Hin týnda Atlantis - nýja Ísland?

atlantis-city.jpgNýlega voru þrjú ár liðin frá atburði þeim sem marka mun okkur öll að einhverju leyti. Atburði sem við gleymum seint. Atburðinum þar sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland. Þennan atburð man ég vel, ég sat ein í íbúðinni minni í Árósum, þungt hugsi og döpur.

Núna þegar maður horfir tilbaka þá er maður ekkert sérlega sæll. Hvað hefur eiginlega breyst?

Hvert ætluðum við og hvar erum við? Við ætluðum til Nýja Íslands og þangað erum við svo sannarlega ekki komin. Ætli við komumst þangað einhvern tímann? Er nýja Ísland orðið að hinu nýja Atlantis? Fyrirmyndareyja sem sokkin er í sæ og mun aldrei finnast.

Við ætluðum að rísa úr öskunni vitrari, reyndari og byggja upp nýtt Ísland þar sem við hefðum lært af mistökum þeim sem leiddu okkur ofan í öskuna.

Var ekki bara sama kerfinu tjaslað saman svona mestmegnis? Er ástandð kannski að einhverju leyti verra í dag?

Er það nýja Ísland að afskrifa 6700 milljónir á einn einstakling á sama tíma og enn er ekki búið að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna og fyrirtækjanna. Eitthvað hefði endurreisnin nú orðið dýr ef jafnt hefði átt að ganga á alla og 67 milljarðar orðið kökusneiðin á hvern Íslending. Sú kaka hefði orðið alveg rosalega stór og dýr.

Er það nýja Ísland að þeir örfáu sem komu okkur öllum ofan í þetta fen skuli halda áfram sínum lúxus lífsstíl á meðan þriðjungur heimila er tæknilega gjaldþrota? Heimila sem vann sér fátt annað til saka en fjárfesta í flatskjá!

Er það nýja Ísland að einkavæða bankana án þess að almenningur fái að vita hver eigi þá?

Er það nýja Ísland að fimm Íslendingar flytji úr landi á dag og endurtaka mistök annarra þjóða í kreppum eins og Færeyinga sem misstu stóran hluta unga fólksins úr landi sem aldrei kom aftur og Finna sem sátu uppi með heila kynslóð sem datt út af vinnumarkaði og komst ekki þangað inn aftur? 

Er það nýja Ísland að byggja kerfið upp þannig að því minna sem þú gerir því meira færðu? Er það vænlegt til árangurs að hjálpa bara þeim sem langverst hafa það en refsa hinum sem hafa staðið sínar skyldur og skuldbindingar?

Er það nýja Ísland að 1% fólksfjöldans eigi nánast allt fjármagnið en hin 99% sífellt minna og minna?

Hvað með stjórnarskrárbreytingar?

Hvað með skuldaleiðréttingu til handa heimilum og fyrirtækjum?

Hvað með afnám verðtryggingar?

Hvað með lýðræðisumbætur?

Hvað með jafnrétti, réttlæti og sanngirni?

 

Liggur það einhver staðar á botni Atlantis, nýja Íslands?

Er ekki tímabært að finna Atlantis Íslands?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Satt segir þú. Það örlar ekki á nýju íslandi.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 27.10.2011 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband