Mánudagur, 10. október 2011
Það þarf kjark til að breyta heiminum, Guðrún Ebba og Glaspigen
Ég var að horfa á viðtalið við Guðrúnu Ebbu sem finna má hér.
Ég hvet fólk til þess að horfa á viðtalið. Það er átakanlegt og erfitt að horfa á en eitthvað sem fólk ætti að sjá og heyra.
Á bakvið þann kjark að geta stigið svona fram og sagt sögu sína hlýtur að liggja alveg gríðarleg og afar erfið persónuleg vinna. Þessi vinna verður þó til góðs. Það er ég viss um. Þessi vinna mun örugglega hjálpa ungum börnum eða eldra fólki sem eiga svipaða sögu læsta í sínum hugarfylgsnum með öllum þeim skaða sem því fylgir.
Kynferðisbrot eru eitt það svartasta og erfiðasta sem við getum fengist við í okkar mannlega samfélagi.
Sumt af því sem Guðrún Ebba minntist á í viðtalinu minnti mig á frásögn annarrar konu, Karin Dyhr, sem kom og sagði okkur sálfræðinemum í Árósum sögu sína. Hún gekk undir nafninu Glaspigen þar sem hún átti þá sögu eftir fjöldann allan af innlögnum á geðdeildir og endalausar greiningar að mega hvergi komast nærri gleri því þá skæri hún sig í hendurnar með því og bar hún ótal ör á höndunum vegna þess.
Endurbirti hér hluta úr færslu sem ég skrifaði í 5. október 2007 á gamla bloggið mitt:
Í dag eftir tímana mína í barnasálfræði og námssálfræði þá fórum ég og stelpurnar á fyrirlestur þar sem kona sem heitir Karin Dyhr kom og fræddi okkur um Borderline persónuleikaröskun. Hún gaf út bókina "Glasspigen" sem hefur verið seld í 10 þús. eintökum. Þetta er alveg stórkostleg kona að mínu mati. Sannur múrbrjótur en það er meðal þess fólks á þessari jörð sem ég heillast mest af. Fólk sem er tilbúið að standa upp og deila reynslu sinni sem fræðir og hefur gríðarleg áhrif á alla viðstadda og samfélagið í heild sinni.
Þessi kona var misnotuð af föður sínum í æsku og lýsti því fyrir okkur á hispurslausan hátt og setti fram ýmis sjónarmið sem ekkert allir þora að tala um. Til dæmis varðandi svona kynferðisbrotamál að þá bregst líkami þolandans við og sumir misskilji það og telji að viðkomandi hafi ekkert á móti afbrotinu fyrir vikið. Einnig lagði hún mikla áherslu á það að mjög lengi var hún sannfærð um að hún bæri ábyrgð á þessu. Hún var skrýtna stelpan sem fór svona með föður sinn. Hann var þessi góði en það var bara hún sem var ekki í lagi. Hún átti erfið ár í kjölfar misnotkunarinnar og var skilgreind með öllum mögulegum stimplum og var lögð inn alls 70 sinnum á 17 árum. Hún lýsti því hvernig starfsfólkið meðal annars kastaði teningum upp á það hver ætti að aðstoða hana á geðdeildinni þar sem "borderlines" eru ekki vinsælustu sjúklingarnir þar sem flókið er að aðstoða þá.
Hún var með mjög sýnileg ör á handleggjunum og lýsti fyrir okkur hvernig hún skar sig ítrekað og hvernig starfsfólkið og læknar sögðu meðal annars við hana "jæja þú skerð bara svona langsum, þér hefur ekki verið nein alvara! Þú átt að skera þversum eða það þýðir ekkert að taka bara svona mikið af lyfjunum þú verður að taka allan skammtinn ef þér er alvara..."! Þeir sem sagt kenndu henni réttu aðferðirnar þar sem þeir töldu hana hafa verið að reyna að fyrirfara sér. Hún reyndi það reyndar nokkrum sinnum. Hins vegar var þetta einnig hluti af sjálfskaða sem var einnig t.d. að slá höfðinu í vegginn. En það sem fólk áttar sig ekki á að með því t.d. að skera sig (var þess vegna kölluð glasspigen) því hún fann alltaf gler eða eitthvað til að skera sig með en með því að skera sig þá fannst henni hún verða "hrein" eftir að hafa blætt út óhreina blóðinu.
Það sem meðal annars varð hennar aðstoð í bataferlinu var að kynnast hjúkrunarfræðingi á geðdeildinni sem hafði áhuga á henni og hennar lífi og þá gat hún unnið með mál sitt og hræðilegar minningar sem hún hafði bælt árum saman. Hún lýsti því mjög vel hvernig hún aftengdi sig veröldinni þegar faðir hennar nauðgaði henni þannig að fyrir henni var eins og þetta aldrei hefði gerst, "vondi næturpabbi" hafði aldrei komið og svo hitti hún þann góða um daginn. Hún lýsti því hvernig hún seinna þegar hún var að rifja upp málið hvernig henni fannst hún horfa á hjúkrunarfræðinginn tala en heyrði ekki neitt og svo datt hún ofan í svarta holu.
Ég gæti sagt ykkur miklu meira en langaði bara að deila þessu með ykkur. Þetta er efni sem aldrei má gleymast því kynferðisleg misnotkun er því miður allt of algeng og hún á sér stað á ólíklegustu stöðum. Faðir hennar hafði verið virtur lögmaður og fjölskyldan fullkomin á yfirborðinu.
Fleiri upplýsingar á þessari siðu: http://www.glaspigen.dk/ á dönsku eða http://www.theglassgirl.com/ á ensku.
Ég hvet fólk til að kynna sér einnig sögu Karin Dyhr sem kennir manni afar margt meðal annars um gildi þess að muna ætíð að hver og ein manneskja er sérfræðingur í sínu lífi og gildi þess að eiga von, hafa val og ráða eigin för.
Konur eins og Karin Dyhr, Telma Ásdísardóttir og Guðrún Ebba og fleiri sem stíga svona fram geta breytt heiminum og lífum ótal margra. Þetta eru múrbrjótar og hetjur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Facebook
Athugasemdir
Ég var að lesa bókina hennar Guðrúnar Ebbu. Henni tekst að koma afskaplega vel til skila því ægivaldi sem ofbeldismaðurinn hefur á fórnarlambið, óttanum við að upp komist og að skömmin sé fórnarlambsins; hræðslunni við að verða útskúfað úr fjölskyldunni o.s.frv. Guðrún Ebba sýnir mikinn kjark með því að fjalla svona opinskátt um þetta. Bók hennar - eins og bók Thelmu Ásdísardóttur - mun hjálpa mörgum. Þær eru hetjur.
Jens Guð, 10.10.2011 kl. 23:30
Algjörlega sammála þér Kristbjörg. Og ég er viss um að kjarkur þessara kvenna, Thelmu, Guðrúnar Ebbu og Karynar, þó ég þekki ekki til hennar hafa nú þegar breytt heiminum okkar til hins betra þökk sé þessum kjarkmiklu hetjum okkar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.10.2011 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.