Laugardagur, 11. október 2008
Gott verkfæri fyrir fiskiþjóð!
Mig langar að minna fólk á mjög gott verkfæri til þess að nota á næstu misserum. Ég var nú sjálf minnt á þetta af fyrri samstarfskonu á Facebook síðunni minni.
Verkfærið heitir "Lífsspeki fisksins" og er frábært til þess að nota á erfiðum tímum og alltaf í lífinu.
Lífsspeki fisksins er mjög einföld og engin ný sannindi en er í mjög þægilegum búningi til þess að muna eftir grundvallargildum í daglegu lífi. Spekin er nefnd eftir fisknum þar sem hún á upptök sín í fiskbúð í Seattle í Bandaríkjunum þar sem fisksalar ákváðu að finna sér leið til þess að létta sér störfin þar sem maður þarf að mæta eldsnemma og er í slori allan daginn! Lífsspekin á nú vel við okkur fiskþjóðina Íslendinga.
- Að velja sér viðhorf
Maður á alltaf val á hverjum degi og við hvern atburð að velja sér jákvætt eða neikvætt viðhorf. Valið er alltaf þitt. "Við ráðum um hvað við hugsum". Við getum mætt í vinnuna með horn á höfðinu og hvesst okkur við alla eða við getum mætt í vinnuna og séð það jákvæða í fari hvers og eins og björtu hliðarnar á hverju verkefni og ný tækifæri.
- Að vera til staðar
Við þurfum að vera til staðar fyrir hvert annað til þess að veita ráð og dáð. Hlúa að hverju öðru.
- Að leika sér
Við megum aldrei gleyma því að leika okkur í dagsins önn. Maður verður aldrei of gamall til þess að leika sér í lífinu. Sumir segja að maður verði gamall af því að maður hætti að leika sér í stað þess að segja að maður hætti að leika sér af því að maður verði gamall. Núna þurfum við líka að muna sérstaklega að leika okkur með börnunum okkar og gefa þeim góðan tíma.
- Að gera öðrum daginn eftirminnilegan
Við getum alltaf gert öðrum daginn eftirminnilegan á svo ótal vegu. Dagurinn í dag og þetta andartak er það sem við eigum öruggt. Um annað vitum við ekki. Maður getur gert öðrum daginn eftirminnilegan til dæmis með því að vera búin/nn að kveikja á kertum þegar hinir fjölskyldumeðlimirnir koma heim, eða vinnufélagar mæta í vinnuna, maður getur sent falleg skilaboð og sagt fólki hversu mikið manni þyki vænt um það, maður getur skilið eftir fallegan miða eða laumað í vasann, maður getur hrósað og sagt eitthvað fallegt, maður getur bryddað upp á einhverju nýju að gera t.d. að fara út og horfa á fallegt sólarlag (það eru svo ótal hlutir í lífinu sem eru svo dýrmætir en kosta ekki krónu eða evru...). Hvernig getur þú háttað málum þannig að þínir nánustu muni sérstaklega eftir þessum degi eða þessu andartaki á jákvæðan hátt? Hugmyndirnar eru endalausar og hver og einn á um hlaðborð að velja í þeim efnum.
Í mínu gamla starfi hjá SSR (Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Reykjavík) þar notuðum við þetta með alveg hreint frábærum árangri (og þetta er auðvitað enn notað þar). Þetta er alveg ótrúlegt verkfæri til þess að gera erfiða daga auðveldari og fá nýja sýn á lífið. Þeir sem nýttu þetta mest tóku þetta upp sem ákveðna lífsspeki hvort sem það var í einkalífi eða starfi .
Meira um lífsspeki fisksins hér:
http://www.vtlausn.is/kennslup/Fiskur/fishlifsspeki.htm
Mæli með þessari bók!
Við þurfum að sýna hvert öðru nærgætni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:32 | Facebook
Athugasemdir
Fín speki, við getum nefnilega ráðið því sem við hugsum. Við erum það sem við hugsum og það sem við beinum huganum að verður okkar veröld.
Magnús Sigurðsson, 11.10.2008 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.