Laugardagur, 26. apríl 2008
Gott skref Árna Tryggvasonar
Mikið er ég ánægð með hann Árna Tryggvason leikara. Hann fær hrós dagsins hjá mér í dag.
Þetta er einmitt það sem þarf meira af í okkar þjóðfélagi. Aðgerðir í stað þess að sitja ósáttur. Að fólk setjist niður og skrifi greinar og láti skoðun sína í ljós í stað þess að kvarta einungis við næsta mann sem skilar svo engu. Þarna náði Árni eyrum heilbrigðisráðherra og mun það vonandi leiða til betri aðbúnaðar á geðdeild Landspítalans. Ekki það að ég geri mér fulla grein fyrir því að fólk hefur látið í sér heyra og stundum alveg án þess að það skili nokkrum árangri. En dropinn holar steininn og þegar fólk sem er þekkt stígur fram þá nær það fyrr athygli almennings og stjórnvalda.
Það þarf að taka allt geðheilbrigðiskerfið til rækilegrar endurskoðunar. Það er bara úrelt eins og það hefur verið að mínu mati. Geðheilbrigðiskerfið þarf að teygja anga sína um allt þjóðfélagið því geðheilbrigði er alls staðar í okkur öllum um allt þjóðfélagið. Það þarf að bæta þjónustu þeirra sem þurfa að leggjast inn á geðdeildir til skammtímameðferðar. Þegar því lýkur þá þarf að bjóða upp á öfluga eftirfylgni og endurhæfingu. Mér hefur fundist þann þátt vanta. Þetta hefur verið svolítið af eða á. Annað hvort að liggja inni á geðdeild eða fara beint út í samfélagið.
Málið er það að geðsviðið er svo stórt og víðfeðmt. Ég vil meina að geðsviðið sé eitthvað sem teygi anga sína inn í hverja einustu fjölskyldu á Íslandi. Sú þjónusta sem fólk þarf getur verið allt frá akút bráðaþjónustu, til stuðnings allan sólarhringinn við búsetu og yfir í eftirfylgni. Það er bara allt þarna á milli. Þess vegna þarf sú þjónusta sem ríkið sér um að vera afar fjölbreytt og góð. Ég held að það sé gríðarleg orka sem er óvirkjuð sem liggur í fólki sem hefur geðsjúkdóma og hefur ekki náð fótfestu á vinnumarkaði eftir veikindi sín. Það þyrfti að stórefla endurhæfingarúrræði og stuðning við fyrstu skref á vinnumarkaði. Það þarf að opna augu fyrirtækja í landinu og hjá hinu opinbera fyrir því að það þurfa ekki allir að vera steyptir í sama mótið og starfa 8-16 alla daga vikunnar. Sumum hentar að vinna 2 klst. á viku. Ég held að þessi hugsun sé að koma en hún er meira í orði en á borði að mínu mati. Og þetta þarf að spila saman með þeirri tryggingu sem fólk þarf að hafa á framfærslu sína. Það má aldrei eiga það á hættu að standa uppi tekjulaust (missa til dæmis framfærslu frá TR vegna þess að það "hætti sér út á vinnumarkaðinn til að reyna á mörk sín").
Svo eru mörg atriði sem þarf að skoða til þess að aðstoða fólk í daglegu lífi sínu. Það er til dæmis mjög mikilvægt að ríkið niðurgreiði sálfræðiþjónustu og skammarlegt að Sálfræðingafélag Íslands hafi þurft að standa í málaferlum við ríkið til þess að reyna að fá TR til þess að taka þátt í kostnaði og þannig sé ekki verið að mismuna fagstéttum þar sem þjónusta geðlækna er t.d. niðurgreidd. Sú þjónusta sem sálfræðingar veita getur verið mjög mikilvæg þeim sem er að takast á við þunglyndi, kvíða eða aðrar geðraskanir. Það hefur sýnt sig að hugræn atferlismeðferð hefur sýnt fram á sambærilegan árangur og oft betri við mörgum geðröskunum en lyfjameðferð og líkur á hrösun eru mun minni.
Hins vegar getur oft verið mjög mikilvægt að fólk taki lyf alveg í byrjun meðferðar eða ef um mjög alvarlegt þunglyndi t.d. er að ræða. Þarna þurfa geðlæknar og sálfræðingar að geta unnið saman. Aðalatriðið er það að ríkið á að greiða leið almennings að sálfræðingum því það er mjög dýrt að fara til sálfræðings án þess að það sé niðurgreitt og þannig er um ójöfnuð að ræða í þjóðfélaginu í dag. Það er ekki sanngjarnt að fólk geti einungis valið um geðlækna því fæstir þeirra sinna samtalsmeðferð og þeirra leið er lyfjameðferð sem hentar alls ekki öllum. Sumir henda bara lyfjunum um leið og færi gefst á eins og Árni nefnir í viðtalinu. Þá eru skattpeningar farnir til einskis sem hefði betur mátt nota í að niðurgreiða þjónustu sálfræðings sem færir fólki vopn í hendur til þess að glíma við þunglyndið sjálft. Það þarf að stórauka aðgengi að sálfræðingum og það er ekki nóg að hafa þá einungis á heilsugæslutöðvum því þar eru þeir mestmegnis í greiningum en ekki langtíma meðferðum.
Það er heldur ekki heillavænlegt eins og heyrst hefur að aðrar stéttir séu að læra hugræna atferlismeðferð og ætli að beita henni til jafns á við sálfræðinga. Það er álíka slæmt og ef sálfræðingur ætlaði að læra að skipta um sár og fara að stunda það.
Ég bíð því spennt eftir þeim degi sem ríkið ákveður að niðurgreiða alla sálfræðiþjónustu (ekki einungis mjög afmarkaðan hóp barna sem hefur verið vísað eins og staðan er í dag). Þannig veit ég að munu sparast miklar fjárhæðir því þá dregur úr lyfjaaukstri og fólk fær raunverulegan valkost um hvaða leið það vill velja til þess að takast á við veikindi sín. Þannig má líka fyrirbyggja mikla vanlíðan fjölskyldna og einstaklinga ef fyrr er gripið inn í þeas. löngu áður en þörf er á innlögn eða lyfjameðferð.
![]() |
Barátta við þunglyndi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:23 | Facebook
Athugasemdir
Mikið vona ég að þetta muni skila einhverju hjá Árna.....ekki veitir af! Löngu kominn tími á að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd fyrir alla sem á henni þurfa á að halda. Til lengri tíma litið myndi það spara heilmikið í heilbrigðiskerfinu og skila ánægðari einstaklingum út í lífið og á vinnumarkaðinn.
Berta María Hreinsdóttir, 26.4.2008 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.