Þegar mótmæli snúast upp í vitleysu

Ég hef verið að fylgjast með mótmælaaðgerðum atvinnubílstjóra úr fjarlægð. Þetta virðist að mínu mati vera komið út í vitleysu og þjónar ekki lengur upphaflegum málstað. Ekki nema það að fá almenning og stjórnvöld í landinu upp á móti atvinnubílstjórum.

Vissulega þarf að huga vel að þeirra kjörum og aðstæðum. Það skiptir okkur öll máli að þeir séu t.d. úthvíldir þar sem þeir keyra um smávaxna þjóðvegi landsins innan um almenna umferð oft í erfiðum aðstæðum. Enginn efast um mikilvægi starfs atvinnubílstjóra og ég held að fólk hafi haft fullan samhug með þeim amk. í upphafi.

Þessi mótmæli hafa verið eins og snjóbolti sem hefur undið upp á sig. Þetta er kannski íslenski hátturinn á. Geta ekki hætt. Verða að eiga síðasta orðið.

Hitt er annað mál að í lýðræðisríki á vinnandi fólk að berjast fyrir sínum kjörum og setja fram kröfur á atvinnurekendur sína. Þannig verður framþróun og fólk berst fyrir sjálfu sér og þeim sem feta í fótsporin í framtíðinni. Þannig hefur þetta alltaf verið og mun alltaf verða.

En kröfurnar verða að vera raunhæfar. Til dæmis varðandi álögur á eldsneyti þá hefur það verið að hækka um allan heim og það er ekki að hækka meira á Íslandi en í mörgum nágrannalöndum okkar. Þannig að ef ætti að lækka það þá yrði að taka það af þeim sjóðum sem við nýtum í önnur verkefni eins og til dæmis menntamál eða velferðarmál. Er það betra? Er ekki eðlilegra að þeir sem keyra um göturnar og nota eldsneytið greiði fyrir það en allir landsmenn. Þannig getur sá sem velur sér að vera umhverfisvænn og reyna að draga úr eldsneytisgjaldi sínu hjólað og sparað fjármagn. Á hann þá að greiða niðurgreitt eldsneyti fyrir aðra? Þetta snýst nefnilega ekki einungis um ríkisstjórn Íslands, þetta snýst um heimsmarkað að þessu sinni og því ekki hægt að skella skuldinni bara á ríkisstjórnina. Og ekki mun eldsneytisverð lækka í framtíðinni, það mun einungis fara hækkandi.

Það væri ágætt að fara að huga að því hvernig megi bæta samgöngumáta á Íslandi með eldsneytissparnað í huga. Til dæmis þarf að stórbæta allar aðstæður hjólreiðamanna og endurskoða almenningssamgöngur þannig að það verði raunhæfur möguleiki í framtíðinni að nota þær að staðaldri.

Ég vona að þetta mál fái farsæla lausn á endanum, það virðist löngu soðið upp úr öllum pottum.


mbl.is Sturla: „Ekki á okkar ábyrgð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Kidda sammála þér og varðandi síðarihlutan í grein þinn þá vil ég bæta við varðandi almenningsamgöngur að rík þjóð eins og við ætti fyrir löngu að vera komin með lestarkerfi frá Keflavík til Reykjavíkur og þaðan norður t.d. til Akureyrar. Þetta mundi til lengdar spara okkur aðkeypta orku, slit á vegum og náttúrulega innlendir mengunarlitlir orkugjafar.

Magnús Helgi Björgvinsson, 24.4.2008 kl. 22:43

2 Smámynd: Berta María Hreinsdóttir

Mér finnst alveg ótrúlegt hvað fólk er orðið "æst" yfir háu eldsneytisverði þar sem það hefur hækkað alls staðar í heiminum og Ísland því ekkert sér á báti hvað það varðar. Fólk mætti frekar eyða meiri púðri í að mótmæla öðrum gjöldum eins og bankagjöldum, háu matvælaverði, sérfræðingagjöldum osfrv.....bílar eru jú "munaðarvara" sem menga og skemma vegi og því eðlilegt að það kosti sitt að reka þá. Auðvitað er eldsneyti orðið skelfilega dýrt en það er þannig alls staðar.

Ég er sammála Magga um að það ætti fyrir löngu að vera komið lestarkerfi á Íslandi....ekki spurning!

Berta María Hreinsdóttir, 25.4.2008 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband