Þúsund bjartar sólir

Ég var að klára þessa bók í dag.

Ég varð alveg hugfangin af henni en hún Erla vinkona mín lánaði mér hana. Takk elskan.

Þessi bók er eftir Khaled Hosseini (sama og skrifaði Flugdrekahlauparann) og segir hún frá tveimur afgönskum konum sem örlögin leiða saman á sérstakan hátt. Hún lýsir vel ömurlegu hlutskipti afganskra kvenna og færir mann aðeins nær því að gera sér grein fyrir því hvernig lífið er í stríðshrjáðu landi.

Þessi bók fangaði svo huga minn að ég las hana nær alveg stöðugt frá því ég byrjaði og lauk henni. Ég bara gat ekki hætt. Í lokin þurfti ég þó að hlaupa nokkrum sinnum inn (sat úti á svölum í sólinni) til þess að þurrka sólarvörnina sem lak ofan í augun á mér þegar tárin láku.

Það er nefnilega svo merkilegt að hugsa til þess hvað maður er að velta sér upp úr smásmugulegum vandamálum hversdagsins og maður skammast sín hreinlega þegar maður les bók eins og þessa og er minntur á það hvað margir eru að glíma við á hverjum einasta degi.

Það er svo oft þannig að maður heyrir í fréttum hvernig stríð sé háð hér og þar úti í hinum stóra heimi. Og það er manni svo órafjarlægt. Alveg eins og maður sé bara að heyra um það í kvikmynd og það sé í raun ekkert að gerast. Bara enn ein slæma "fréttin". Málið er hins vegar það að bakvið hverja svona frétt eru ótrúlegar mannraunir. Fólk hefur misst allt sitt, fólk hefur misst fjölskyldumeðlimi, fólk hefur misst heimili sín, fólk hefur misst börnin sín, fólk hefur misst elskanda sinn og svona mætti lengi telja. Fólk þarf að upplifa ótrúlega grimmd og sjá skelfilegustu hlið mannsandans en tekst þrátt fyrir allt að hafa það af, halda áfram og lifa af.

Það er erfitt fyrir mig sem íslenska sjálfstæða konu að gera mér í hugarlund það hlutskipti sem Laila og Miriam þurftu að búa við í bókinni. Konur sem áttu svo lítið val um eigið líf. Að vera gefin manni sem þú kærir þig ekkert um sem er miklu eldri en þú og á þig svo með húð og hári. Að þurfa að hylja sig frá toppi til táar og geta ekki farið úr húsi nema í fylgd karlmanns. Að geta ekki menntað sig. Að þurfa að lifa með manni sem beitir þig stanslausu andlegu og líkamlegu ofbeldi og svívirðir þig. Að þurfa að lifa við hungur og vosbúð vegna stríðs. Að missa mikið af þínu nánasta fólki og vera algjörlega upp á aðra komin þar sem þú hefur hvorki möguleika á að mennta þig eða vinna fyrir þér sjálfur.

Mannsandinn er samt alveg ótrúlega sterkur og það er mikið sem hann þolir. Ég held samt að oft á Vesturlöndum séum við komin ansi langt frá þeim raunveruleika sem margir búa við í heiminum. Á meðan konur hér sitja og lesa Cosmopolitan og velta fyrir sér hvernig þær eigi að losna við þessi 3 aukakíló og hvort þær eigi að kaupa gult eða bleikt veski þá eru aðrar konur sem búa algjörlega sem fangar eiginmanna sinna og eiga engan rétt eða val um sitt líf.

Ég held að maður eigi að þakka fyrir hvern einasta dag sem maður lifir sem sjálfstæður, frjáls einstaklingur sem lifir í friðsömu landi.

Það eru sannkölluð forréttindi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband