Fimmtudagur, 2. júní 2011
Ekki missa augun af boltanum
Reglulega blossa upp pólitískar þrætur um ESB í flokkunum (nema kannski síst Samfylkingu sem gengur að langmestu leyti í ESB einróma takti og virðast ákveðin í sinni afstöðu að fara inn, sama hvað kemur út úr viðræðum).
Það er algjör óþarfi að missa augun af boltanum og eyða orkunni í að þræta um ESB.
Þetta mál er þess eðlis að það verða skiptar skoðanir um það og hver og einn þarf að fá að gera það upp við sig. Málið er þjóðarinnar og þjóðin mun kveða upp sína niðurstöðu.
Að mínu mati er best að leyfa aðildarviðræðum að klárast og hver og einn taki svo afstöðu eftir sinni sannfæringu að því loknu. Afgreiða málið inn eða út af borðinu.
Flokkarnir eiga ekki að láta þetta þrætuepli þvælast fyrir sér. Í mínum huga er best að þeir ræði þetta sem minnst innan sinna raða en einbeiti sér frekar að því að hvetja til upplýstrar, öfgalausrar umræðu í öllu samfélaginu. Flokkarnir munu hvort eð er ekki ráða þessu, það er þjóðin sem ræður.
Verkefni stjórnmálaflokka á Íslandi í dag er að hlúa að íslensku þjóðinni eftir skelfilegt hrun. Af nægum verkefnum er að taka og það er bagalegt að ESB orkusugan þvælist fyrir þeim forgangsverkefnum sem þarf að vinna. Hvert gott verk sem unnið er í skuldamálum heimila og fyrirtækja, velferðar-, mennta-, atvinnu-, umhverfismálum og svona má lengi telja skiptir sköpum fyrir íslenskan almenning á hverjum einasta degi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.