Föstudagur, 25. apríl 2008
Undiralda íslensku þjóðarinnar
Ég var að horfa á myndbrot og fréttir af mótmælum vörubílstjóra og átökum við lögreglu og nú fetar unga fólkið í sporin...
Þessi átök og önnur ólga í þjóðfélaginu eru að mínu mati birtingarmynd gremju sem snýst ekki bara um hækkað eldsneytisverð og kröfur vörubílstjóra.
Ég held að það sé nokkuð til í því sem kom fram þarna að það er vaxandi almenn gremja í þjóðfélaginu.
Það er reyndar algengt að óánægja og reiði aukist þegar þrengir að. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það. Fólk kvartar síður þegar allt leikur í lukkunnar velstandi og flestir hafa nóg. Þegar þrengingar verða þá reynir á. Eins og sagt er við hjónavígslur í blíðu og stríðu. Þannig þurfum við líka að hugsa sem þjóð. Standa saman í blíðu og stríðu.
Við erum einungis 300 þúsund manna þjóð og erum ein ríkasta þjóð í heimi. Við búum yfir gríðarlegum auðlindum bæði í fallega landinu sem við byggjum en líka í þjóðinni sjálfri. Við erum kraftmikil, dugmikil og framsækin þjóð. Þjóð sem standa allir vegir færir.
Það hefur hins vegar eitthvað verið að gerast. Bilið á milli ríkra og fátækra er að breikka óeðlilega hratt og áhersla stjórnvalda er komin of langt frá grasrótinni. Áherslurnar eru komnar út fyrir hinn innsta hring sem ég tel vera að beina sjónum að þjóðinni sjálfri, hvernig best sé hlúið að henni og borið á þannig að hún dafni sem best. Hvernig við vinnum að sífellt betra mennta- og velferðarkerfi og byggjum upp öflugt atvinnulíf þannig að allir nái að blómstra. Hagvöxtur í þjóðinni. Við viljum öll að börnin okkar fái bestu umönnun sem völ er á, veikir ættingjar okkar eða við sjálf, að aldraðir foreldrar okkar eigi gott ævikvöld í góðum virðingarverðum aðstæðum og að við hvert og eitt fáum að nýta þær auðlindir sem hvert og eitt okkar býr yfir til fullnustu. Óháð því hver staða okkar er eða aðstæður t.d. hvort við séum með einhvers konar skerðingu eða ekki. Við viljum að allir eigi rétt á því frelsi að njóta sín.
Á hinn bóginn þá er orðin svo mikil pressa frá alþjóðasamfélaginu og fyrirtækjaveldið orðið svo mikið að stjórnvöld ná ekki að sinna hinu innra hlutverki heldur fer mest öll orkan í það ytra. Áherslan liggur á því að skarta sínu fegursta fyrir framboð í Öryggisráðið, að ferðast um heiminn til þess að sinna mannréttindamálum og stríðshrjáðum löndum og afla tengslaneta og viðskiptasambanda. Það sem setti steininn úr var að sumar þessara ferða voru farnar í einkaþotu. Einkaþota er þyrnir í augum hins vinnandi manns sem greiðir sína skatta samviskusamlega. Einkaþota er tákn þess sem er of merkilegur til þess að ferðast með sauðsvörtum almúganum og þarf að komast hraðar en hinir. Það er svona það eru allir mikilvægir en "sumir eru mikilvægari en aðrir" keimur af einkaþotum svona í anda George Orwells og Animal Farm.
Ég held að ríkisstjórnin ætti aðeins að setjast niður. Draga andann djúpt og ná áttum. Ég er mjög viss um að öll þau erindi og ferðir sem farið hafa verið eru góðra gjalda verð. En hins vegar þá er sagt að "home is where the heart is" og heimili og hjarta íslensku þjóðarinnar er ekki í útlöndum. Heimili og hjarta okkar er ekki það að þessi 300 þúsund manna sérstaka þjóð leysi vanda heimsbyggðarinnar. Heimili og hjarta okkar er á Íslandi. Og leysa þau viðfangsefni sem eru mikilvægust í okkar daglega lífi. Við viljum sjá það að börnunum okkar, sjúkum og öldruðum sé vel sinnt. Að við getum búið vel að námsfólkinu okkar og atvinnuvegunum.
Ég veit að heimurinn er alltaf að minnka og við þurfum að hafa til dæmis efnahagsmálin í lagi til þess að geta veitt þjóðinni okkar þetta. Ég hef samt mjög sterka trú á því að það sem mestu máli skiptir gerist allt í okkar heimalandi.
Ég tel að einhvers staðar á leiðinni hafi stjórnvöld misst sjónar á hvað skiptir mestu máli. Þau hafi misst sjónar á því hvernig á að forgangsraða og séu á villigötum hvað það varðar. Ég vona að þau dragi úr umsvifum okkar erlendis og fari að forgangsraða landinu okkar og þjóðinni fremst á listann.
Þá myndi undirölduna lægja í stað þess að hún vaxi og vaxi þar til hún skellur á einhverjum.
Rýmingu lokið á Miklubraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Facebook
Athugasemdir
Þessi vitleysis mótæli á háu eldsneytisverði er bara rugl! Held að ríkisstjórnin ætti frekar að setjast niður og skoða aðeins betur þessa skattlagningu sem heldur fólki í gíslingu í dag. Ég er viss um að fólk vilji geta ráðið því sjálft hvert það setur peninginn sinn í í staðinn fyrir að láta ríkisstjórnina marg skattleggja allt sem hægt er sama hversu ósanngjarnt það er, sem á endanum er sett í eitthvað djöfulsins kjaftæði. (Dagpeningar ráðherra erlendis, stórveislur og margt peningabruðl innan þess opinbera). Ég held að það sé kominn tími á að það sé hugsað um fólkið í landinu svona einu sinni.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að einkavæða allt til að spara pening sem endar með því að allur kostnaður hækkar þar sem einkaaðilar sjá sér von um gróða. Imba Solla og co bara fylgja með því þau fá að vera með í ríkisstjórn og ferðast til fjarlægra landa á kostnað ríkissins og á meðan sitja svo frammarar og vinstri grænir og bora í nefið yfir öllu saman alveg bit á öllu saman.
eikifr (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 22:57
Stórfín grein hjá þér. Get tekið undir margt. Mikilvægt er að reyna að átta sig á hvað raunverulega er að gerast og stjórnvöld þurfa einmitt að átta sig á því, það er hlutverk þeirra.
Ástandið í dag hlýtur að vera skapað af undanfarandi tímum. Þú talar um kjaramuninn sem vaxandi hefur verið hér á landi. Hinn vaxandi kjaramunur hefur klárlega ruglað okkur í ríminu hvað varðar okkar eigin kjör. Sumir synir og sumar dætur Jóns og Gunnu hafa hagnast mörg hundruðfalt á við annað fólk í landinu. Það hefur verið réttlætt með því að synirnir og dæturnar séu svo klár og mikilvæg - sem sé mikilvægari en fólk sem vinnur með höndum og svita í andliti. Svo breyttust títtnefndar "ytri aðstæður" og þá kom í ljós að ávinningur sérfræðinganna hafði verið háður góðum lánskjörum ytra! Og þetta fólk sá ekki fyrir þessar breytingar, hafði a.m.k. ekki undirbúið sig (fyrirtækin á ég við) fyrir þær, var þá í raun ekki séðari en það...
Það stjórnarfar sem hefur verið hér við lýði undanfarna næstum tvo áratugi a.m.k. má kenna við frjálshyggju og markaðshyggju. Mítan hefur gengið út á það að hinn frjálsi markaður leiði samfélagið áfram til jöfnuðar þegar inngrip stjórnvalda eru sem minnst (að vísu er þetta í raun gamla hugmyndin Adam Smiths). Í raun hefur verið í gangi tilraun sem bar ekki árangur; hin ósýnilega hönd hefur klappað sumum á kollinn en slegið aðra utan undir. Bilið breikkar bara og breikkar.
En stjórnvöld hafa hlutverk. Þeim ber að tryggja, og það sífellt og öllum stundum, að grunnstoðir samfélagsins séu í lagi; menntakerfið, heilbrigðiskerfið, öryggið og löggæslan. Miðað við fréttaflutning í fjölmiðlum stanslaust þá gengur rekstur þessara grunnstoða illa þrátt fyrir svokallað "góðæri" undan farið.
Þá finnst mér frjálshyggjan hafa haft mikil áhrif á hugarfar fólks. Frjálshyggjan hefur fært okkur sérhyggju, fyrirtækjahyggju, peningahyggju og efnis- og neysluhyggju. Allt þetta er orðið áþreifanlegt í íslensku samfélagi í dag.
Allt ofangreint er áfellisdómur á þá stjórnarstefnu sem hér hefur ríkt!
En jafnframt, þrátt fyrir allt ofangreint, þá finnst mér fólki sjálfu um að kenna að þónokkru leyti. Fólk hefur ekki sýnt fyrirhyggju. Einmitt fyrir efnishyggjuna og kapphlaupið, þá stemningu sem ríkt hefur hér, hefur fólk ekki gáð að sér; það hefur spennt bogann svo hátt að ekkert mátti út af bregða - og nú hefur eitthvað brugðið út af, gengisfall, hlutabréfavandræði og olíuverðshækkanir, með sjálfsögðum afleiðingum. Fólk hefur skuldsett sig of mikið - neysla okkar undanfarið hefur verið tekinn út á krít og nú hækka lánin! Og þar er ekki beint við stjórnvöld að sakast, heldur okkur sjálf!
Og að lokum; það vorum við sjálf sem kusum það fólk sem setið hefur við stjórnvölinn.
Eiríkur Sjóberg, 25.4.2008 kl. 23:20
Hvaðan koma peningar? hvað er verðbólga? er hægt að losna við gengisfall og verðbólgu? eru allir peningar lán í upphafi? getur ríkið lánað vaxtalaust? heimildarmynd sem svarar öllu þessu http://www.youtube.com/watch?v=cy-fD78zyvI
Pétur (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 01:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.