Andlit reiðinnar á Austurvelli

581758.jpgÉg fór á Austurvöll í kvöld.

Ég barði ekki í tunnur að þessu sinni en ég stóð á Austurvelli og upplifði.

Sama upplifun og í fyrra. 

Margmenni af venjulegu fólki í óvenjulegum aðstæðum.

Fólki sem einu sinni var kannski ekkert mikið að velta fyrir sér stjórnmálunum nema við umræður við eldhúsborðið heima. Fólki sem nú sér sig knúið til þess að mæta á Austurvöll og reyna að leggja sitt af mörkum til þess að bregðast við vonlitlu ástandi.

Ég sá andlit reiðinnar á sveimi, hauskúpa með blóðugum augum sveimaði um á mótmælaspjaldi. Táknmynd þeirrar reiði sem undir kraumar. Eðlilegrar tilfinningar þess sem brotið hefur verið á. Maðurinn við hliðina á mér blés stanslaust í flautu. Held hreinlega að hann hafi verið þarna í fyrra. Hann blæs enn í flautuna því enginn hefur heyrt í honum og ekkert hefur komið honum til bjargar. Minnir óþægilega á fólkið úr Titanic myndinni sem flautaði og kallaði eftir hjálp en fékk enga. Bátarnir með fína fólkinu í pelsunum sneru ekki aftur fyrr en flestir voru sokknir eða frosnir. 

Ég veit ekkert af hverju annað fólk var þarna en eins og Guðmundur Steingrímsson kom inn á í ræðu sinni þá veit ég hvers vegna ég var þarna.

Ég var þarna vegna þess að ég er ósátt við það hvernig brotið hefur verið á almenningi í landinu, m.a. mér. Ég er ósátt við það hvernig komið er fyrir þjóð þar sem næg gæði eru fyrir hendi þannig að allir eigi að geta haft það gott langt fyrir ofan meðallag í samhengi við það sem jarðarbúar lifa við. Ég finn ekki enn fyrir réttlæti. Ég finn ekki fyrir því að þeir sem komu okkur í þessa stöðu sæti ábyrgð. Ég finn ekki fyrir því að breyting hafi orðið á eða að hér hafi nýr lærdómur orðið til og aðgerðum breytt í kjölfar þess. Ég finn því miður bara enga breytingu. Enga breytingu á vinnubrögðum í stjórnmálunum almennt. Ef eitthvað er hafa þau versnað. 

Það sem ég heyrði í þingræðunum var gamalkunnur fagurgali um allt og ekkert á milli þess sem menn eyddu langmestu af sínum tíma í það að gagnrýna það sem aðrir gera eða ekki gera. Mér fannst ég hreinlega vera að heyra sömu ræðurnar og í fyrra og hitteðfyrra.

Mér finnst ömurlegt að finna hvernig heljarklær sérhagsmuna og auðvaldsins ríghalda í völdin og aðstæður almennings með klóm sem rista svo djúpt að blóðstraumur rennur af. Sá straumur liggur meðal annars til annarra landa. Sá straumur liggur til glataðra tækifæra og sá blóði drifni straumur gæti hæglega mulið undan grunnstoðum velferðarsamfélags okkar.

Nú gengur ekki að lofa Hagsmunasamtökum heimilanna og okkur eins og í fyrra en standa svo ekki við neitt. Við getum ekki meir.

Nú verður að leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja eins og Framsókn og HH benti á strax í ársbyrjun 2009. 

Nú verður að afnema verðtrygginguna. 

Nú verður að leyfa þjóðinni að segja sitt álit á drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Vinna - grænn vöxtur - velferð

Tími 99% þjóðarinnar er löngu kominn. Tími 1% þjóðarinnar er liðinn.

 

Nýja sátt fyrir okkur öll!

 


mbl.is Samstaða á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk fyrir pistilinn og hjartanlega samála um að tími stjórnmála eins og við höfum búið við er liðinn og tími nýrra alfa og breyttra áherlsna er upp risinn!

Ps. flautan dugði ekki og náði ekki eyrum stjórnvalda né stjórnarandstöðu!

Sigurður Haraldsson, 4.10.2011 kl. 01:29

2 identicon

Góðu og sterkur pistill, sem ég tek heilshugar undir.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.10.2011 kl. 02:16

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottur pistill og ég er stolt af ykkur sem voruð þarna, vildi að ég hefði getað verið þar líka.  En svo sannarlega var ég með ykkur í anda.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.10.2011 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband