Nú reynir á...

"Summer came and left without a warning..." sönglar í einu af uppáhalds lögunum mínum. Efnisinnihaldið finnst mér þó ekkert spennandi þar sem ég er mikill aðdáandi sumars en síður vetrar.

Íslenska þjóðin horfir fram á haust og svo vetur. Á endanum mun vora á ný með sumri og sól.

6. október getum við haldið upp á 3 ára afmæli hrunsins. Efast samt um að nokkur mæti í þetta 3 ára afmæli eða komi með köku. Það mætti kannski blása á kerti og óska sér þess að skuldaklafinn hyrfi, allir fengju atvinnu, þeir sem bera ábyrgð á hruninu myndu sæta ábyrgð en væru ekki meðal hæstu skattgreiðenda landsins, regluverkið yrði lagað, eftirlitinu kippt í lag, umbætur gerðar á öllu stjórnkerfinu og hæft fólk ráðið inn fyrir óhæft.

Við höfum verið í rússíbanareið frá því að sjúkleg græðgishyggjan, spillingin, stjórnleysið, eftirlitsleysið, ónýtt regluverk og siðlaust fólk keyrði okkur fram af. Eftir situr ráðvillt fólk í sárum og skuldum. Við réðum ekki neitt við neitt og gerum ekki enn, því miður. Innviðir samfélagsins eru í hættu og ríkisstjórnin skattleggur allt á milli himins og jarðar með tilheyrandi frosti. Mikil endurbótavinna er óunnin og siðbót eða viðhorfsbreyting hefur tæpast orðið.

Engin hefðbundin úrræði duga á slíkt ástand og ekki myndaðist samstaða um að leita bestu lausna fyrir heildina eða hreinlega varð sátt um hver hún væri. Samvinnu skorti. Sumir kannski of uppteknir af því að hugsa um eigin hagsmuni ofar almannahag? 20% leið Framsóknar var slegin útaf borðinu eins og fluga sem dustuð er í burtu. Leiðin sem margir hafa lýst yfir að hefði breytt miklu hefði hún verið skoðuð, aðlöguð og græjuð. 

Núna horfum við á eftir mörgu af okkar besta fagfólki, ungu fólki og ótal fjölskyldum flytja úr landi. Námsmenn sumra greina sleppa því að koma heim með nýfengna þekkinguna í farteskinu. Kannski endum við eins og Færeyjar sem misstu ákveðinn hóp sem aldrei kom aftur þó ástandið væri orðið framúrskarandi á ný. Fólk festi rætur og kom ekki aftur en eftir sátu þeir með óhefðbundinn mannfjöldapíramída. Kannski lendum við í því sama og Finnar og missum heilu kynslóðirnar í atvinnuleysi, þunglyndi og reiðileysi með tilheyrandi kostnaði.

Þetta vitum við og þetta vissum við fyrir. Þetta á ekki að þurfa að endurtaka sig. Það sem við gerum núna hefur úrslitaáhrif á komandi framtíð.

Við kusum fólk til að leggja drög að nýrri stjórnarskrá (þó kosningin hafi heldur klúðrast). Stjórnlagaráð var skipað. Hvað gerist nú? Mun þingið taka tillöguna og tæta hana í sig, svæfa drögin í nefnd eða reyna að ná sátt um breytingar á stjórnarskrá sem aldrei hefur tekist frá stofnun lýðveldis? Er líklegt að þingmenn sem standa úti í miðri jökulá hrunsins fari að ná sögulegri sátt um nýja stjórnarskrá? Er eðlilegt að þingmenn fari að eiga við drögin áður en almenningur fær að segja sitt ráðgefandi álit? Eru þingmenn hlutlausir um málefni sem snerta löggjafarvaldið og þeirra eigin störf?

Þingið gæti lært mikið af vinnu stjórnlagaráðs sem náði sögulegri sátt í erfiðum málum. 

Mín skoðun er skýr. Nú á þingið að gefa valdið eftir til fólksins í landinu og leyfa því að segja sitt álit á drögunum lið fyrir lið. Við stöndum á sögulegum krossgötum. Á þessar aðstæður þýðir ekki fyrir þingmenn að ætla að stunda "business as usual". Þá verður þeim vonandi fleygt út við fyrsta tækifæri og valdið fært til þeirra sem vilja raunverulegar breytingar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband