Miðvikudagur, 20. júlí 2011
Frosin andlit og blóði drifin fegurð
Um helgina horfði ég á þátt um lýtalækningar. Ég varð svolítið hugsi eftir þennan þátt.
Mér þótti frekar óhugnalegt að sjá aðfarirnar við líkama kvennanna (þetta voru allt konur í þessu tilfelli) á skurðarborðinu. Þarna lágu þær eins og skrokkar sem verið var að skera til hér og þar eins og verið væri að snyrta til kjötskrokka. Skerum, troðum, pumpum og saumum saman. Úr einni var skorið heljarinnar stykki, geirvörturnar skornar framan af annarri og plasti troðið við kinnbeinin í andlit þeirrar þriðju.
Hvað er það sem fær gullfallegar ungar konur til þess að leggjast undir hnífinn og láta skera í líkama sinn, leggja sig í hættu og mikinn sársauka án þess að nauðsyn krefji?
Er nútímakrafan um photoshoppaða fegurð orðin svona blóðug? Er þetta bara hluti af almennum leiðum til þess að breyta útliti sínu?
Ég get ekki trúað því að það sé hollt að skera í líkamann á okkur og eiga við hann að óþörfu þeas. þegar ástæðan er ekki vegna lækninga heldur til þess að breyta útliti.
Er það eðlilegt? Þarf ekki líka stundum að vinna með sjálfsmyndina og viðhorf fólks til sjálfs sín? Hvenær er fólk fullkomlega sátt við líkama sinn? Er hægt að ná þeirri sátt fram með blóði, aðgerðum og plasti? Er hægt að skera út rétta líkamsímynd og sjálfsmynd? Er ekki erfitt að hætta þegar fólk byrjar að hrófla við guðsgjöfinni, líkama sínum? Hvað með allt annað sem við breytum vegna útlits t.d. hárlitanir, tannhvíttanir og þess háttar sem margt er afar algengt og hluti af nútímanum? Hvar liggja mörkin á milli þess sem er í lagi og þar sem farið er yfir strikið?
Ég velti því líka fyrir mér hvaða áhrif þessar andlitslyftingar hafa á tjáningagetu fólks þar sem það er vitað að stór hluti af samskiptum okkar fara fram í gegnum líkamstjáningu. Þar leika andlitið, svipir þess og drættir lykilhlutverk ásamt því sem við segjum og tóntegundinni. Svipbrigði fólks eru eitt það fyrsta sem ungabörn læra að greina hvort andlitið er reitt, glatt, ógnandi eða hrætt. Ég prófaði þetta á litlu frænku minni sem var þá nokkurra mánaða og setti upp reitt andlit og uppskar grátur og gnístran tanna og þurfti greyið litla smá tíma til þess að taka frænku sína í sátt aftur.
En hvað gerist þegar fólk er búið að frysta hluta af þessum hæfileika? Ætli það hafi áhrif á tjáningargetu fólks og samskiptahæfni þess? Getur ekki verið að fólk sem er búið að lama að einhverju leyti þennan möguleika lendi í vandræðum þegar orð þess og tóntegund passa illa við það frosna svipbrigði sem andlitið sýnir?
Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að í sumum tilfellum eiga lýtalækningar fullkomlega rétt á sér og að hver og einn ræður yfir líkama sínum og er frjáls til þess að gera það sem honum sýnist við hann án þess að það komi öðrum við.
Ég er bara svolítið hugsi yfir því hvenær krafan um fegurð er orðin blóði drifin og farin að hafa áhrif á heilsu fólks. Hvenær er nóg, nóg? Hvar á að stoppa?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.