Tími þinn er takmarkaður, lifðu þínu lífi en ekki lífum annarra

199.jpgSteve Jobs sem nýlega lést átti góða tilvitnun sem var svona:

Your time is limited, so don´t waste it living someone elses life - Steve Jobs

Það er alveg ótrúlega mikil speki fólgin í þessari setningu að mínu mati. Við sem fengum lífið að gjöf vitum ekki hversu lengi hún endist. En við vitum þó að tími okkar hér á jörð er takmarkaður. Hann er því það allra mikilvægasta í okkar lífi. Enginn stoppar tímann og tíminn bíður ekki eftir neinum... Trúið mér, ég sem geng stundum um í mínu eigin tímabelti (Kristbjargartími) hef oft rekið mig á það... Þið sem þekkið mig, vitið hvað ég er að fara!

En að öllu gamni slepptu þá er þetta eitthvað sem borgar sig að staldra aðeins við og hugleiða. 

  • Hvernig eyðir þú tíma þínum?
  • Er þeim tíma vel varið?
  • Veistu hvað þú vilt fá út úr lífinu?
  • Veistu hvað þig langar að hafa afrekað og upplifað þegar þessu lýkur?
  • Hefurðu sett þér markmið?
  • Veistu hvernig þú vilt hafa lifað lífinu?
  • Hefur þú lært að lifa lífinu eða lært að lifa lífið af?
  • Með hverjum?
  • Og svo framvegis...

Ég held að oft áttum við okkur ekki á því fyrr en við setjumst niður og vinnum aðeins í okkur sjálfum á hvaða vegferð við höfum verið, hvar við erum og hvert okkur langar að fara.

Stundum kemst fólk að því að það hafi kannski framkvæmt ótrúlegustu hluti án þess að hafa nokkurn einasta áhuga á því. Það var kannski bara að lifa lífum annarra og gerði ótrúlegustu hluti af því aðrir vildu að viðkomandi gerði það. Stundum er það kallað meðvirkni.

Stundum týnum við sjálfum okkur því við erum of upptekin að leita að vegvísum um það hvert okkur langar að fara og hvað okkur langar að gera alls staðar annars staðar en innra með okkur sjálfum.

Stundum erum við svo upptekin að leysa úr öllum mögulegum áhyggjuefnum framtíðarinnar sem síðan verða aldrei að veruleika að við hreinlega missum af núinu eins og manneskja sem er svo upptekin að skoða lestakortið og pæla í leiðum og lausnum ef hún skyldi nú missa af lestinni að hún sér ekki einu sinni lestina sína sem brunar framhjá.

Stundum velti ég því fyrir mér þegar ég er að eyða miklum tíma í hluti eins og pólitíkina hvort þeim tíma sé vel eða illa varið... Þeirri spurningu er oft erfitt að svara þegar stjórnmálabakterían hefur hreiðrað rækilega um sig í manni en samt finnst manni maður stundum rembast árangurslítið eins og rjúpan við staurinn og veltir því fyrir sér hvort orkunni og tímanum ætti að verja annars staðar.

Ég mæli með því að þú hugleiðir aðeins það sem þú ert að gera þessa dagana. Í hvaða tilgangi ertu að því. Ertu að uppfylla drauma þína, hefurðu kannski tímasett þá og aðgerðabundið og gert að markmiðum? Fer mesti tíminn í það að gleðja aðra en orkan búin þegar kemur að því að gleðja þig sjálfa/sjálfan? Veistu hvað myndi gleðja þig, hvað þig langar, þráir eða dreymir um og hvernig þú getir öðlast það?

Tíminn er þín takmarkaðasta auðlind. Farðu því með hann sem slíka. Vertu sparsamur/sparsöm og forgangsraðaðu vel í þína eigin þágu.

Lifðu þínu lífi, ekki lífum annarra.

Það er aðeins eitt tækifæri í boði.

Njóttu þess.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Ég geri varla annað en að hugleiða og furða mig á öllum þeim mistökum sem ég hef gert.

Vendetta, 14.10.2011 kl. 23:50

2 identicon

Takk fyrir fallegan pistil. Og kæri Vendetta...það er ALDREI of seint. Mistökin eru gott veganesti fram á veginn. Þú gerir alla vega ekki þau sömu mjög oft ;), betra að gera ný sem kenna manni nýja hluti, og hjálpa manni fram á veginn, því mistök eru góðir kennarar og góðir vegvísar. Það fer enginn beina leið upp á við í gegnum lífið, leiðin liggur gegnum hæðir og dali, og djúpa dali, upp á tindinn.

Jóhannes (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 11:01

3 identicon

Sæl Kristbjörg. Ég get alveg verið þér sammála um að við eigum ekki að lifa lífi annara, en við eigum að lifa lífinu með öðrum. Við eigum að líta á náungann sem jafninga okkar og ætlast til að náunginn geri það sama gagnvart okkur. Já lifum lífinu saman styðjum hvert annað burtséð frá aldri eða búsetu.

gissur jóhannesson (IP-tala skráð) 16.10.2011 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband