Sunnudagur, 30. mars 2008
Nú verð ég að endurskoða hrósið
Ég verð að játa á mig mistök.
Ég hrósaði Ingibjörgu Sólrúnu, utanríkisráðherra, fyrir að bregðast við vegna málefna Tíbet. Að vonum var ég ánægð að eitthvað líf bærðist á stjórnarheimilinu vegna þessara grafalvarlegu mála utan úr heimi sem við eigum að láta okkur varða.
Ég verð hins vegar að játa það að ég hef greinilega ekki fylgst nægilega vel með (kannski ekki furða þar sem ég er ekki búsett heima).
Nú heyri ég það að Ingibjörg Sólrún taki undir "Eitt Kína" stefnuna og það geri íslensk stjórnvöld almennt. http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item198187/ Þessari stefnu hafi einnig Bjarni Benediktsson þingmaður lýst og tekið undir.
Ég verð því að endurskoða hrós mitt og segja að gott að íslensk stjórnvöld skuli hafa áhyggjur af ástandinu en þau sýna líka hræsni með því að segja í sömu andrá að þau styðji stefnuna um "Eitt Kína".
Hvert eru íslensk stjórnvöld að fara?
Erum við virkilega að skrifa undir þau hryllilegu mannréttindabrot og kúgun sem átt hafa sér stað í Tíbet í hartnær 50 ár vegna þeirra viðskiptasambanda sem við eigum við Kína? Hvar er siðferðið? Hvar er réttlætiskenndin? Erum við að skrifa undir það að við séum samþykk því að 6 milljón manna þjóð sé smám saman þurrkuð út í eigin landi þar sem áhrif eru höfð á hversu mörg börn tíbetskar konur mega eiga og jafnvel gerðar ófrjóar. Erum við að skrifa undir það að það teljist eðlilegt að kínverskar konur megi eiga eitt barn í Kína en tvö í Tíbet. Erum við að skrifa undir það að erlendum fjölmiðlum sé ekki hleypt að til þess að fjalla um stöðu mála af ótta við að þeir miðli þeirri hörku sem beitt er þegar minnstu mótmælum er hreyft og Tíbetar lýsa því yfir að þeir vilji fá sjálfstæði sitt? Erum við að skrifa undir það að það sé eðlilegt að í helgasta mannvirki Tíbeta, Potala Palace, höll Dalai Lama skuli standa vopnaðir Kínverjar yfir Tíbetum að iðka trú sína? Er fólk virkilega að kaupa það að Tíbetar vilji bara ekkert sjálfstæði? Er fólk virkilega að kaupa það að þeir vilji tilheyra Kína sem innlimaði þá og rændi sjálfstæði þeirra fyrir fimmtíu árum síðan með blóðbaði? Hvaða rugl er þetta eiginlega? Er fólk virkilega að kaupa áróður Kínverja?
Ég er hvorki sérfræðingur í málefnum Tíbet né sögusjení en ég hef sjálf komið til Tíbet og staðið á þaki heimsins. Ég hef gengið um Potala Palace ásamt Tíbetum sem hafa snúið bænahjólum sínum jafnóðum og þeir ganga um salina undir vökulu augnaráði vopnaðra kínverskra hermanna. Ég hef kynnst tíbetsku þjóðinni sem ferðamaður. Þetta er friðsælasta fólk sem ég hef á ævi minni kynnst og mun kynnast. Munkarnir snúa hjólum sínum og biðja jafnóðum og þeir ganga til þess að biðja fyrir þeim dýrum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Dettur einhverjum í hug að þjóð sem trúir svona heitt á lífið sjálft, endurholdgun þess og ber svona mikla virðingu fyrir því skuli vera hryðjuverkamenn? Ég trúi því vart að fólk skuli kaupa svona áróður hrátt.
Í dag skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur þegar fulltrúar þjóðar okkar sýna slíka grunnhyggni og láta peningana ráða en ekki siðferði eða mannréttindi.
Við ættum að líta okkur nær. Það er ekki langt síðan að við vorum fátæk þjóð innlimuð undir stjórn Danaveldis. Myndum við þá skrifa undir "'Eitt Danaveldi" stefnuna? Myndum við skrifa undir það að eðlilegt væri að Danir mættu eignast tvö börn á Íslandi en aðeins eitt í Danmörku? Myndum við skrifa undir það að sjálf mættum við aðeins eiga eitt barn? Myndum við skrifa undir það að smám saman væru Danir að leggja landið okkar undir sig vegna náttúruauðlinda? Myndum við skrifa undir það að menning okkar væri einskis metin og við fengjum varla vinnu í Reykjavík nema tala ensku eða dönsku? Myndi okkur finnast við vera hjálparlaus þegar enginn úr alþjóðasamfélaginu veitti okkur hjálparhönd af ótta við að styggja hina stóru þjóð Danaveldi?
Ég held við myndum ekki skrifa undir þetta og ég held við værum ansi bjargarlaus í þessari stöðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Facebook
Athugasemdir
mikið sem ég er sammála þér - við eigum auðvitað ekki að selja sannfæringu okkar þó svo að það sé mikilvægt að eiga góð samskipti við kínverja. kveðjur af fróni.
Bjarni Harðarson, 31.3.2008 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.