Mundir þú eftir að anda í dag?

Átti yndislegan dag í dag. Rölti í gegnum háskólagarðinn, settist á bekk og fylgdist með öndunum kvaka og fylgdist með laufunum falla hvert af öðru á ennþá grænt grasið. Þvílík friðsæld og ró.

Naut þess að anda að mér fersku Árósar haustloftinu inn og út og alveg djúpt niður í maga nokkrum sinnum. Það er ákaflega hollt og hressandi að anda djúpt að sér fersku lofti.

Breytti út af vananum og las á furðulega bókasafninu í dag, þessu sem oft er kallað "den store gule taarn" eða "stóri guli turninn". Á leið minni út sá ég fyrir tilviljun rekka með dagblöðum. Mér til ómældrar ánægju sá ég eitt afar kunnuglegt í hillunni. Á því stóð Morgunblaðið. Ég var ekki lengi að hugsa mig um og þreif bæði tvö og settist við djúpan lestur. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en í sumar þegar ég var að koma úr vikufríi án dagblaða og horfði örvæntingarfull á flugfreyjurnar útdeila blöðunum hversu mikill fréttafíkill ég er í raun orðin. Þetta er víst einn af fylgikvillum þeirrar ánægju að hafa bullandi áhuga á pólitík. Ég naut þess vel að svala fíkninni í dag á svona óvæntan hátt en það er allt annað að lesa af blaði en tölvuskjá finnst mér. Allt önnur tilfinning.

Það rann hins vegar um sama leyti upp fyrir mér að það er erfitt að vera fjarri þegar slíkt dynur yfir þjóðina. Að upplifa þetta svona í dag gerði mér grein fyrir því að þrátt fyrir að fylgjast náið með öllu og finna fyrir hrikalegu gengi og fleiri afleiðingum þá er ég ekki í hringiðunni af þessu núna. En ólíkt þeim sem hugleiða að fara af landinu þá ætla ég að koma til landsins. Svona er ég nú oft öfugsnúin miðað við marga aðra.

Þessi frétt er sérstök. Það er dapurt að verða þess var að fólk skuli virkilega finna hjá sér þörf til þess að hlæja að grafalvarlegu ástandi okkar. Ástæðan hlýtur að vera að fólk gerir sér enga grein fyrir alvarleika vandans og úrræðaleysinu sem ríkir. Þetta er því miður enginn brandari. Það vildum við öll og þá myndum við hlæja saman dátt. Svo gott er það ekki því miður. Ég hef aðeins fundið fyrir svona húmor eins og einn kennari sem kallaði mig og skólafélaga minn "the evil Icelanders..." og rakti það að hann hefði tapað heilmiklum fjármunum útaf Íslendingum eins og við bærum ábyrgð á því. Danir hafa reyndar mjög mikinn húmor og ekki ber að taka þá of alvarlega.

Ég fékk hins vegar merkilegt augnatillit frá manni sem sá mig skila þessum tveimur Morgunblöðum í dag í rekkann. Ekki illt en svona sambland af forvitni og vorkunnartilliti. En ég brosti bara til hans. Hvað annað er hægt?

Ég hvet fólk til þess að breyta út af vananum. Farðu aðra leið, lestu á nýjum stað, sestu á fallegan stað og horfðu á fegurð dagsins og fegurð augnabliksins. Röltu um og hugleiddu og hreinsaðu þannig huga þinn. Síðast en ekki síst. Dragðu andann DJÚPT nokkrum sinnum á dag. Finndu súrefnið streyma alveg niður í maga. Það skiptir ákaflega miklu máli bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu. Brostu framan í vegfarandann. Það þurfa allir á því að halda þessa dagana að fá óvænt bros að gjöf. Síkt færðu oftast launað tilbaka. Það er greinilega mikil reiði í samfélaginu á Íslandi. Hún er fyllilega skiljanleg. Hins vegar er ágætt að muna það að reiði kemur manni ekki mjög langt. Hún kemur yfirleitt verst niður á manni sjálfum. Það er hins vegar nauðsynlegt að leyfa henni sem tilfinningu að flæða út en einbeita sér svo að jákvæðari hliðum í stað þess að festast þar. Þó að það sé klisja þá er samt sem áður mikilvægt að standa saman og styðja hvert annað á erfiðum tímum og horfa á allt það jákvæða sem er að finna allt í kring. Heimurinn hefur ekki breyst þó erfiðir tímar séu hjá okkur. Lífið heldur áfram sinn vanagang og það er ætíð okkar val hvaða viðhorf við tökum með okkur fram úr rúminu á morgnana og með hvaða gleri við sjáum tilveru hvers dags.

Við erum lítil þjóð en við erum ákaflega merkileg þjóð. Við höfum afrekað margt sem miklu stærri þjóðir hafa ekki afrekað og við höfum lifað af ótrúlega tíma langt út í hafi. Við höfum elju, dugnað og kjark og munum komast í gegnum erfiða tíma núna eins og oft áður. Við munum standa uppi sterkari og þá getum við hlegið dátt og glaðst að afrekum okkar á ný.

Rakst á nokkuð góða tilvitnun úr Gestaþætti Hávamála: "Auður er ótryggasti vinurinn sem þú getur eignast".


mbl.is Hlegið að óhamingju Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir með Sillu, góð færsla hjá þér Kidda

Þú verður frábær sálfræðingur, ekki spurning!

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 20:46

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Takk fyrir fínan pistil!   Kveðja frá Stokkhólmi, Baldur

Baldur Gautur Baldursson, 14.11.2008 kl. 06:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband