Íslensk stjórnvöld ættu að hunsa opnunarhátíðina á ÓL í Peking

Þetta virðist vera mál málanna í fleiri löndum en á Íslandi þó að íslensk stjórnvöld hafi ekki verið nógu hugrökk til þess að fara að ræða þessi mál í alvöru. Mín persónulega skoðun er sú að stjórnvöld allra landa eigi að hunsa opnunarhátíðina til að beita þrýstingi. Þessi umræða fer fram hér í Danmörku núna. Stjórnvöld eru pólitískir fulltrúar sem mæta í boði kínverskra stjórnvalda. Annað gildir um þá sem keppa á leikunum.

Íslensk stjórnvöld eru ekki að standa sig nógu vel í þessu máli að mínu mati. Þau munu líklega sjá eftir því síðar ef svo verður. Þau ættu að hafa lært af fyrri mistökum.

Fólk ræðir það að ekki eigi að blanda saman póliltík og íþróttum. Það má svo sem taka undir það en hins vegar þá eru ólympíuleikar risavaxinn viðburður sem teygir anga sína inn á öll svið mannlífsins. Ég hef hugsað þetta aðeins. Í rauninni hefði þessi umræða sem nú á sér stað átt að fara af stað þegar Kína fékk rétt á því að halda ólympíuleikana. Þeir hafa undirbúið þetta lengi og þegar ég var í Kína 2002 þá voru leigubílstjórar farnir að sækja námskeið til þess að læra ensku, það gekk hins vegar ekki betur en svo að það eina sem þeir gátu sagt var yes and no og þeir skildu ekkert.

Ég tel að menn hafi bara ekki áttað sig á því þá að þessi alda færi af stað. Þessi umræða opnaðist einhvern veginn ekki þá. Nú eru augu allrar heimsbyggðarinnar á Kína. Þetta er því kærkomið tækifæri til þess að vekja athygli á þessum alvarlegu málum sem annars hefði ekki gerst. Ég er því í dag nokkuð ánægð með það að ÓL verði í Peking. Ég held að þetta sé það besta sem gat gerst fyrir kínverskan almenning og Tíbeta. Kínverska gríman fellur smám saman þegar athyglin beinist öll að Kína. Það er nefnilega ekki endalaust hægt að setja upp leikrit, stýra umræðunni með því að loka á símasamband, net og stjórna fjölmiðlum auk allra annarra áróðurstækja sem eru notuð. Það er ekki hægt gagnvart allri heimsbyggðinni.

Því er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld taki skýra afstöðu í stað þess að láta bara sem ekkert sé. Núna er tækifærið til þess að hafa raunveruleg áhrif í stað þess að sitja í teboði kínverskra stjórnvalda á meðan saklaust fólk er myrt eða fangelsað fyrir það eitt að trúa á leiðtoga sinn. Ég myndi amk ekki geta drukkið slíkt te með hreina samvisku. Það er helber hræsni.

Auðvitað þurfa mótmælendur að passa sig að ganga ekki of langt og mótmælin mega ekki verða neikvæð. Hins vegar er ekkert að því að nota allar mögulegar leiðir til þess að sýna fram á stuðning við Tíbet eins og hún Björk okkar gerði á svo frábæran hátt á tónleikum sínum í Kína.

Fólk veltir því kannski fyrir sér hvers vegna ég skuli vera svona upptekin af Tíbet?

Það er staðreynd að Tíbet er langt í frá eini staðurinn í heiminum þar sem þarf virkilega að berjast fyrir ákveðnum mannréttindum og sýna stuðning. Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar sagði eitt sinn á erindi sem ég heyrði hann flytja að maður yrði að velja sér bardaga. Það væri einfaldlega ekki hægt að bjarga öllum heiminum. Ég er algjörlega sammála. Ég hef verið í Tíbet og þá eygði ég ekki von til þess að þessi staða kæmi upp þeas að heimsbyggðin færi smám saman að opna augun varðandi Tíbet. Nú er tækifærið! Ég hef þráð þetta frá því ég kynntist fyrst sögu Tíbet og átti mér þann draum að heimsækja þetta land og sjá með eigin augum aðstæður. Það gerði ég og það staðfesti í raun fyrir mér hversu niðurnídd þjóðin er. Ég valdi mér fyrir mörgum árum síðan að berjast fyrir Tíbet. Ég vissi bara ekki hvar ég ætti að byrja? Því er ég að byrja hér. Og ég mun aldrei gefa neinn afslátt á Tíbet. Það er bara þannig. Þeir sem þekkja mig vita að þegar ég hef tekið skýra afstöðu í einhverju sem er mér hjartans mál þá verður mér ekki haggað.

Ég ætla því að berjast fyrir Tíbet og leggja mitt af mörkum svo lengi sem þarf og svo lengi sem ég lifi.

Ég er gengin í samtökin Vinir Tíbet og get með stolti sagt það að systir mín Aðalheiður Þórisdóttir er meðstjórnandi í þeim góða hóp og ég er því með þeim í huganum í því sem hópurinn er að gera en líka næstum því í eigin persónu þar sem hún er þar fyrir okkur báðar enda betri helmingurinn minn Wink.

 

 

 


mbl.is Mótmæla ólympíuleikunum í San Francisco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband