Draumur um hamingju

dreams.jpg

Öll eigum við okkur drauma í þessu lífi.

Öll langar okkur að höndla hamingjuna.

Hamingjan er ekki efnisleg. Það er ekki hægt að kaupa hana, selja hana, mála hana, byggja hana. Það er ekki einu sinni hægt að gefa hana. Hamingjan er eitt af því sem við þurfum sjálf að skapa okkur. Það getur enginn annar gert okkur hamingjusöm eða haldið okkur hamingjusömum.

Ég hef hinsvegar trú á því að fáum við færi á því að deila hamingju okkar með öðrum sem deilir sinni hamingju þá verði veldisvöxtur á hamingjunni og upplifunin margföld. Eins og segir í myndinni Into the wild - "Happyness only real when shared with others".

Ein leið til þess að njóta hamingju er að finna drauma sína, langanir og þrár og sækjast eftir þeim, uppfylla þá. Ég dáist að fólki sem fylgir draumum sínum, fær þá uppfyllta og nýtur svo hamingjunnar sem fylgir í kjölfarið.

Önnur leið til þess að njóta hamingju er að grípa tækifærin sem gefast í lífinu. Lífið er dásamlegt ferðalag og á hverju einasta augnabliki birtir æðri máttur okkur eitthvað nýtt og gefur okkur gjafir. Það er okkar að velja og hafna eftir því hvert okkur langar að fara í lífinu. Við eigum valið og draumarnir eru okkar. Maður þarf að hafa hugmynd um það hvert mann langar því annars fer maður bara í hringi. Verður eins og ræðarinn sem róir með einni ár.

Fólk virðist stundum sjálft standa mest í vegi fyrir sinni eigin hamingju. Það veit ekki hvert það er að fara, fer í hringi og fálmar í óðagoti eftir þeim tækifærum sem koma en nær ekki að grípa þau. Fólk horfir jafnvel í öfuga átt, á lokuðu hurðina í líifnu í stað þess að sjá hinar nýju sem opnast hafa. 

Ég held að ástæðan sé ótti. Það er alþekkt að oft vill fólk frekar vera í hörmulegum aðstæðum en halda á vit hins óþekkta. Það þorir ekki áfram af því þá þarf það að fara út úr þægindahringnum og lætur kjarkleysi taka stjórnina. Í kjölfarið glatast tækifæri til þess að vaxa í lífinu, blómstra og öðlast nýja hamingju.

Lífið er magnað ferðalag sem við förum bara einu sinni. Lærum af fortíðinni, verum í núinu og horfum fram á veginn. Njótum hvers augnabliks, hvers demants á leiðinni, leyfum draumum okkar að marka veginn, grípum tækifærin og þá fyllist bakpokinn okkar af hamingju :). Að lokum getum við svo litið stolt yfir farinn veg, vitandi það að við gerðum allt sem okkur langaði til, sjáum ekki eftir neinu og eigum bakpoka fullan af minningum sem eru þyngdar sinnar virði í gulli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Kærar þakkir fyrir góða færslu..Þörf áminning.

Kveðja frá frænku í Heiðarbæ.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 10.6.2011 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband