Fimmtudagur, 21. júlí 2011
Eitt líf - eitt tækifæri - allra manna réttur
Ég er á skemmtilegum og dýnamískum vinnustað þar sem oft er verið að ræða lífsins mál í hádeginu. Eitt af því sem við ræddum um daginn var kynhneigð fólks. Upp úr þeirri umræðu fór ég að hugleiða orðið mannréttindi og hversu gífurlega mikilvægt það er.
Við fæðumst jöfn, ein og allslaus.
Við deyjum jöfn, ein og allslaus.
Lífsgangan er okkar tækifæri til þess að uppfylla langanir okkar, þarfir og þrár. Okkar eina tækifæri til þess að uppfylla drauma okkar og finna hamingju. Það er því eins gott að njóta hvers skrefs og láta lífið ekki framhjá sér fara og nýta rétt sinn til fulls.
Einn mann dreymir um mann, börn, hund, hús, jeppa og sumarbústað...
Annan mann dreymir um konu, börn, hund, hús, jeppa og sumarbústað...
Fatlaðan mann dreymir um fjölskyldu, heimili, vinnu, golf á laugardögum...
Ófatlaðan mann dreymir um fjölskyldu, heimili, vinnu, golf á laugardögum...
Og svona má lengi telja því þarfir okkar, draumar og leiðin að hamingju er eins misjöfn og við erum mörg en sumt samt svo líkt.
Ein góð vinkona mín segir alltaf: "Það geta ekki allir verið eins". Mikið sem hún hefur rétt fyrir sér!
Við fáum bara eitt tækifæri til þess að lifa því lífi sem veitir okkur mesta hamingju. Eiga ekki allir sama rétt á því að finna út hvernig það líf lítur út og njóta þess að lifa því? Svo framarlega sem það gangi ekki yfir rétt annars fólks? Ef mín lífshamingja fælist í því að berja náungann þá getur samfélagið ekki samþykkt það og ég þyrfti að kaupa mér boxpúða.
Einn af rúmlega 700 "vinum" mínum á Fésbókinni ákvað að hætta að vera vinur minn þar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég hafði skráð mig í Gaypride gönguna. Þó ég sakni ekki vináttu jafn þröngsýns einstaklings þá vakti þetta mig til umhugsunar.
Ég hef farið nokkrum sinnum í Gaypride gönguna og það er eitt það dásamlegasta sem ég hef upplifað. Það sem skín framar öllu þar er gleðin yfir réttinum um það að fá að vera nákvæmlega það sem maður er og vera stoltur af því. Í valdi hvers er það að ákveða hvernig einhver annar á að vera? Það sem svífur yfir vötnum í gleðigöngunni er kærleikur ofar öllu. Mikið rosalega myndi samfélagið fara á mis við mikið ef þröngsýnir og umburðarlausir einstaklingar myndu ráða því að smíðað yrði eitt mót sem troða ætti öllum í.
Hversu kærleiksríkt og kristilegt er það að lifa þannig að fólk sem styður rétt allra til þess að vera það sem það er eigi ekki upp á pallborðið hjá þér? Ofsatrú?
Sem betur fer erum við gagnkynhneigð, samkynhneigð, tvíkynhneigð, kynlaus, lítil, stór, grönn, stælt, feit, ljóshærð, rauðhærð, dökkhærð, skollótt, svört, brún, hvít, gul, rauð, fötluð, ófötluð, lágvaxin, hávaxin, freknótt, ófreknótt,skappstygg, ljúf, ráðvillt, staðföst, listræn, verklagin, klunnaleg, fínleg, búkstutt, búklöng, leggjastutt, leggjalöng, með krullað hár, með slétt hár, loðin, hárlaus, hugsandi, óhugsandi, einföld, flókin, með gleraugu og án, heppin, óheppin, skipulögð, óskipulögð, alvarleg, léttgeggjuð, flippuð, jarðbundin, barnmörg, barnlaus, kristin, trúlaus, búddhistar, ESB sinnar, ESB andstæðingar, skoðanamikil, skoðanalítil og svona mætti endalaust telja upp því við erum eins og við erum kokkteill af okkar góðu og slæmu eiginleikum!
Njóttu þess að finna út hver þú ert og sækjast eftir því sem þú vilt.
Þú átt bara eitt líf - eitt tækifæri en sama rétt og allir aðrir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.