Þriðjudagur, 8. júlí 2008
Stjörnuspáin mín í dag
Stjörnuspá
Naut: Aðrir hafa þrælað til að þú hafir það gott. Það er því auðveldara fyrir þig að launa greiðann og gera það sama fyrir komandi kynslóðir. (Tekið af www.mbl.is 8.7.2008)
Þessi stjörnuspá finnst mér vera ákaflega góð og passar ágætlega við sumt af því sem ég er að gera þessa dagana.
Ég er að vinna á dönsku öldrunarheimili og legg mig alla fram. Ég aðstoða íbúana við ýmislegt sem lýtur daglegu lífi þeirra en næstu 2 vikur snúast verkefni mín aðallega um þrif og matargerð .
Ég er að græða margt á þessu. Dönskukennslu á hverjum einasta degi bæði meðvitaða og ómeðvitaða hjá íbúum og samstarfsfólki, reynslu í því að kynnast eldra fólki sem er viskubrunnur og ég kynnist því hvernig er að vera útlendingur að vinna á erlendum vinnustað. Sú síðarnefnda reynsla er nokkuð sem ég tel vera mjög mikilvægt til þess að skilja betur erlent vinnuafl á Íslandi. Það er talsvert erfitt að læra á nýtt starf þegar maður hefur tungumálið aðeins að hluta til en engu að síður ákaflega mikilvægt þar sem ég er að vinna beint með fólki sem á rétt á því að ég skilji það og það skilji mig. Þess vegna legg ég mig alla fram og læri meira því ég verð að nota þekkinguna um leið sem er ekki það sama og sitja í fyrirlestri þar sem maður getur "komist upp með það" að skilja ekki allt...
Það er líka nýr vinkill að prófa starf sem er ekki alveg í samræmi við menntun mína þar sem ég er ekki á heimavelli og er útlendingur. Ég reikna með að margir starfsmenn af erlendu bergi brotnu nái ekki að fara að vinna við sitt fag strax heima vegna tungumálaörðugleika.
En stjörnuspáin snerist sem sagt um það að launa fyrri kynslóðum það sem þær hafa lagt á sig til að byggja upp það sem við höfum í dag og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég tel hvert smáatriði skipta máli í þessum efnum. Ég legg mig alla fram við að skúra þannig að fólkið sem ég er að vinna fyrir hafi hreint og fínt í kringum sig, ég vanda mig við að útbúa fallegan mat því staðreyndin er sú að daglegt líf á öldrunarheimili snýst eins og klukka í kringum matmálstíma og ég legg mig fram um að brosa, spjalla og gefa af mér til þeirra sem hafa lagt svo mikið á sig og eiga ekkert nema það besta skilið á ævikvöldinu sínu. Þannig er hægt að hafa áhrif á líf annars fólks, með því að leggja sig örlítið meira fram en þörf er á. Því miður er það þannig að þar sem þessi störf eru oft illa borguð og vanmetin þá skil ég alveg að fólk sem starfar í þessu til framtíðar verði þreytt og geri aðeins það sem það þarf nauðsynlega að gera. En þannig verður þjónustan ekki í takt við það sem þessi kynslóð á skilið. Það sama á við um börnin okkar en það er efni í annan pistil.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.