka sér þau viðhorf sem skapa jarðveg hamingju. Hamingja ákvarðast frekar af hugarfari en ytri aðstæðum. Hamingjan helst í hendur við það hvernig við skynjum aðstæður okkar og hversu ánægð við erum með það sem við höfum (bls. 23). Það er til dæmis alveg sama hversu há laun þú ert með, þú getur alltaf fundið einhvern með hærri laun, hversu fallegur þú ert, þú getur alltaf fundið einhvern fallegri. Þó ekki sé nema fótósjoppaðan í glansblaði.
Þótt andlegt ástand okkar ráði mestu um það hvort við höndlum hamingjuna verðum við vitaskuld að fullnægja líkamlegum frumþörfum fyrir fæðu, klæðnað og húsaskjól. En þegar þeim hefur verið fullnægt liggur ljóst fyrir að við þörfnumst ekki meiri peninga, meiri velgengni eða frægðar, við þörfnumst ekki fullkomins sköpulags eða fullkomins maka - á þessari stundu, á þessu andartaki þörfnumst við einskis annars en hugans til að verða fullkomlega hamingjusöm. (bls. 35).
Það kemur ekki á óvart að íslenska þjóðin sé ekkert hoppandi kát af hamingju þessa dagana. Frumþarfir okkar eru í hættu. Andleg líðan okkar er ekki nógu góð. Tilfinningavandi er útbreiddur og mikil neysla á geðlyfjum. Úrræðin eru fá. Þegar maður setur það í samhengi við kenningar Dalai Lama þá segir það sig sjálft að þjóð sem er ekki fær um að fullnægja grunnþörfum þegna sinna eins og því að eiga fyrir mat, fötum, og öruggu heimili líður sennilega ekki vel. Ofan á það leggst streitan við það að vita ekki hvað hver og einn skuldar, hvort við eigum að láta kúga okkur til að borga græðgisvæddar skuldir Icesave og fleiri aðila og öll reiðin yfir þeirri gegndarlausu spillingu og viðbjóði sem hefur fengið að þrífast innan okkar stjórnkerfis og við fáum ritrýndar fréttir um á hverjum degi. Þetta þarf að breytast.
Hvert og eitt okkar þarf einnig að líta í eigin barm. Skoða það hvernig við getum höndlað hamingjuna í okkar eigin huga. Skoða það hvernig við getum sjálf verið sú breyting sem við viljum sjá í samfélaginu. Breytingar eru ekki bara eitthvað sem aðrir eiga að gera. Hvert og eitt okkar þarf að vera breytingin eins og Gandhi hefur fjallað um. Saman þurfum við að skapa grundvallarskilyrði þess að geta leitað hamingjunnar.
Þannig getur hvert og eitt okkar fundið sína eigin hamingju. En þá kemur að því sem ungi maðurinn í myndinni Into the wild komst að og skrifaði niður áður en hann lést.
Happyness only real when shared with others.
Þrátt fyrir að geta höndlað hamingjuna þá verður hún ekki raunveruleg fyrr en við getum deilt henni með annarri manneskju. Við þurfum á hverju öðru að halda af óendanlega mörgum ástæðum.
Að lokum langar mig að hvetja alla til þess að mæta á Austurvöll kl. 16:30 á morgun og taka þátt í því við setningu Alþingis að minna stjórnvöld á að valdið liggur hjá fólkinu og við erum ekki sátt með aðgerðir og eftirmála hrunsins.
Græðum sárin sem hafa verið rist í okkar þjóð undanfarin ár, sköpum jarðveg fyrir okkur öll til þess að leita að og höndla hamingjuna. Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Gerum hamingjubyltingu á Íslandi og þá mun okkur farnast vel.
Byltingin að bættu samfélagi heldur áfram á morgun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.