Mikilvægt mál

Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að standa þéttan vörð um hag þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Ég hef áhyggjur af þeim sem minnstar tekjurnar hafa og eru jafnvel að fá minna (sem allt of lágt var nú samt) vegna þeirrar verðbólgu sem ríkir. Þetta er hópur sem ekki á feita varasjóði og þarf að draga fram lífið á hverri krónu. Ég hef ekki áhyggjur af þeim hópi fólks sem þarf að leggja einkaþotunum sínum um skamma tíð.

Ég tel það mjög gott mál hjá Birki að stuðla að því að fulltrúar þeirra hópa sem virkilega þarf að huga að hittist og ræði málin. Það er í anda þess samráðs sem á að vera í sífellu í pólitík. Mikilvægt að heyra stöðuna beint frá viðeigandi aðilum og hafa þá sem best þekkja til með í ráðum um það hvar kreppi mest að og hvaða leiðir sé best að fara til að leysa vandann eins og best verður á kosið.

Það má eflaust deila um fortíðina og margt sem betur hefði mátt gera þar, bæði í þessum málaflokkum sem og öðrum. Sem betur fer lærum við af fortíðinni. Sá sem veltir sér einungis upp úr fortíð mun ekki sjá betri framtíð. Einu sinni var mér sagt af Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa "Við lærum af fortíðinni, lifum í nútíðinni og horfum til framtíðar". Það finnst mér gott að muna. Það er mín trú. Þess vegna tel ég mikilvægara að menn horfi jákvæðum augum til þess sem er verið að gera í dag og einbeiti sér frekar að því að gagnrýna á uppbyggilegan hátt það sem aflaga fer í nútímanum en læri af fortíðinni til að byggja betri framtíð. Persónulegar árásir á fólk og áfellisdómar um liðna tíð eru engum til framdráttar. Því miður finnst mér það vera ansi algengt í pólitík og einnig hér á blogginu.

Ég hrósaði Jóhönnu fyrir hennar verk um daginn. Ég er viss um að hún er vel að því hrósi komin. Jóhanna er einn sá stjórnmálamaður sem ég tók eftir strax sem lítil stelpa og hef alltaf haft miklar mætur á henni síðan. En hún eins og aðrir sem hafa farið með þennan málaflokk er undir gríðarlegri pressu að vinna þannig að það komi öllum hópum sem best og er eflaust undir strangri fjármálaól Sjálfstæðisflokksins sem ekki er velferðarflokkur og hefur farið með fjármálaráðuneytið í langan tíma. Það er nefnilega ekki nóg að hafa góðar hugsjónir. Það þarf líka fjármagn og rétta forgangsröðun. Þar er ábyrgð Sjálfstæðismanna mikil. Jóhanna er því undir sömu ól og fulltrúar Framsóknar hafa verið í langan tíma. Það er ekki oft minnst á það þegar framsóknarmenn fá harða gagnrýni á vinnu sína. Enn sjaldnar er minnst á mörg þau góðu mál sem unnin voru af framsóknarmönnum. Sem dæmi má nefna feðraorlofið, stuðning við Hugarafl, að koma á fót Fötlunarfræðum við H.Í., breytingar á lögum um fæðingarorlofssjóð, standa dyggan vörð um Íbúðalánasjóð og fleira.


mbl.is Birkir Jón: Vill ræða málefni aldraðra og öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband