Föstudagur, 14. október 2011
Flokkar framtíðarinnar
Það er mikil hreyfing í íslenskri pólitík. Talsverðar hræringar virðast vera í öllum flokkunum og einnig mikil pólitísk hreyfing utan þeirra. Ég fagna því. Fólk er orðið meðvitaðra um að það þurfi að taka þátt í því að móta umhverfi sitt og það sé ekki nóg að ætla að láta aðra bara sjá um það.
Nú þurfum við öll að sameinast um það markmið að byggja upp góð og heilbrigð stjórnmál til framtíðar, alveg sama í hvaða flokki við erum eða ekki.
Ég tel að taka þurfi vinnubrögðin í flokkunum rækilega í gegn og tel að Framsóknarflokkurinn sé einn þeirra flokka sem er kominn talsvert langt í því. Flokkurinn samþykkti m.a. siðareglur á síðasta flokksþingi og hefur farið í mjög mikla vinnu að því að skoða og breyta lögum og skipulagi flokksins. Talsvert betur má ef duga skal og ekki er nóg að marka góða stefnu og vinnubrögð ef þau eru einungis falleg orð á blaði.
Ég myndi vilja sjá meiri breytingar. Meðal annars tel ég og ýmsir fleiri að mögulegt ætti að vera að nálgast upplýsingar um alla þá sem gegna trúnaðarstörfum á vegum flokkanna á heimasíðum þeirra. Þeir sem vilja tengjast stjórnmálaflokkum en vilja vera þar í leyni ættu bara að sleppa því að tengjast þeim. Enga huldumenn takk.
Einnig tel ég að fjármál flokkanna ættu að vera mun skýrari. Til dæmis þarf að lagfæra lög um fjármál stjórnmálaflokka á þann veg að sömu skilyrði gildi um lán til flokkanna eins og styrki til þeirra og frambjóðenda. Í kosningabaráttum þurfum við að komast frá því að auglýsingar og peningar stjórni þar öllu. Fjölmiðlar ættu að skipuleggja umræðuþætti þannig að frambjóðendur ættu þess kost að kynna málefni sín og það sem hver og einn stendur fyrir sem manneskja í stað þess að þeir komist til valda vegna auglýsingamennsku eins og Coca cola vörumerki þeas. það sé einungis innihaldslaus ímynd sem kjósendur kjósi yfir sig.
Persónukjör er líka eitthvað sem ég myndi vilja sjá okkur nýta í nánustu framtíð. Þá gæti fólk kosið fólk af listum allra flokka og fólk sem er utan flokka. Engin fleiri pakkatilboð á pólitíkusum sem eru í áskrift að völdum takk.
Beint lýðræði er líka eitthvað sem ég myndi vilja sjá, í flokkunum, á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálunum. Ég sé fyrir mér að í flokkunum skrái fólk sig sem félagsmenn og greiði félagsgjöld (en geti fengið afslátt ef bág fjárhagsstaða sé) og flokkurinn sé svo með kerfi þannig að hver félagsmaður fái veflykil sem hann geti svo nýtt til þess að velja til trúnaðarstarfa í flokknum, kjósa forystu og velja frambjóðendur flokksins fyrir kosningar. Á sínu vefsvæði gæti flokksmaður svo átt samskipti við flokkinn, lagt fram framboð sín í trúnaðarstörf, greitt atkvæði um stefnumál og mótað þau og ýmislegt fleira. Að sama skapi sé hægt að byggja upp svipað kerfi í íbúagáttum sveitarfélaga þar sem öll stærri mál séu lögð fram til atkvæðagreiðslu með bindandi eða ráðgefandi hætti. Á landsvísu sé ég fyrir mér að nota megi vefsíðu Ríkisskattstjóra þar sem greiða megi atkvæði um ákveðin mál til ráðgefandi álits en svo á hverju ári sé haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem greidd eru atkvæði um stærstu málin sem liggja fyrir. Á kosningaárum fari þjóðaratkvæðagreiðslan fram samhliða þeim.
Flokkar framtíðarinnar geta orðið spennandi, dýnamískir og góðar skipulagsheildir sem sameina hópa fólks sem hafa áþekka sýn á hvernig best sé að byggja upp samfélagið. Það er útrunnin pólitík að hafa flokka sem innihalda einstaklinga sem vilja vera eins og huldumenn að stýra á bakvið tjöldin í sérhagsmunagæslu að tryggja eigin hag og sæti þeirra sem greiða atkvæði með réttum hætti, "atkvæðum" (fólki) sem smalað er í réttu dilkana eftir taktföstum slætti foringjanna og hjörðin jarmi öll í kór útávið.
Framtíð okkar allra er undir því komin að stjórnmálaflokkarnir taki til hjá sér og nútímavæðist!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.