Fimmtudagur, 22. maí 2008
Nú getur Mosfellsbær eflt mynduglega þjónustu við alla íbúa bæjarins
Þetta eru góðar fréttir!
Vísir, 22. maí. 2008 15:20
Rekstur Mosfellsbæjar jákvæður um 543 milljónir
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2007 var kynntur á 491. fundi bæjarstjórnar í dag og honum vísað til seinni umræðu sem er fyrirhuguð 4. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ. Enn fremur segir þar:
Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2007 gekk mjög vel. Rekstrarniðurstaða A og B
hluta var jákvæð um 543 mkr. Veltufé frá rekstri var 600 mkr eða 13,8% af
rekstrartekjum og handbært fé frá rekstri var 416 mkr. Skuldir og skuldbindingar
A og B hluta lækkuðu um 348 mkr á árinu og námu 3.730 mkr í árslok.
Eiginfjárhlutfall A og B hluta var 0,42 og hefur hækkað úr 0,25 frá árinu 2002 en
sé einungis litið til A hluta var eiginfjárhlutfall 0,42 og hefur hækkað úr 0,15 frá
árinu 2002.Mikil uppbygging átti sér stað í sveitarfélaginu á árinu og námu fjárfestingar 618
mkr en þar af voru 401 mkr vegna fræðslumála og 66 mkr vegna íþróttamála. Á
árinu var tekin í notkun íþróttamiðstöð að Lækjarhlíð sem er í eigu Fasteignafélagsins
Lækjarhlíðar ehf þar sem Mosfellsbær er 50% eigandi. Mosfellsbær hefur
gert sérleyfissamning til 30 ára sem tryggir íbúum aðgang að miðstöðinni.
Sköttum og þjónustugjöldum er stillt í hóf og er Mosfellsbær eitt fárra sveitarfélaga
sem ekki fullnýtir heimild til álagningar útsvars.Fasteignaskattar á
íbúðarhúsnæði voru lækkaðir í 0,225% auk þess sem 5 ára börn fá áfram
endurgjaldslausa 8 tíma leikskólavist.
Mosfellsbær hefur markað sér sérstöðu á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
hvað varðar áherslu á fjölskylduvænt samfélag með áherslu á íþróttir og
útivist. Framtíðarhorfur Mosfellsbæjar eru góðar og hefur sveitarfélagið í
samvinnu við landeigendur stuðlað að nægu framboði lóða og uppbyggingu
skólamannvirkja. Íbúum fjölgaði um 646 eða um 8,6% á árinu og voru 8.147 í
árslok. Gert er ráð fyrir áframhaldandi íbúaaukningu á komandi árum sbr. þriggja
ára áætlun."
Þar sem svona mikill rekstrarafgangur er þá ætti að vera nægt fé til umráða til þess að gefa nú hressilega í alla félagslega þjónustu í Mosfellsbæ sem víðrætt er um að sé afar slök. Sem dæmi um það má nefna að möguleikar fólks til þess að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra eru mun þrengri í Mosfellsbæ en t.d. hjá Reykjavíkurbúum þar sem hægar en góðar framfarir hafa verið undanfarin misseri t.d. varðandi það að geta pantað ferðina samdægurs, geta pantað ferð sem fara á um helgi á laugardegi, fleiri ferðir til einkaerinda oþh.
Einnig hefur Mosfellsbær haft þá stefnu að fólk sem býr á sambýlum geti ekki nýtt sér liðveislu þar sem það búi á stofnun. Á mörgum svæðum í Reykjavík á fólk rétt á liðveislu þrátt fyrir að búa á sambýlum. Liðveisla er mjög mikilvæg leið til þess að aðstoða fólk við að njóta tómstunda og rjúfa félagslega einangrun og ekki sjálfgefið að fólk kjósi að stunda slíkt með því fólki sem aðstoðar það við allar athafnir daglegs lífs.
Einnig hefur Mosfellsbær ekki boðið upp á ferðaþjónustu blindra sem er talsvert annað fyrirkomulag en ferðaþjónusta fatlaðra og hafa því blindir íbúar Mosfellsbæjar þurft að nýta ferðaþjónustu fatlaðra sem hentar þeim mun verr. Mitt álit er það að ferðaþjónusta fatlaðra þyrfti að nálgast þá þjónustu sem ferðaþjónusta blindra býður upp á fyrir alla sem nýta þurfa slíka þjónustu.
Hér má endalaust halda áfram... Auka stuðning við fatlaða nemendur í skólum til að auka möguleika á raunverulegum skóla án aðgreiningar, bæta heimasíðu Mosfellsbæjar með tilliti til þess að hún sé aðgengileg öllum íbúum bæjarfélagsins en eins og staðan er í dag þá á fólk með skerðingar ekki auðvelt með að nýta sér hana sem upplýsingaveitu. Það kostar líklega um 250 þúsund krónur að láta taka út síðuna þannig að upplýsingar fáist um hvað þarf að lagfæra og svo kostar eitthvað að setja hana upp á nýtt með tilliti til aðgengis fyrir alla og tilliti til þess að hún fái vottun. Meira um þetta á http://www.sja.is/
Svona mætti taka marga fleiri málaflokka en hér hef ég aðeins vikið að því sem snýr að þjónustu við fatlaða íbúa bæjarfélagsins.
Þetta eru því góðar fréttir fyrir þá íbúa Mosfellsbæjar sem lengi hafa beðið eftir bættri þjónustu. Ef svona mikið er til umráða þá hlýtur bæjarstjórn að sjá sér fært að bæta allverulega í félagslega þjónustu sína sem hefur að mínu mati verið afar slök með tilliti til þess hvað bærinn gæti gert ef áhugi væri fyrir hendi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Facebook
Athugasemdir
Ég sé í ársreikningnum að liðurinn aðrar tekjur eru ansi háar og undir lið 17 í skýringum eru 300 milljónir sem aðeins eru merktar aðrar tekjur þannig að ekki er hægt að átta sig á því hvað það er. Ef um er að ræða söluhagnað af lóðum eða einhverju slíku er rekstur bæjarins ekki eins góður og hann lítur út fyrir að vera.
Sigurður Árnason, 22.5.2008 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.