Mánudagur, 3. mars 2008
Ert þetta þú elskan? Ég bara þekkti þig ekki...
Nei... úff!
Nú finnst mér menn vera komnir yfir strikið.
Hver er tilgangurinn með því að "lagfæra" myndir af börnunum sínum? Elskar maður ekki börnin sín eins og þau eru? Hvenær ætli komi að því að lagfæringarnar verða raunverulegar en ekki aðeins á myndum? Viltu ekki geta þekkt börnin þín af myndunum? Hver er tilgangurinn með því að "photoshoppa" þau þannig að myndirnar sýna þau ekki eins og þau eru? Það er einmitt sjarminn við að skoða gamlar myndir að sjá hvað maður var yndislega hallærislegur. Einmitt raunverulegustu myndir sem til eru af flestum áður en menn fara að breyta náttúrulegu útliti sínu með ýmsum aðferðum.
Þetta lýsir alvarlegra málefni sem er það að allir virðast eiga að vera steyptir í sama mót. Allir eiga að hafa eins eyru, sömu hvítu tennurnar og þar fram eftir götunum. Þetta er útlitsdýrkun og yfirborðsmennska. Hvaða skilaboð senda slíkar lagfæringar til þeirra barna sem þetta er gert við? Æi, elskan mín þú ert bara með svo hræðilega útstæð eyru eða gular tennur að við urðum að láta laga það aðeins... ekki það að það sé eitthvað að því... við viljum bara ekki hafa það á myndinni! Þetta er ágætis uppskrift að brotinni sjálfsmynd til framtíðar.
Hvaða skilaboð sendir þetta þeim börnum sem skera sig úr fjöldanum í útliti? Til dæmis barna með skerðingu eins og Down´s heilkenni sem hafa óhefðbundið útlit þegar steypa á alla í sama mót í stað þess að fagna margbreytileikanum? Þetta hlýtur að segja þeim að þau séu afbrigðileg ef útstæð eyru eru tilefni lagfæringa á bekkjarmynd.
Hvers konar veruleika lifum við í nú á dögum? Er ekki nóg að dæla þessari útlitsdýrkun sem viðgengst í samfélaginu, í fjölmiðlum eins og "photoshoppuðum" forsíðustúlkum yfir börnin okkar án þess að eins sé farið með þau?
Nú er Bleik brugðið. Margt er skrýtið í kýrhausnum en ekki átti maður von á að einhverjum dytti þetta til hugar.
Börnin „lagfærð“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.