Óró og óöryggi í Danmörku

Maður finnur fyrir því í gegnum fjölmiðla hér að órói er hér í landinu og óöryggi að grípa um sig.

Þessi óróleiki fór af stað í kjölfar þess að upp komst um tilræði við teiknarann Kurt Westergaard sem teiknaði eina af skopmyndunum af Múhameð spámanni og er frá Árósum. Teiknarinn sá hefur verið á flótta síðan hann teiknaði spámanninn og nú er víst vandræði að finna honum skjól þar sem hótel eru ekki jákvæð fyrir því að skjóta yfir hann skjólshúsi vegna þess að það skapi hættu.

Danskir fjölmiðlar ákváðu að birta teikningarnar í kjölfarið á þessu til að sýna fram á það að slík ógn stjórni þeim ekki.

Þetta fór illa í Dani sem eru af erlendu bergi brotnir og hafa jafnvel verið upp á kant í samfélaginu hér. Í Danmörku er mikið af innflytjendum. Einnig hafa verið mótmæli á Gaza og í Pakistan. Einnig hefur fólk rætt um það að lögreglan sé sérlega dómhörð og fljót til ef innflytjandi á í hlut.

Trú hvers manns er alltaf mikið hitamál og ég tel tjáningarfrelsi ekki geta verið svo vítt að það sé særandi eða móðgandi við trú annarra. Ég tel afar mikilvægt að borin sé virðing fyrir hverri manneskju og trú hennar. Ég get þess vegna skilið tilfinningahita innflytjenda sem upplifa þetta sem að traðkað sé á þeim og trú þeirra.

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra segir þetta vera vanda þeirra sem eru með læti (hærværk) og þetta snúi að fjölskyldunum og foreldrunum því þetta eru mest unglingar sem hafa staðið að þessum óeirðum. Í kjölfarið hefur umræða m.a. ríkisstjórnarinnar verið í þá átt að foreldrar gerendanna eigi að greiða kostnaðinn. Social demokratar eru ekki alveg á sama máli og telja þetta einungis meið af mun stærra vandamáli og það verði ekki leyst með því að hneppa fjölskyldur gerenda í skuldir. Ég tel að bæði hafi að vissu rétt fyrir sér. Það þarf að vinna þetta með því að leita beint til foreldranna og vinna þetta með þeim en einnig þarf að vinna almennt í málefnum innflytjenda.

Nú finnur maður að óöryggi er að grípa um sig og töskum á víðavangi er veitt athygli og rætt er um bílasprengjur. Ég held að fólk geri sér grein fyrir því að með þessu uppþoti er mögulegt að Danmörk verði skotmark öfgahópa eða hryðjuverkamanna.

Ég tel mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með þessu og læra af þessu fyrir framtíðina. Bæði læra um tjáningarfrelsi og flækjur þess að það sé virt án þess að skaða náungann og einnig með tilliti til mikilvægi þess að vinna vel í málefnum nýrra Íslendinga.

Ég tel mikilvægt að fólki sé gert skylt að læra íslensku og námið og námsbækur sé fólki að kostnaðarlausu og það sé forsenda ríkisborgararétts. Mér er ekki kunnugt um að það sé þannig í dag en ég hef ekki kynnt mér það. Námið feli svo í sér aðlögun fólks að samfélaginu. Fólk sé svo skyldað til þess að tala íslensku í þjónustustörfum en samfélagið þarf vissulega að gefa mikð svigrúm því enginn lærir svo framandi tungumál á skömmum tíma og mun aldrei tala það lýtalaust. Á sama máta og fólk leggur sig fram við að skilja dönskuna mína og ég mun aldrei tala hana eins og Dani.

Við skulum vona að þessi uppákoma leiði til einhvers góðs eins og þess að unnið verði í málefnum innflytjenda og þess unga fólks sem upplifir sig utanveltu hér í Danmörku en ekki til einhverra voðaverka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband