Mánudagur, 16. janúar 2012
Saltbragð í munni
Ég er með hálfgert saltbragð í munni yfir þessu máli.
Hvernig stendur á því að matvælafyrirtæki skuli blákalt nota aðföng sem eru merkt í bak og fyrir til notkunar í iðnaði? Það stendur ekki food industrial salt... eða hvernig sem salt til matvælavinnslu útleggst á ensku. Mér finnst líka skrýtið að menn skuli ekki vera með það á hreinu í upphafi þegar þeir flytja inn vöru eða kaupa hana af innflytjanda til hvers hún er ætluð og það sé ekki vottað rækilega að það sé í lagi með vöruna og hún henti viðkomandi framleiðslu? Einnig skil ég ekki hvernig svona getur viðgengist í mörg ár án þess að upp komist og svo komist þetta upp allt í einu núna!
Það er því þannig með þetta mál að það er ansi mörgum spurningum ósvarað.
Ég hef séð umræður bæði um það að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur þar sem saltið sé nánast það sama og matarsalt en einnig séð umræðu um að saltið sem notað var sé alls ekki til þess fallið að nota í matvælavinnslu.
En það sem ég upplifi í þessu máli er hálfgert saltbragð í munni. Það er hreinlega yfir því hversu berskjölduð við erum sem neytendur. Þar sem við lifum í nútímasamfélagi þá erum við ekki sjálfbær hvert og eitt með heimaræktuð matvæli úti í garði og gullið okkar undir koddanum. Við lifum í samfélagi þar sem við skiptumst á vörum og þjónustu af ýmsu tagi sem saman myndar þá samfélagslegu heild sem við lifum í. Við verðum einhvern veginn að geta treyst hverju öðru og treyst því að sú matvara sem við verslum sé okkur ekki hættuleg. Vegna þess hafa verið settir ýmiss konar staðlar, regluverk og eftirlit. Það sama á við um bankakerfið. Við hlutum að treysta því að það sem sérfræðingurinn í bankanum sagði væri í lagi og að bankastjóri komi ekki í umræðuþátt og fullyrði það að allt sé í himnalagi en sé á sama tíma að flytja sitt eigið fjármagn af sökkvandi skipi af kappi. Mér verður líka hugsað til Enron málsins þar sem glæpamenn misnotuðu sér þessa berskjöldun almennings fyrir grundvallarþjónustu til þess að græða. Það er eitt af hlutverkum hins opinbera að tryggja hag og velferð almennings með því að hafa eftirlit með hlutum og bregðast við með afgerandi hætti þegar einhver framkvæmir glæpsamleg athæfi eða bregst vegna mistaka.
Núna hafa á mjög skömmum tíma þrjú mál verið í umræðunni þar sem hlutirnir eru í stakasta ólagi með mögulegum heilsufarslegum afleiðingum fyrir fólk, áburðurmálið, brjóstapúðarnir og saltið. Gætum við átt von á einhverju fleiru?
Hins vegar verður líka að hafa í huga að það er í eðli manneskjunnar og samfélagsins að mistök verði. Ég sem sálfræðingur legg mig fram eins vel og ég get í mínu starfi. Það er þó sama hversu mikið ég legg mig fram, ég kemst aldrei hjá því að gera einhvers konar mistök. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig tekist er á við það, hvort fólk læri af því og bæti úr. Ég þarf líka að vera meðvituð um að bera ábyrgð á mér og mínu starfi og leita aðstoðar ráði ég ekki við verkefnin. Það sama þurfa allar stofnanir samfélagsins að gera.
Núna finnst mér nóg vera komið. Með hverjum deginum verður mér ljósara að við þurfum á öllum stigum samfélagsins að leggja harðar að okkur við það að bæta okkur og efla fagleg vinnubrögð. Það er greinilega mikið svigrúm til breytinga og í þær þarf að ráðast til þess að lágmarka skaðann og byggja hér upp samfélag þar sem við getum betur treyst hverju öðru og ólíkum einingum samfélagsins.
Það er ekki nóg að raula bara fyrir munni sér... "Þetta reddast"!
MS innkallar fimm vörutegundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Facebook
Athugasemdir
Flott og intelligent grein.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.1.2012 kl. 00:05
þetta Iðnaðarsalt er betra en það sem þú ert að kaupa í dós út úr búð. Væri nær spirja hvað er í matnum sem ég borða??heldur en að velta sér upp úr frétt um salt...
Vilhjálmur Stefánsson, 17.1.2012 kl. 00:35
Sammála mörgu í færslunni.
"Mistök eru mannleg" en kannski mætti gera meiri kröfur til (ríkis)stofnanna en einstaklinga um að þeirra vinnubrögð séu "fagleg". Kannski ættu eftirlitsstofnanir líka að hafa sérstöðu vegna þess að þeirra skylda er einfaldlega að fylgjast með hvort reglugerðum sé fylgt.
Það er kannski kvíðastillandi að heyra að "Þetta iðnarsalt er betra en það sem þú ert að kaupa í dós út úr búð" en án raka er sú staðhæfing marklitil.
Sú staðhæfing sem birtist nýlega í fjölmiðlum frá "tengdum aðila" um að það væri BARA 1% efnafræðilegur munur á innihaldi matarsalt og iðnaðarsalt segir mér líka óskup lítið. Munar bara einu prósenti Allt í fínu. Hvað ef þetta eina prósent væri arsenik?
Furðulegt að Landlæknisembættið hefur, mér vitanlega, ekki sent neina "tilkynningu" frá sér í sambandi við þetta "Saltmál"
Agla (IP-tala skráð) 17.1.2012 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.