Laugardagur, 31. mars 2012
Óvissuferð
Líf hvers og eins er líkt og óvissuferð. Við höfum einhverjar hugmyndir um það hvert við erum að fara en vitum samt í raun ekkert um það. Höfum kannski kort í höndunum en það getur enginn lofað því hvernig eða hvort ferðaáætlunin gengur upp. Við gætum vaknað upp á morgun og verið komin í allt annað landslag en við reiknuðum með samkvæmt okkar plani. Það eru svo margar breytur í ferðalaginu okkar sem við höfum enga stjórn á. Við hefjum ferðina ein og endum hana ein en þess á milli ferðumst við með mörgum öðrum. Sumum lengur, öðrum skemur. Ferðafélagarnir okkar móta okkur flestir eitthvað, sumir mikið, aðrir minna. Hvert og eitt okkar á sitt einstaka líf, sína sérstöku reynslu af þessu ferðalagi, þessari óvissuferð sem lífið sjálft er.
Stór hluti þess sem veldur okkur erfiðleikum eða vanlíðan dags daglega er að við skiljum ekki annað fólk. Við getum aldrei stigið alveg í þeirra spor, lifað þeirra lífi eða öðlast þeirra reynslu. Við getum ekki ætlast til þess að fólk sem ekki hefur lifað okkar lífi skilji okkur til fullnustu, hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Við eigum víst nóg með að skilja okkur sjálf. Hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Það tekur okkur ævina að kynnast okkur sjálfum, átta okkur á því hvernig við mótuðumst í uppvextinum og hvernig við erum enn að viðhalda ákveðnum mynstrum og móta ný. Atvik sem situr fast í minni úr barnæsku getur haft áhrif á þann persónuleika sem við þekkjum í okkur sjálfum í dag. Atburðir lífsins halda svo áfram að móta okkur ævina á enda.
Ég held að við eigum það flest sameiginlegt að vera að reyna að gera okkar besta. Við leggjum öll upp með misgóðan búnað í óvissuferðina og keyrum um mistorfætt landslag. Sumir keyra nánast á sléttum, beinum vegi alla leið, aðrir lenda í hverju þvottabrettinu og þverhnípinu á fætur öðru, jafnvel á illa búnum bíl. Stundum þurfum við að fara yfir hengibrýr og þá skiptir máli hvort við keyrum um á Fiat uno eða stórum trukk hvort brúin haldi.
Mig langar til þess að enda þessa færslu á góðum orðum Frank Outlaw:
Gættu hugsana þinna, þær verða orð þín.
Gættu orða þinna, þau verða gerðir þínar.
Gættu gerða þinna, þær verða vani þinn.
Gættu vana þíns, hann verður persónuleiki þinn.
Gættu persónuleika þíns, hann verður örlög þín.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Facebook
Athugasemdir
falleg færsla mín kæra vinkona, knús á þig.
Linda (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 00:38
Hugljúfur og jafnframt umhugsunarverður pistill um tímans óvissu og ferða-lagið okkar allra og þó við séum öll misjöfn og stundum undin og tillitslaus -oftast ómeðvitað- þá eru það hin góðu gildi sem búa í púlsandi hjörtum okkar, sem sameinar nánast allt venjulegt og óbreytt fólk
munum því og gleymum ei, að þeim svipar jafnt nú -eins og áður og alltaf- hjörtunum saman í púlsandi taktinum, sem við heyrum öll, þekkjum öll og vitum öll að er okkur inngróinn -í fegurð hjartnanna- og dansinn og viðmótið er okkur kunnuglegt
á götunni, á leiðinni,
á grasinu, á heiðinni
og mannverurnar með hjörtu sín eins og mitt og eins og þitt og með sólgullin ský að svífa ári síðar enn á ný yfir fjöllin -öll fjöllin að baki- eru á leiðinni, endalausri leiðinni í púlsandi taktinum sem við heyrum öll, þekkjum öll og vitum öll að þannig er leið okkar endalaust saman ... og stjörnurnar, hvað haldiði?
Þær auðvitað blikka
til okkar og nikka
og fögur hjörtun tikka
í ferða-laginu saman.
En samt veit ég ekkert hvar við erum stödd -á leiðinni- í púlsandi þróun manns-andans, skv. Hegel, en frummyndir Platós eru örugglega ekki í myrkvuðum hellum, heldur í hjörtum okkar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 31.3.2012 kl. 01:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.