Opið bréf til stjórnlagaráðsfulltrúa

Munu stjórnlagaráðsfulltrúar upplýsa með formlegum hætti um hagsmunatengsl sín?

0905784569.jpgÉg er ein þeirra sem bauð fram til stjórnlagaþings. Í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings óskaði ég ítrekað eftir því að frambjóðendum yrði gert skylt að upplýsa um hagsmunatengsl sín með formlegri hagsmunaskráningu, samanber þeirri sem alþingismenn fylla út og birt er á vefsíðu Alþingis. Ég bendi áhugasömum á þessa slóð:  http://www.althingi.is/vefur/hagsmunaskraning_reglur.html. Í því samhengi  ritaði ég meðal annars opið bréf til innanríkisráðuneytisins sem bar ábyrgð á kynningu á frambjóðendum. Viðbrögðin létu því miður á sér standa. Skortur á hagsmunaskráningu var þó aðeins einn galli á stjórnlagaþingskosningum eins og alþjóð veit. Ég tel það lykilatriði að þeir einstaklingar sem taka að sér að leggja drög að nýrri stjórnarskrá upplýsi um hagsmunatengsl sín.

Nú ítreka ég ákall mitt og spyr það ágæta fólk sem mun á næstu dögum setjast í stjórnlagaráð hvort það muni upplýsa um hagsmunatengsl sín með formlegri hagsmunaskráningu? Þannig geta þessir fulltrúar sýnt í verki þau vinnubrögð sem kallað hefur verið eftir, m.a. um aukið gagnsæi.

Verkefni sem á sér enga hliðstæðu

Stjórnlagaráðsfulltrúar eru einstaklingar sem boðið hafa fram krafta sína til þess að taka þátt í sögulegri endurskoðun nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Ekki aðeins endurskoðun heldur er þetta í fyrsta skipti sem íslenska þjóðin sem lýðveldi setur sína eigin stjórnarskrá. Verkefnið á sér því enga hliðstæðu. Ábyrgð þeirra er gríðarlega mikil og snýst um að leggja drög að sáttmála fyrir okkur öll um það hvernig samfélag við viljum byggja hér.

Verkefni sem þarf að vanda til

Hluta þeirra orsaka sem ollu því að hérlendis hrundi efnahagskerfið má rekja til kunningjasamfélagsins, ógagnsæis, ófaglegra vinnubragða og skorts á formfestu. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Til þess að stjórnlagaráð og fulltrúar þess njóti þess trausts sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist tel ég grundvallaratriði að slík hagsmunaskráning fari fram og verði gerð aðgengileg almenningi.

Drög að nýrri stjórnarskrá send í dóm þjóðarinnar áður en þingið fær þau til meðferðar

Ég er ein þeirra sem hef efasemdir um trúverðugleika stjórnlagaráðs í ljósi þess hvernig til þess var stofnað. Þetta er engu að síður niðurstaðan og ég tel mikilvægt að spila sem best úr þeirri stöðu sem raunin er. Góð og vönduð stjórnarskrá er takmarkið þó ég hefði viljað sjá aðra leið farna að því markmiði. Hagsmunaskráning er ein leið til þess að auka trúverðuleika þeirra sem sitja í stjórnlagaráði. Einnig tel ég grundvallaratriði að þau drög sem stjórnlagaráð leggur fram verði send í dóm þjóðarinnar þar sem kosið verði um einstaka kafla og/eða greinar áður en Alþingi fær þau til afgreiðslu. Stjórnlagaráð verður dæmt af verkum sínum og ég vona að þrátt fyrir þessa brösugu byrjun komi góð og vönduð stjórnarskrá sem leggur grunninn að betra samfélagi á Íslandi. Þá ætti við stjórnlagaþing eins og oft er sagt að „fall sé fararheill". Að lokum óska ég stjórnlagaráðsfulltrúum til hamingju með tilnefninguna ásamt því að óska þeim farsældar í þeirri miklu og mikilvægu vinnu sem framundan er fyrir íslenska þjóð.

Kristbjörg Þórisdóttir

varaformaður Landssambands framsóknarkvenna

(sent fjölmiðlum 29.3.2011)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband