Farðu vel með þig

Þegar ég velti vöngum yfir því hvað ég ætti að skrifa um í þessum pistli þá langaði mig að skrifa um eitthvað allt annað en KREPPUNA. Ég veit ekki hversu oft á dag þetta orð tengist hugsunum mínum en það er óhugnanlega oft. Ég er komin með leið á því að hugsa um þessa kreppu. En ég á sennilega engra kosta völ. Kreppa er raunveruleiki okkar í dag. En hvað þýðir þetta orð? Þegar orðið er „gúglað" koma fram 199.000 vefsíður. Á vefsíðu Wikipedia er skilgreining á hugtakinu:

Kreppa er hugtak sem haft er um verulega örðugleika í efnahagsmálum, með atvinnuleysi og sölutregðu fyrirtækja. Aðaleinkenni kreppu er ógurlegt verðfall á gjaldmiðlum, fjöldauppsagnir og greiðsluerfiðleikar fyrirtækja og almennings (tekið af http://is.wikipedia.org/wiki/Kreppa).

Þar höfum við það. Þetta er heldur betur kunnuglegt. Þýðing kreppu er samt afstæð bæði í hinni stóru makro mynd samfélagsins sem og í mikro mynd hverrar manneskju. Það sem þykir vera kreppa á Íslandi gæti til dæmis verið fjarlægasti draumur einhvers sem býr við miklu verri kjör en við getum nokkru sinni ímyndað okkur. Þannig er nú heimurinn ólíkur og gæðum misskipt. Á meðan við námsmenn erlendis grínumst með það að þurfa að leggja okkur Converse strigaskóinn til munns með smá salti þá er fólk sem mun aldrei eiga skó (hvað þá dýra skó eins og Converse) og býr raunverulega við það að eiga ekkert að borða. Kreppa fyrir Íslending þýðir frekar það að ferðum á veitingastaði fækkar og maturinn verður einfaldari. Það mætti segja að við þurfum að borða brauð í staðinn fyrir kökur eða að við förum að baka brauðin okkar í stað þess að kaupa þau í bakaríinu. Það er nú sennilega kreppan hjá flestum. Fyrir okkur þýðir kreppa ekki það að við eigum ekkert að borða, höfum engan aðgang að hreinu vatni, eigum ekki kost á því að mennta okkur, búum við stríðsógn eða erum á flótta frá heimaslóðum okkar jafnvel búin að missa sjónar á mörgum ættingjum og vinum án þess að vita afdrif þeirra. Svona mætti skilgreina krísuástand hjá annarri þjóð. Ekki hjá okkur. Þrátt fyrir það að vera svo heppin að upplifa ekki verstu gerð kreppu eða krísu sem hægt er að hugsa sér þá er engu að síður um krísu að ræða. Ástand og snögga breytingu til hins verra sem hefur djúpstæð áhrif á allt samfélagið og meðlimi þess. Því þarf að huga sérstaklega vel að heilsu landsmanna um þessar mundir. Ekki síst andlegu hlið hennar.

Oft segir maður við fólk þegar maður kveður það: „farðu vel með þig". Þessi setning hefur sjaldan átt eins vel við og núna. Núna þarf fólk virkilega að hugsa um það að fara vel með sig og sína. Ég minni fólk á frábært starf sem unnið hefur verið á síðustu árum í hinum ýmsu geðræktarverkefnum. Það er mikilvægt að tileinka sér þær góðu lífsreglur í leik og starfi. Slíkt er alltaf nauðsyn en ekki síst nú. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að ef fólk hefur líffræðilega eða erfðafræðilega þætti sem auka líkur á því að fá geðröskun eins og kvíða eða þunglyndi þá aukast þær líkur við mikla streitu eða áföll. Að leita flótta í áfengi eða aðra vímugjafa gerir vont verra. Það er því ástæða til að vera vel á verði og stunda markvisst fyrirbyggjandi hegðun til þess að draga úr líkum á að geðröskun eða geðsjúkdómur nái að þróast. Það er tvennt sem ég mæli með. Geðorðunum tíu og geðræktarkassanum. Geðorðin tíu þekkja eflaust flestir landsmenn en þau eru eins og biblían það er hægt að lesa þau aftur og aftur og aftur og alltaf fá eitthvað nýtt út úr þeim. Þau fjalla um heilbrigða skynsemi sem við vitum öll en þurfum að láta minna okkur á í dagsins önn.

Hér koma Geðorðin tíu:

•1.    Hugsaðu jákvætt, það er léttara

•2.    Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

•3.    Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

•4.   Lærðu af mistökum þínum

•5.    Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

•6.   Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

•7.   Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

•8.    Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

•9.    Finndu og ræktaðu hæfileika þína

•10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Hitt sem ég vil minnast á í þessum pistli er geðræktarkassinn. Það getur hver sem er búið sér til geðræktarkassa því hugsunin er að finna sér einhvern fallegan kassa eða föndra sér slíkan og setja í hann hluti sem vekja upp jákvæðar tilfinningar og góðar minningar. Sjá meira á http://www.lydheilsustod.is/ og http://www.landlaeknir.is/ . Sjálf á ég stóran silfurlitaðan plastkassa sem er stútfullur af góðum minningum frá atburðum úr mínu lífi. Hann er eitt það dýrmætasta sem ég á. Það er líka mjög gott að hlusta á góða tónlist eða horfa á gamanmynd til þess að hafa áhrif á lundina og líka til þess að gleyma sér um stund.

Samvera fólks er eitt það dýrmætasta og mikilvægasta til þess að varðveita andlega heilsu okkar. Bæði samvera fjölskyldu og samvera með vinum og ættingjum.

Hollt matarræði og hreyfing eru einnig þættir sem hafa gríðarleg áhrif á heilsu okkar bæði andlega og líkamlega. Ég veit ekki með ykkur en ég finn það í hverri frumu þegar ég hreyfi mig og borða hollan mat hversu mikil áhrif það hefur á líðan mína og orku og þessir þættir verða seint ofmetnir enda ganga þeir eins og rauður þráður í gegnum öll fræði heimsins um andlega og líkamlega heilsu.

En síðast en ekki síst þá erum það við sjálf sem einstaklingar og flókinn hugi okkar sem erum aðalatriðið. Maður þarf að geta átt góða stund með sjálfum sér. Að geta farið í göngutúr, alsæll með sinn eigin félagsskap. Maður þarf að skoða sjálfan sig vel að innan sem utan, elska sjálfan sig nákvæmlega eins og maður er og vera sinn dyggasti stuðningsmaður. Við fáum aldrei nýjan líkama eða nýjan huga en við getum unnið alla ævi að því að fara vel með og betrumbæta hvoru tveggja. Hvert og eitt berum við ábyrgð á okkur sjálfum, hamingju okkar og lífi. Þú ert það dýrmætasta sem þú átt og það dýrmætasta sem þú munt eiga fyrir utan það að eignast kannski afleggjara af sjálfum þér í börnunum þínum.

Að lokum segi ég því, farðu vel með þig kæri lesandi.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is í dag).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Vá þetta var góður pistill og svei mér þá ef hún Amma þín (Steinka frænka ömmusystir mín) hefur ekki verið eitthvers staðar á bak við. Sendi mína bestu kveðjur. 

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 5.11.2008 kl. 00:14

2 Smámynd: Berta María Hreinsdóttir

Mikið er þetta vel orðað hjá þér Kidda mín.....það eru svo margir sem búa við alvöru "kreppu" og myndu telja okkar "kreppu" algjöran lúxus. Hef einmitt hugsað mikið um nákvæmlega þetta og þakkað þá fyrir hvað við höfum það í raun rosalega gott. Hreint vatn, matur, þak yfir höfuðið, friður, fjölskylda og vinir.....er hægt að biðja um meira?

Sjáumst vonandi fljótlega og takk fyrir frábæran mat og félagsskap um síðustu helgi** 

Knús frá Horsens** 

Berta María Hreinsdóttir, 5.11.2008 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband