Miðvikudagur, 6. apríl 2011
Nei við Icesave! Hvers vegna?
Það hafa nokkrir komið að máli við mig og spurt mig hvers vegna ég ætli að segja nei við Icesave.
Mín helstu rök eru þessi:
Ég vil ekki samþykkja það að skuldum einkafyrirtækis sé velt yfir á almenning.
Ég tel að slík aðgerð skapi alvarlegt fordæmi fyrir almenning annarra landa sem geta þá einnig átt von á því að skuldum einkarekinna fjármálafyrirtækja verði velt yfir á skattgreiðendur.
Ég tel það ekki líklegt að slíkar aðgerðir auki ábyrga hegðun fjármálafyrirtækja en gríðarleg þörf er á því.
Ég vil ekki greiða skuld sem ég ber ekki ábyrgð á að hafa stofnað til, notið gróða af og alls ekki án lagastoðar eða siðferðilegrar skyldu.
Ég tel í vissum tilfellum geta verið skynsamlegt að semja.
Í þessu tiltekna tilfelli tel ég samninginn fela í sér allt of mikla áhættu m.a. vegna gengissveiflna og óljósrar endurheimtu úr þrotabúi Landsbankans. Í mínum huga er þetta nánast eins og að skrifa undir óútfylltan tékka og það vil ég ekki bjóða núlifandi eða komandi kynslóðum upp á.
Ég tel samninginn einnig vera óréttlátan þar sem öll áhættan falli á Íslendinga en eins og flestir vita þá eru þessi skuld tilkomin vegna gallaðs regluverks í Evrópu. Eðlilegra hefði verið að áhættan dreifðist jafnt á þessar þrjár þjóðir.
Íslenska ríkið er nú þegar ofurskuldsett og við getum ekki bætt á okkur skuld sem okkur ber ekki lagaleg skylda til þess að greiða jafnvel þó við vildum það.
Ég sé ekki hvar á að taka þá 27 milljarða sem greiða ætti strax eftir helgi verði samningurinn samþykktur. Ég tel íslenskt samfélag, velferðarkerfið og grunnstoðir okkar nú þegar vera komnar að þolmörkum og það er ekkert svigrúm eftir fyrir skattahækkanir eða niðurskurð án þess að vandi okkar vaxi verulega.
Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að lausn Icesave sé lykillinn að erlendu fjármagni. Í fyrsta lagi þá hafa stór fyrirtæki verið að fá lán óháð Icesave lausn og í öðru lagi þá myndi ég sjálf ekkert verða spennt fyrir því að lána einstaklingi sem er búinn að drekkja sér í skuldum sem hann getur aldrei greitt og greiðir án lagastoðar.
Ég get ekki tekið mark á þeim stjórnmálamönnum sem héldu langar innblásnar ræður um Icesave I, Icesave II og Icesave III þar sem í öllum tilfellum þeir töldu að nú yrði ekki lengra komist, þjóðin yrði að samþykkja til þess að koma í veg fyrir alls kyns hörmungar. Þeir höfðu rangt fyrir sér og ég vil ekki einu sinni hugsa þá hugsun til enda hvar við værum stödd ef við værum með upphaflegan samning í höndunum sem fara átti hljóðalaust í gegnum þingið sem fól í sér drápsklyfjar fyrir íslenskan almenning.
Ég fyllist tortryggni þegar ég sé heilsíðuauglýsingar í öllum dagblöðum landsins sem kosta milljónir marga daga í röð frá hópi sem vill fá samninginn stimplaðan og að þjóðin taki reikninginn. Hver borgar þessar auglýsingar og hvaða hagsmuna eiga viðkomandi aðilar að gæta?
Sá gegndarlausi áróður sem viðgengist hefur fyrir því að greiða þessa skuld án dóms og laga allt frá Icesave I er einungis til þess fallinn að velta því fyrir sér hvað hangi á spýtunni.
Ég vil ekki horfast í augu við litlu frænku mína sem fæddist daginn sem Eyjafjallajökull fór að gjósa og fagnar því eins árs afmæli sínu á næstu dögum og hugsa til þess að hún muni taka þátt í því að greiða síðustu greiðsluna fyrir óráðsíumenn árið sem hún verður 36 ára. Ég vil geta sagt við hana þegar ég verð sjálf orðin 68 ára og komin á ellilífeyri og síðasta greiðslan verður mögulega greidd af Icesave að ég hafi haft kjark, dug og þor til þess að láta ekki stórþjóðirnar Breta og Hollendinga kúga fámenna íslenska þjóð til þess að borga skuld sem almenningur stofnaði ekki til án dóms og laga.
Ég vil ekki taka þátt í því að ofurskuldsetja íslenska þjóð svo mikið að auðlindirnar okkar verði seldar á brunaútsölu.
Mér þykir leitt að fólk erlendis hafi tapað á Icesave en horfi til þess að vextirnir sem voru á Icesave voru jólasveinavextir og fyrir þenkjandi fólk þá hlýtur það að átta sig á því að ætli maður sér að græða vel getur maður líka tapað miklu.
Ég vil ekki taka þátt í því að "kaupa okkur frá vandanum, kaupa okkur frið, eða vinsældir". Ég myndi ekki ráðleggja barninu mínu sem væri kúgað að láta þann sem kúgaði það fá vasapeninginn til þess að þagga niður í viðkomandi, myndi ekki ráðleggja barninu að kaupa sér vinsældir eða frið. Það er siðferðilega röng hugsun.
Þetta eru meðal þeirra raka og hugsana sem hafa leitt mig að því að segja Nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave. Ég virði það að aðrir vel hugsandi einstaklingar geta komist að þveröfugri niðurstöðu í þessu máli. Málið er einstakt, flókið og hlaðið óvissu sama hvernig við munum kjósa.
Það sem ég geng út frá er að fara í gegnum rökin með og á móti en síðast en ekki síst að hlusta á mitt eigið hjarta, réttlætiskennd mína og hvað ég telji vera rétt að gera í stöðunni þegar ég legg allt þetta saman.
Ég óska íslenskri þjóð farsældar og veit að saman getum við farið inn í bjarta framtíð því tækifærin eru vissulega óþrjótandi þó við förum um dimman Ísbjargardal núna.
Margir hafa kosið um Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.2.2012 kl. 17:10 | Facebook
Athugasemdir
Virkilega vel mælt hjá þér Kristbjörg og ég gæti ekki verið meira sammála.
Hafdís (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.