Miðvikudagur, 25. maí 2011
Hvert ætlaðir þú eiginlega vinan?
Í kvöld rifjaðist upp fyrir mér ákveðinn atburður frá því ég var að hefja nám mitt í Árósum sem mig langar að deila með ykkur ásamt smá hugleiðingum um lífsrútuna.
Þannig var mál með vexti að ég fór ein út, þekkti aðeins eina manneskju í Árósum. Ég var fyrstu þrjár vikurnar án sjónvarps og netsambands. Ég var svo þrjósk að ég talaði nánast bara "dönsku" sem fáir skildu og þóttist skilja Danina en skildi auðvitað varla bofs. Svo mikið skildi ég að þegar ég var spurð í búðinni "Vil du ha´ bonnen med?" (sem þýðir, viltu strimilinn?) þá svaraði daman að bragði brosandi "Nej, jeg kommer fra Island". Þetta voru sérstakar en eftirminnilegar vikur. Leið eins og ég væri í dönskum survivor leik án þess að vita reglurnar.
Eitt af því sem ég ákvað að gera fljótlega eftir að ég kom út var að taka hring með strætónum mínum, þristinum til þess að kynna mér leiðina. Ég fór upp í þristinn, kom mér vel fyrir og sat svo þar í amk. tvo klukkutíma. Fylgdist með fólkinu sem kom inn og út úr strætó. Draumaaðstaða sálfræðinemans. Þarna var allur skalinn af fólki. Unglingsstelpurnar sem var hent út úr strætónum fyrir að spila tónlist allt of hátt úr símunum sínum og pirra alla viðstadda, maðurinn sem hefði getað hafa misst yfir sig heila brennivínsflösku eftir lyktinni að dæma og flest þarna á milli.
Þegar liðið hafði vel á mannfræðitilraunina og skoðunarferðina um Árósa í strætó þá leist mér ekki alveg á blikuna. Skyndilega var ég ein eftir og komin á svæði sem virtist vera langt frá og vagninn stöðvaðist og ekkert gerðist. Að endingu kom bílstjórinn til mín og spurði mig á dönsku: "Hvert ætlaðir þú eiginlega vinan?" (vel meðvitaður um það að þessi farþegi var búin að sitja þarna lengi vel). Það kom sem sagt í ljós að þetta var ekki hringur heldur fór vagninn inn á annað svæði og var að fara að keyra nýja leið, nýtt númer. Þristurinn var að verða að sjöu! Í þessum framandi heimi mínum datt mér ekki í hug að þristur yrði ekki áfram þristur sem færi hring eftir hring. Ég skrölti því út og að endingu fann ég leiðina "heim". Græddi alveg heljarinnar göngutúr svo vægt sé til orða tekið.
Þessa reynslu má heimfæra upp á lífið sjálft. Í lífsrútunni okkar þá er fólk stanslaust að koma og fara. Sumir stoppa stutt, aðrir lengur. Munurinn á lífsrútunni okkar og strætó er sá að við getum mögulega stjórnað lífsrútunni og við getum að einhverju leyti stjórnað hverjir koma upp í og hverjum við viljum hleypa út. En lífið er stundum eins og skoðunarferðin mín um Árósa. Maður hefur ákveðna leið í huga en svo endar maður á allt öðrum stað og rútan sjálf er kannski allt í einu farin að keyra nýja leið undir nýju númeri.
Við eigum stanslaust val í lífinu. Val um það hvort við sitjum sem farþegar og bíðum þess að einhver annar velti því fyrir sér hvert við ætluðum eiginlega að fara. Þegar ferðaplönin breytast skyndilega þá eigum við líka val um það hvernig við tökumst á við það. Við eigum val um það hvernig við túlkum allar aðstæður og annað fólk og hvernig við bregðumst við. Við ráðum um hvað við hugsum og við getum valið okkur viðhorf. Stundum skín sól á rútuna okkar og allt er svo bjart og fallegt, stundum er hún föst í skafli. Stundum kippir annað fólk í stýrið eða hreinlega tekur yfir aksturinn, stundum erum við farþegar aftast með skelfingarsvip þar sem leiðin er hafin á nýjar slóðir og rútan búin að breyta um nafn, stundum erum við rútubílstjórinn sjálfur sem lætur ekkert trufla sig og nýtur ferðarinnar í samfloti með góðu fólki.
Það er gott að ögra sér með nýjum áskorunum því það sem reynir mest á mann gefur manni oft mest. Að sama skapi reynir það líka á mann þegar lífið sjálft ögrar manni og lífið fær nýjan lit. En það sem skiptir kannski ótrúlega miklu máli í þessu lífi er að njóta allrar ferðarinnar óháð því upp á hvað hún býður því það er engin önnur rúta í boði og engin önnur ferð svo við vitum. Njóta óvissunnar jafnt því sem við stýrum sjálf. Það skiptir máli að fara á nýjar slóðir því með því fær maður ótrúlegar gjafir frá lífinu eins og ég fékk með því að fara ein út í nám.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.