Stjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun á ákvörðun meirihluta þingflokks Vg

lfkmerkilitur_1076892.gifStjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á ákvörðun meirihluta þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að víkja Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr sæti þingflokksformanns.

Ákvörðunin er ekki síst dapurleg í ljósi þeirrar skyldu sem þingmenn og þingflokkar hafa að ganga á undan með góðu fordæmi, meðal annars í jafnréttismálum. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu hefur nú þegar lýst því yfir að aðgerðin sé á gráu svæði og það sé slæmt þegar konum fækki í áhrifastöðum. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna tekur undir þau orð.

Það vekur furðu að þingflokkur stjórnmálaafls sem sýnt hefur sig sem einn helsta talsmann raunverulegs jafnréttis skuli ekki ástunda þau vinnubrögð sem boðuð eru. Það er ekki til þess fallið að öðlast traust almennings að segja eitt en gera annað.

Það er grundvallaratriði í jafnréttismálum að konur jafnt sem karlar geti gengið að stöðu sinni vísri við endurkomu úr fæðingarorlofi. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna harmar að með aðgerð sem þessari er ekki stuðlað að því að Alþingi Íslendinga sé fjölskylduvænn vinnustaður þegar þingmenn sem fara í fæðingarorlof geta átt það á hættu að missa fyrri stöðu eða embætti við það að eignast börn.

(Ályktun send fjölmiðlum 11.4.2011)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband