Þriðjudagur, 24. maí 2011
Lengi skal manninn reyna
Þar sem ég get ekki sofið þá ákvað ég að dreifa huganum með því að heilsa upp á bloggsíðuna mína sem hefur verið heldur vanrækt undanfarið. Hef staðið í annars konar skrifum og því hefur bloggið fengið frí.
Ég hef verið að hugsa um íbúa litlu eldfjallaeyjunnar. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með undanfarna daga hvernig manneskjuna reynir í þeim hamförum sem yfir okkur ganga. Ég fylltist stolti af því að heyra fólk lýsa óbilandi bjartsýni í fréttunum yfir því að þetta væri nú ekki svo mikil aska, mun minna en í næsta nágrenni, eða mun minna en síðast. Æðruleysið endurspeglaðist á ríkulegan hátt í tilsvörum íbúa Suðurlands. "Við verðum bara að láta okkur hafa þetta, vona að þetta taki sem fyrst enda".
Ég fylltist samt sorg af því að sjá skepnur sem orðið höfðu öskunni að bráð.
Náttúruöflin eru ekkert lamb að leika sér við. Þegar náttúrunni sýnist sem svo þá verðum við bara að láta okkur hafa það. Standa af okkur öskustorminn þó svíði í augu og vit og vonast eftir betri tíð með nýjum blómum í haga.
Hinn óstöðvandi kraftur Íslendinga og oft mikil trú á eigin getu er sennilega sprottin í gegnum árin úr þessum aðstæðum. Við höfum þurft að standa af okkur náttúruöflin af æðruleysi á okkar fallega en harðbýla landi og við höfum áttað okkur á því að oftast getum við það. En lengi skal manninn reyna.
Ég dáist svo að seiglunni sem í okkur býr. Það hrundi allt hér, náttúruöflin hafa reynt á undanfarið og í kjölfarið hriktir í grunnstoðum okkar. En ekki gefst fólk upp. Nei, við reynum að læra á hverjum degi (gengur misvel auðvitað) og við sópum og mokum öskuna án þess að leggja hendur í skaut. Við berjumst fyrir betri stjórnarskrá og bættri stjórnskipan. En er þetta allt svona frábært?
Þessi seigla okkar er kannski líka skýringin á því hversu mikið langlundargeð við höfum gagnvart mörgum þeim hamförum sem eru manngerðar og hafa dunið á okkur. Við erum ekki vön að eyða orkunni í að berjast við náttúruöflin heldur höfum við vanist því að standa af okkur storminn og takast svo á við uppbyggingarstarfið þegar lægir.
Ég velti því fyrir mér hversu lengi mig mun svíða þær fréttir að íslenskum almenningi hafi verið fórnað fyrir hagsmuni fjármagnseigenda, enn eina ferðina. Hversu lengi mun ég horfa á eldana brenna upp eignir almennings og bankana fitna? Hversu lengi mun ég horfa upp á úrræðaleysið í því að takast á við hamfarirnar með réttum hætti? Hversu lengi mun ég sætta mig við það að hafa eytt ótal árum í að mennta mig en sjá svo ekki fram á góð atvinnutækifæri? Hversu lengi mun ég súpa hveljur við kassann í Bónus? Hversu lengi mun ég loka eyrunum þegar enn ein fréttin af sukki og spillingu heyrist í fjölmiðlum?
Hvað er eiginlega langt í að græna grasið spretti upp úr öskunni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.