Stjórnlagaráðsfulltrúar gangi fram fyrir skjöldu

(grein birt í Morgunblaðinu í dag, 1.6.2011)
Hvenær munu stjórnlagaráðsfulltrúar ganga fram fyrir skjöldu og hefja vegferð breytinga hjá sjálfum sér með samræmdri birtingu um hagsmunatengsl sín?

0905784569_1088211.jpgÍ kjölfar hruns blésu ferskir vindar uppbyggingar um íslenskt samfélag. Hávær krafa er uppi um breytt stjórnarfar og endurskoðun á grundvallarstoðum. Störf stjórnlagaráðs snúast um það að leggja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, verkefni sem á sér enga sögulega hliðstæðu.

Stjórnlagaráðsfulltrúar verði breytingin sem þeir vilja sjá

Eitt af því sem farið hefur verið fram á er gagnsæi. Gagnsæi getur dregið verulega úr líkum á spillingu og eiginhagsmunapoti. Ég var ein þeirra sem bauð fram krafta mína til stjórnlagaþings. Í kosningabaráttunni lagði ég ríka áherslu á samræmda hagsmunaskráningu frambjóðenda sem eina leið til þess að sýna raunverulegt gagnsæi í verki. Mahatma Gandhi sagði eitt sinn: „Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum". Ég tek undir með Gandhi og tel að ætli fólk sér að breyta einhverju þurfi það að byrja hjá sjálfu sér.

Talað fyrir daufum eyrum

Ég hef skrifað og fjallað talsvert um mikilvægi hagsmunaskráningar bæði í aðdraganda kosninganna og eftir þær en talað fyrir daufum eyrum. Ég ritaði opið bréf til Dómsmálaráðuneytis í aðdraganda kosninganna sem og opið bréf til stjórnlagaráðsfulltrúa þann 30. mars s.l. þar sem ég skoraði á fulltrúa stjórnlagaráðs að upplýsa með samræmdum og opinberum hætti um hagsmunatengsl sín. Ég lagði til að notast yrði við þá aðferð sem alþingismenn nota nú þegar og aðgengileg er á vef Alþingis á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/vefur/hagsmunaskraning_reglur.html og aðlaga að stjórnlagaráði. Einnig sendi ég ráðinu formlegt erindi þann 13. apríl s.l. varðandi sama málefni. Ég tel þá starfsferilsskrá sem birt er á vef stjórnlagaráðs engan veginn fullnægjandi þar sem hún er ekki gerð með samræmdum hætti og ekki er getið um fjárhagslega hagsmuni stjórnlagaráðsfulltrúa.

 Ég hef engin formleg svör fengið og get ekki séð af störfum stjórnlagaráðs að til standi að verða við athugasemd minni. Þann 19. maí síðastliðinn lagði B nefnd stjórnlagaráðs fram tillögur þar sem ákvæði er um hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra og fagna ég því en ekki er minnst á hagsmunaskráningu stjórnlagaráðsfulltrúa sjálfra.

 Ég spyr enn á ný, hvenær munu stjórnlagaráðsfulltrúar ganga fram fyrir skjöldu og hefja vegferð breytinga hjá sjálfum sér með opinberri birtingu samræmdra upplýsinga um hagsmunatengsl sín?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hversu margir stjónlagaþingsfulltrúar eru opinberir starfsmenn t.d.?

Hve margir eru varaþingmenn a blaði?

Prestar?

Hversu margir eru baráttumenn eins afmarkaðs málstaðar, sem kemmur stjórnarskrársamningu ekkert við, eins og t.d ESB trúboðar?

Þetta er gersamlega vanhæft þing að megninu til og flestir eru með einhver hulin markmið eða hagsmunatengsl þarna inni.

Örn Bárður gaf það út í framboði að hann væri með aðskilnaði ríkis og kirkju en sneri við sannfæringu sinni um leið og hann vissi að hann hafði náð kjöri.  Ber það t.d. vott um heiðarleika og hlutleysi?

Jón Steinar Ragnarsson, 1.6.2011 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband