Miðvikudagur, 20. febrúar 2008
Hvar á ég að hefja leikinn?
Það er það sem ég er að hugsa um núna. Það er svo margt sem mig langar að deila með ykkur.
Það sem efst er á baugi hjá mér núna eru þó samskiptamál. Þau eru allt í kringum mig. Hver einasta manneskja er alltaf í stöðugum samskiptum. Samskiptum við sjálfa sig og samskiptum við umhverfið. Maðurinn er hættulegasta dýrið í skóginum, það er alkunna. En ekki aðeins gagnvart umhverfinu og dýrum heldur líka gagnvart sjálfum sér og öðrum mönnum. Mér finnst fólk stanslaust vera í stríði, stanslaust í baráttu. Við erum í baráttu hvert við annað. Stundum finnst mér eins og fólk svífist einskis til þess að koma höggi á náungann. Það læðist að mér sú grunsemd að svona verði þetta alltaf. Þetta sé innbyggt í eðli mannsins.
Ég held að þessar tvær hliðar peningsins verði alltaf til staðar hjá öllu fólki. Listin er hins vegar sú að snúa jákvæðu hliðinni upp og stuðla að því að meiri jákvæðni ríki almennt. Ég hef velt því fyrir mér að til dæmis í pólitíkinni þá eyðir fólk mun meiri orku í það að benda á hversu illa hinn aðilinn standi sig og er farið að ganga langt í persónuárásum eins og nýlegasta dæmið sýnir um skrif Össurar iðnaðarráðherra um Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa. Af hverju eru menn að eyða svona miklu púðri í það að kasta rýrð á náungann? Hvað hefst upp úr því? Ef hugsað er um hag heildarinnar þá hefst ekkert upp úr því nema það að við spólum í sama farinu ef ekki aftur á bak.
Ef menn einbeita sér að því jákvæða sem náunginn gerir og leggja upp með jákvæðni og uppbyggilegri gagnrýni og muna eftir þeirri hugsjón sem þeir hafa t.d. í pólitík þá er mun líklegra að mínu mati að málin komist lengra. Þá er orkunni beint í áttir sem gagnast almenningi. Ef menn myndu jafnvel vera duglegri að hrósa náunganum í stað þess að benda sífellt á hvað fer illa þá myndi það setja af stað almennt meiri jákvæðni og þannig koll af kolli skapa betra vinnuumhverfi.
Þetta á við almennt í mannlegum samskiptum. Stundum föllum við ofan í pytti og sjáum bara svart. Sjáum bara allt að náunganum og sendum mikla neikvæða orku frá okkur sem snýr neikvæðu hliðinni upp hjá hinum aðilanum sem svarar í sömu mynt. Svona samskipti eru slæm og þau eru sár. Þá verður til neikvæður spírall sem erfitt er að vinda ofan af.
Þannig að pistill dagsins fjallar um það að einbeita sér almennt meira að sjálfum sér, sinni hugsjón, horfa fram á veginn og sjá það jákvæða í fari náungans en horfa fram hjá því neikvæða. Þannig er sú orka sem við höfum nýtt á góðan hátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.