Saman gengur okkur betur!

samvinna.jpgÉg hélt erindi í kvöld fyrir félagasamtök þar sem ég var að kynna fyrir þeim hugræna atferlismeðferð.

Á heimleiðinni hugsaði ég um hversu mikið það hefði gefið mér að hitta fólkið og halda þetta erindi. Ég vona að erindi mitt hafi líka gefið þeim eitthvað á móti.

Það kom mér á óvart hversu margir vissu lítið um hugræna atferlismeðferð og það rennir stoðum undir áhyggjur mínar af því hversu óaðgengileg HAM er almenningi þrátt fyrir að vera gagnreynt meðferðarúrræði sem sýnt hefur fram á jafngóðan árangur og lyf í vissum tilfellum og jafnvel betri til lengri tíma þar sem fólk hrasar stundum þegar það hættir að taka lyfin. Í nágrannalöndum okkar er HAM víða orðið fyrsta meðferð samkvæmt klínískum leiðbeiningum við ákveðnum geðröskunum (sérstaklega vægum til miðlungs tilfellum) áður en lyf koma til greina.

Hér má nálgast HAM meðferðarhandbók sem gefin er út af Reykjalundi og hér má nálgast góða bæklinga sem þýddir voru af nemum í sérnámi í hugrænni atferlismeðferð á vegum Félags um hugræna atferlismeðferð. Er það til mikilla sóma að gefa almenningi kost á að nálgast þetta efni gjaldfrjálst á netinu!

Við þurfum að auka fjölbreytileika meðferðaforma því ekki virðast lyfin vera að gagnast okkur nema upp að vissu marki þar sem tíðni t.d. þunglyndis og kvíða fer síst lækkandi. Við þurfum að gefa almenningi kost á HAM meðferð með eða án lyfja og bjóða upp á fleiri nýjar leiðir eins og hreyfiseðla. Þarna sé ég heilsugæsluna koma sterka inn og mun ég kynna rannsókn þá sem ég vann sem lokaverkefni í næstu viku á Fræðadögum heilsugæslunnar þar sem m.a. kom fram að amk. þriðjungur þeirra sem leita sér heilsugæslu á við vægan, miðlungs eða alvarlegan tilfinningavanda að etja (kvíða og/eða þunglyndi) og meirihluti telur sálfræðimeðferð vera gagnlegan valkost. En meira um þetta síðar!

Stundum erum við svo upptekin í eigin hversdagsleik að við gleymum því að við erum hluti af hópi. Við erum svo upptekin að eltast við efnisleg gæði eða matreidd gæði (sjónvarp, tölvu oþh.) að við gleymum hinum sönnu gæðum sem fást af samvinnu og samveru við annað fólk.

Félagasamtök af öllum mögulegum toga eru stór undirstaða velferðarsamfélags okkar. Samtök þar sem fólk gefur oft ógrynni af vinnu og tíma. Þessum samtökum þarf að tryggja möguleika á að vaxa og dafna í okkar samfélagi. Ég tek undir með Eygló Harðardóttur sem hefur lagt fram frumvarp um skattaívilnanir til frjálsra félagasamtaka

Saman gengur okkur betur og saman byggjum við upp gott velferðarsamfélag. Ekkert gerist af sjálfu sér. Við þurfum að finna leiðir til þess að vinna saman að bestu mögulegu lausninni við hverju verkefni og þá hagnast allir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: BJÖRK

Tek innilega undir með þér Kristbjörg, ofurtrú á lyfjum er landlæg. Um leið og maður verður að virða nauðsyn fyrir lyf þegar við á, væri oft hægt að draga úr notkun þeirra eða sleppa þeim alveg með því að nota önnur, ekki síður viðeigandi meðferðarúrræði svo sem HAM eða hreyfingu.

BJÖRK , 4.11.2011 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband