Laugardagur, 17. maí 2008
Niðurgreidd, aðgengileg sálfræðiþjónusta er þjóðhagslega hagkvæm
Það þekkir það sennilega hver Íslendingur á eigin skinni eða í gegnum nákominn ættingja hvernig það er að veikjast af geðröskun. Þetta fer hins vegar hljótt um okkar samfélag. Það þarf mikinn kjark til þess að viðurkenna fyrir sjálfum sér og samfélagi sínu að maður glími við geðröskun eins og til dæmis þunglyndi eða kvíða. Við Íslendingar vinnum mikið og lifum hratt. Við lifum í umhverfi sem er hlaðið streitu. Þess háttar umhverfi eykur líkur á því að geðröskun komi fram. Talið er að þunglyndi muni vera einn mesti heilsubrestur 21. aldarinnar og valda mestu vinnutapi. Hvað er þá til bragðs að taka til þess að snúa vörn í sókn?
Hér má nefna margt en ég mun aðeins nefna dæmi. Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar og fræðsla á öllum þjóðfélagsstigum. Fólk þarf að verða meðvitaðra um að stunda geðrækt á sama hátt og líkamrækt og leggja þannig sitt af mörkum í því að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð. Stundum er það ekki nóg. Þá þarf frekara inngrip. Hingað til hefur fólk ekki haft raunverulegt val um meðferð við geðröskun þar sem þjónusta geðlækna hefur verið niðurgreidd en ekki þjónusta sálfræðinga. Oft verður niðurstaða mála sú að fólk leitar þjónustu geðlækna og gengur út með lyfseðil og þá verður kostnaður Ríkisins við meðferð einstaklingsins mun meiri þegar á heildina er litið (bæði við niðurgreiðslu á þjónustu geðlæknisins og lyfjanna) heldur en hann hefði verið við niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu og mögulegt hefði verið að komast hjá lyfjagjöf sem hlýtur að vera bæði þjóðfélaginu og manneskjunni mikilvægt.
Það er talsverður munur á nálgun og hlutverki þessara tveggja fagstétta við meðferð. Geðlæknar vinna meira út frá lyfjagjöf en sálfræðingar út frá samtalsmeðferð af ýmsu tagi. Ein þeirra er hugræn atferlismeðferð sem gefist hefur afar vel og færir fólki vopn í hendurnar sem það getur nýtt sér til framtíðar. Það hefur verið sýnt fram á það í ýmsum rannsóknum að árangur verður oft jafnmikill eða betri af hugrænni atferlismeðferð en lyfjameðferð gegn til dæmis þunglyndi. Það hefur einnig verið sýnt fram á það að algengara er að fólk hrasi og veikist aftur ef það notar einungis lyfjameðferð. Stundum gerist það þannig að fólk hættir að taka lyfin þegar því fer að líða betur og veikist þá á ný. Lyf eru þó nauðsynleg í alvarlegu þunglyndi og oft í upphafi meðferðar. Við vægu þunglyndi er hugræn atferlismeðferð stundum nægt inngrip.
Með því að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga og auka aðgengi samfélagsins að sálfræðingum tel ég mikilvægt skref verða stigið að því að bæta geðheilsu og velferð þjóðarinnar. Fólk færi þá fyrr af stað að leita sér hjálpar en ella, áður en allt er komið í óefni: þegar fólk er orðið óvinnufært, fjölskyldulífið og börnin eru farin að líða fyrir það og manneskjan sjálf komin með mun stærra sár til að græða en þörf var á. Í Danmörku eru starfrækt svokölluð Angstklinik" sem eru miðstöðvar úti í samfélaginu í tengslum við spítalana þar sem fólki stendur til boða hugræn atferlismeðferð sér að kostnaðarlausu. Fyrir suma geta það verið ansi þung spor að stíga á geðdeild sjúkrahúss til að leita meðferðar og sleppa því frekar. Það er gott framtak að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum en hlutverk þeirra er fyrst og fremst að stytta biðlista. Auk þess þarf fólk að eiga eitthvað val um hvaða fagaðila það leitar til.
Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu fyrir fólk hefði að mínu mati í för með sér gríðarlegan sparnað í heilbrigðiskerfinu og hagkerfinu þar sem draga mætti úr þeim mikla lyfjaaukstri sem raun er, fækka verulega veikindadögum starfsfólks sem er í langtíma eða skammtíma veikindum vegna geðraskana, auka afköst og gera fjölskyldur betur í stakk búnar að takast á við verkefni daglegs lífs. Oft getur þetta fyrirbyggt að neikvæður spírall myndist sem getur valdið frekari vandkvæðum fyrir einstaklinginn eða fjölskyldu hans og orðið þjóðinni mun kostnaðarsamara heldur en ef gripið hefði verið í taumana.
Nú er tími sálfræðinga kominn!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:58 | Facebook
Athugasemdir
Sammála, sbr. pistil minn hér í talhorni talsmanns neytenda.
Gísli Tryggvason, 18.5.2008 kl. 00:28
Sæl og blessuð Kristbjörg! Þessi pistill þinn er að mörgu leiti ágætur en virkar á mig eins og auglýsing fyrir sálfræðinga. Tími sálfræðinga er ekki kominn. Tími fjölskyldunnar er komin! Faðmlag og fallegt orð í eyra hefur gefið mér meira en sálfræðimeðferð og trúðu því að ég hef sko reynsluna.
Himmalingur, 18.5.2008 kl. 00:34
Sæl Kristbjörg.
Ég er hjartanlega sammála þér,og þetta eru ekki lengur feimnismál.Hver er ekki Geðveikur?
Takk fyrir góðan pistil.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 00:58
Tek algjörlega undir með þér Kidda.
Nú er tími til kominn að jafna aðgang fólks að þjónustu. Ég hef mikið meiri trú á hugrænni atferlismeðferð en lyfjagjöf sem því miður er ofnotuð hjá mörgum geðlæknum.
Þórarinn: Góður punktur hjá þér, líka hægt að spurja, hver er eiginlega Heilbrigður. Það er oft sagt að það sé þunn lína á milli snilligáfu og geðveiki. Ég er þá pottþétt snillingur.
Aðalheiður Þórisdóttir, 18.5.2008 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.