Föstudagur, 4. apríl 2008
Stórt skref
Þetta umfangsmikla verkefni sem lengi hefur staðið til en virðist loks vera að verða að raunveruleika þarfnast mikils og vandaðs undirbúnings.
Ég legg til að virkt samráð verði haft við fagfólk og fræðafólk á þessum sviðum m.a. fötlunarfræðina í H.Í. allt frá upphafi undirbúningsferils (sem er nú væntanlega hafið) og til langs tíma. Samráð þarf að auki að vera við notendur fyrst og fremst og aðstandendur og marga aðra aðila.
Nægilegir tekjustofnar verða að fylgja og ekki má gera sömu mistök eins og gerð voru þegar skólarnir voru fluttir yfir að dæmið sé ekki reiknað til enda og risastórir bakreikningar myndist.
Það er t.d. fyrirsjáanleg mikil breyting á komandi árum varðandi þjónustu við bæði fatlað fólk og aldrað þar sem stoðþjónusta mun að öllum líkindum taka við af stofnanaþjónustu. Það er að þjónustan og húsnæðið sé ekki endilega samhangandi þættir og þjónustan verði eftir fremsta megni notendastýrð. Þá fær notandinn fjármagnið (eða umbjóðendur hans) og ráðstafa því sjálfir í það að kaupa sér þjónustu. Þjónustan má ekki vera þannig að hún verði að fylgja ákveðnu þaki, ákveðinni steinsteypu þannig að ef þjónustuþörf breytist þurfi viðkomandi t.d. að flytja. Þjónustan á að geta verið einstaklingsmiðuð og sveigjanleg og geta tekið breytingum í takt við líf þess sem hana notar. Kerfið okkar er allt of þungt í vöfum í dag og stíft. Fólk á að geta búið í sinni eigin íbúð eða íbúð, sambýli eða öðru búsetuformi sem rekið er af öðru fyrirtæki og notað þjónustu úr ólíkum áttum.
Kostirnir við þessa yfirfærslu eru gríðarlega margir og um það eru held ég flestir sammála. Það hafa því miður ótal mál fallið á milli ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár þar sem hvor aðili vísar á hinn. Nærþjónusta er langoftast talin vera betri þar sem hún á að geta verið sveigjanlegri og einstaklingsmiðaðri og styttri boðleiðir eru í því formi.
Ég óttast hins vegar mikið aðra þætti eins og það að tekjustofnar fylgi ekki nægilega vel með. Ég óttast það að þetta verði ákaflega erfitt fyrir minni sveitarfélög (þar þarf t.d. jöfnunarsjóður sveitarfélaga að koma inn). Ég óttast einnig því miður að þjónustan verði of ólík á milli sveitarfélaga og því geti sveitarfélög jafnvel meðvitað haft áhrif á það hvort fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda flytjist í sveitarfélagið eða frá því eftir því hversu góð eða slæm þjónustan er. Hér þarf að koma inn einhver trygging og trúnaðarmenn fatlaðra og aldraðra þurfa að vera nógu margir og virkir hvað þetta varðar. Einnig þarf að vera einhver ákveðinn rammi á því hvað telst vera grunnþjónusta sem öllum sveitarfélögum verði skylt að veita. Það er sorglegt og ólíðandi ef sveitarfélög geta valið sér þegna með þessum hætti þar sem þessari þjónustu fylgja útgjöld en minni tekjur. Hér gæti jöfnunarsjóður spilað ákveðið hlutverk.
Ég gerði í starfi mínu í fjölskyldunefnd í Mosfellsbæ lauslegan samanburð á ferðaþjónustu fatlaðra og liðveislu á milli nokkurra sveitarfélaga og það er sláandi munur á þeirri þjónustu sem er í boði og við það er ekki hægt að una. Það er ekki hægt að sætta sig við slíkan mun á lífsgæðum og sjálfsögðum rétti og raunin er aðeins eftir því hvort þú býrð í Grafarvogi eða Mosfellsbæ, sitt hvoru megin við hólinn. Þjónustan var mun slakari í Mosfellsbæ en Grafarvogi. Einhverja línu verður að setja til þess að tryggja ákveðna þjónustu svo þessir hópar hafi raunverulegt val um það hvar þeir vilja búa og fólk þurfi ekki að flytja hreppaflutningum.
Að ótal mörgu er að huga og eflaust mun margt ekki koma í ljós fyrr en á reynir. Hins vegar er hér um stórt og spennandi verkefni að ræða sem á að geta verið jákvætt til lengri tíma ef undirbúningur er góður og vel er vandað til verka.
Ég ítreka það og vona að það sé þegar hafið að notendur sjálfir, hagsmunasamtök, aðstandendur, fræðafólk og fagfólk komi markvisst og virkt að öllum skrefum í ferlinu. Annars munu vera gerð stór mistök sem erfitt verður að leiðrétta þegar á hólminn er komið.
Einnig þarf að huga mjög vel að því hvernig flytja á þá gríðarlegu þekkingu sem skapast hefur og standa vörð um þann mannauð sem vinnur á þessum sviðum við yfirfærsluna.
Ég legg einnig til að við förum aðeins að fordæmi Dana hvað varðar þjónustu við fólk og leggjum meiri áherslu á það að fjárfesta í mannauðnum heldur en í dauðum hlutum og steinsteypu. Í einum leikskóla sem ég heimsótti var margt athugavert við ytra byrði skólans og sumt orðið lúið en þar störfuðu 6 fagmenn og 1 nemi og 2 ófaglærðir. Ég held að við Íslendingar séum oft of upptekin við það að eyða pening í það sem sést á pappír eða sést með berum augum en svo er ekkert eftir þegar á að fjárfesta í fólkinu sjálfu. Sú fjárfesting skilar arðsemi, ekki steinsteypan!
Ég læt þessar fáu hugleiðingar duga í bili en af nógu er að taka hvað þetta verkefni varðar.
Samskipti ríkis og sveitarfélaga rædd á landsþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.