Mánudagur, 4. júlí 2011
Ferðalag lífs míns
Ég var að hugsa um ákvarðanir sem ég er að taka um þessar mundir. Stend á margs konar krossgötum eins og eflaust margir aðrir.
Ég fór þá að hugsa um ferðalag lífs míns og okkar allra.
Lífið er eins og gott ferðalag.
Þessu ferðalagi þarft þú að stýra og skipuleggja viljir þú njóta þess til hins ítrasta. Það ætti maður að gera vegna þess að þetta er eina ferðin sem er á áætlun svo við vitum.
Skoðaðu drauma þína og þrár. Hvert langar þig að fara? Hver viltu vera? Með hverjum og hvað viltu skilja eftir þig? Fyrir hvað vilt þú vera þekkt/þekktur? Hvernig viltu að annað fólk minnist þín? Komir þú til dæmis illa fram við fólk þá mun það sennilega minnast þín þannig. Á hverjum nýjum degi getur þú bætt þig og bætt gjörðir þínar til hins betra. Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað.
Þú átt ótrúlega möguleika. Mannsandinn getur flest sem hann ætlar sér. Flestar hindranirnar eru í huganum á okkur sjálfum. Nýlega hljóp fólk hringinn í kringum landið á tveimur vikum af því það ákvað það!
Hvernig ætlarðu þangað sem þig langar? Hvernig ætlarðu að framkvæma draumana? Hvenær? Með hverjum?
Geri maður það ekki er hætta á því að þegar ferðalaginu lýkur hafi maður ekki séð eða gert nema brot af því sem mann langaði til. Þig langar kannski til þess að öðlast hamingju. Hvernig ætlarðu að öðlast hana? Hún kemur ekki af sjálfu sér. Ég mæli ekki með því að ætla að kaupa hana með Range Rover eða fá hana í Cheerios pakka, það virkar sennilega ekki.
Ef þú gerir ekki áætlun þá er hætta á því að þú missir tök á fararstjórninni og einhverjir aðrir séu allt í einu búnir að setja upp áætlun fyrir þig og þú keyrir eftir því. Lífið er of stutt til þess að ferðast um það í pakkaferð. Vertu þinn eigin fararstjóri.
Vertu líka viðbúinn að bregðast við óvæntum uppákomum á hverju andartaki, læra, þroskast og njóta andartaksins.
Að lokum...
Góða ferð :)
Mundu að þú ert þinn eigin ævisögusmiður.
Life is a short story so you better make it a good one!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:43 | Facebook
Athugasemdir
Góður og hollur pistill fyrir alla..............
Jóhann Elíasson, 4.7.2011 kl. 07:26
Fallegur pistill hjá þér að vanda mín kæra! Finnst yndi að vera samferða þér í lífsins ferðalagi
knús og kossar
Linda
Linda (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 10:32
Flott skrifað og mikið ansi rétt ..vera sinn eigin fararstjóri = vera Skipstjórinn á sinni eigin skútu þar sem LOGNIÐ er ekki alltaf kostur, það þarf að fá byr í seglin :) Þetta sagði Sigursteinn Másson einu sinni á fyrirlestri sem ég fór áhjá honum og var alger snilld..Þið eruð að tala sama tungumálið :)
Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 4.7.2011 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.