Þriðjudagur, 15. febrúar 2011
Verða þau spurð?
Verða þau spurð hvort þau vilji taka að sér að greiða fyrir óreiðuskuldir og fjármálasukk einkafyrirtækis? Fyrir glæsikerrur, "dótakassa", einkaflugvélar, vínflöskur sem kosta tugi þúsunda og annan ólifnað.
Verður skattpínd þjóðin sem treður marvaðann við að reyna að halda sér á floti og forðast drukknun spurð hvort hún vilji bæta þessu ofan á allt annað?
Hvernig stendur á því að menn sem talað hafa einna hæst um þjóðaratkvæðagreiðslur skuli ætla sér að leggja jafn ósanngjarnar og miklar klyfjar á þjóðina "bara til þess að ljúka málinu".
Hvernig stendur á því að jafn mikilvægt og stórt mál skuli vera keyrt í gegnum þingið eins og menn eigi lífið að leysa?
Lærðu menn ekkert af því að lesa rannsóknarskýrslu Alþingis?
Er þetta Nýja Ísland?
Hvert fór íslenska stoltið, kjarkurinn, dugurinn og þorið?
Í þessum samningi er falin allt of mikil óvissa í fyrsta lagi. Í öðru lagi þá eigum við sem þjóð ekki að greiða fyrir óreiðuskuldir einkafyrirtækis og ónýtt evrópskt regluverk og eftirlit.
Hvet alla til þess að fara inn á www.kjosum.is og skrifa undir að senda Icesave III í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Stöndum vörð saman um okkar velferð og ekki síst framtíð komandi kynslóða okkar.
Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Facebook
Athugasemdir
Steingrímur hlýtur að vera einn vitgrannasti maður allra tíma. Og það segi ég ekki honum til álösunar, heldur okkur hinum, sem greinilega þurfum að horfast í augu við okkur sjálf, og passa okkur að vanda betur valið á þeim sem við kjósum til valda, að dæma menn eftir einhverju raunverulegu, ekki hysmi og tómum orðum sem ekkert fylgir...sama hvað þeir þykjast standa fyrir.
Hvernig getur maðurinn, sem barðist svo mjög fyrir að Svavarssamningurinn yrði samþykktur, og játaði sig svo sigraðan af þjóðinni, og sparaði sá sigur þjóðarinnar milljarða á milljarða ofan......nú farið fram með nákvænlega sama söng, nákvæmlega, nákvæmlega sama svipinn, í nákvæmlega sama anda, jafn fullviss um að hann sé alvitur en þjóðin safn fífla. Á svona maður að hafa völd í lýðræðisríki?
Þetta er sorglegt og við skulum passa okkur að endurtaka aldrei þau mistök að kjósa vanvita. Og meðan við höfum ráðrúm til. Förum á http://www.kjosum.is !!!!!
Baráttukveðjur,
fyrrum kjósandi Steingríms.Tómas (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 23:19
Ég hef átt það til að gagnrýna Framsókn en núna er hann ásamt Hreyfingunni að gera hvað hann getur til að bjarga Icesave og fyrir það eiga þingmenn Framsóknar heiðurs skilið og þakka þér fyrir góða og þarfa grein.
Sigurður I B Guðmundsson, 15.2.2011 kl. 23:44
Ég tek undir með Sigurði. Í gamla daga hefði Framsóknarflokkurinn verið allra síðasti flokkurinn sem ég hefði nokkurn tíman kosið. Ég gerði grín að fólki sem kaus Framsóknarflokkinn og nánast allt ljótt sem hefur verið sagt um þann flokk, sagði ég einhvern tíman líka. Og ég klappaði og hrópaði húrra þegar Framsókn fékk svona fá atkvæði í borgarstjórnarkosningunum síðast...EN.....
viti menn, tímarnir breytast og mennirnir með. Staðan er sú í dag að ef ég væri í þeirri stöðu að ég yrði að kjósa einhvern fjórflokkana, þá myndi ég kjósa Framsókn og engan annan flokk. Ég hef stundum kosið Sjálfstæðisflokkinn, til þess eins að klekkja á Samfylkingunni, sem er flokkur sem ég er mjög á móti, en geri það aldrei meir meðan þeir reyna ekki að sýna meiri lit, og myndi ekki gera það þótt einhver ætlaði að borga mér 10 milljónir fyrir það meðan þessi Bjarni er í forsvari fyrir hann. Ég hef líka kosið Vinstri Græna, en mun aldrei gera það meir, út af framkomu Steingríms og flestra þingmanna þess flokks. Lilja Mósesdóttir og órólega deildin eiga þó ekkert nema aðdáun mína.
Hvað geri ég næst? Ef Besti Flokkurinn, sem ég hef einu sinni kosið, biði fram á landsvísu, þá kýs ég þá EKKI, afþví ég treysti flokknum ekki í ákveðnum málum. Ég myndi heldur ekki kjósa þá aftur í borgarstjórn, af sömu ástæðu. Það eru því tveir valkostir eftir fyrir mig: Hreyfingin og Framsókn. Það gæti vel farið svo að ég kysi Framsóknarflokkinn næst. Líkurnar á því hefði ég talið jafn litlar eins og að eyða því sem eftir væri æfinnar í Turkmenistan eða gerast atvinnugeimfari eða fara að spila í NBA. En svona er komið málum. Sigmundur Davíð hefur vaxið mjög í áliti hjá mér. Takist honum að sýna festu í þessum málum og taka engum gylliboðum frá Samfylkingunni, þá mun kjósendahópur Framsóknarflokksins vaxa mjög og margir ófyrirsjáanlegustu einstaklingar gefa þeim flokki sitt atkvæði, fólk sem hefði ekki talið það mögulegt frekar en ég.
Íslendingurinn (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.