Næsta stopp... framtíðin?

Það er gríðarlega mikið umrót í öllum heiminum um þessar mundir. Má þar nefna meðal annars nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Barack Obama er lifandi táknmynd mikilla og vonandi jákvæðra breytinga. Stefna hans byggir að mínu mati á samvinnuhugsjóninni, mannréttindum og virðingu fyrir jörðinni. Ég vona að hann standi undir væntingum mínum. Ég heillaðist af honum í Berlín í sumar og trúi á hann og því að við getum breytt heiminum. „Yes we can" (Já við getum)!

Á Íslandi hefur atburðarrásinni undið þannig fram að plægja þarf fyrir mun dýpri breytingum en nokkurn gat órað fyrir. Það gerðu sér fáir grein fyrir því hversu sýktur jarðvegurinn var orðinn hér á landi. Allir voru sáttir á meðan uppskeran var ríkuleg en segja má að þessi uppskera hafi verið álíka og plöntur ræktaðar á sterum. Núna er jarðvegurinn ónýtur og uppskeran brostin. Því þarf að plægja og skipta um jarðveg. Það þarf að sá framtíðinni. Stóra spurningin er bara, hvernig framtíð?

Til þess að vel takist til þarf að vanda til verka í alla staði. Mín tilfinning af því að fylgjast með fjölmiðlum er sú að of mikið sé leitað töfralausnar sem bjargar málunum hratt. Bundnar eru vonir við að þjóðin geti bara nánast í heilu lagi stokkið á einhvern vagn á fleygiferð inn í framtíðina án þess að þurfa að hugsa sig mikið um og velta því fyrir sér hvert ferðinni sé heitið. Ég tel ekki heillavænlegt að hraða sér um of. Stórar og afdrifaríkar ákvarðanir þarf að byggja á mjög vel ígrunduðu máli og í fullu samráði við alla aðila sem eru að fullu upplýstir. Til þess að sem best takist til þarf einnig að rannsaka gaumgæfilega af óháðum aðilum hvað fór úrskeiðis til þess að við lærum af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Eins og Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi (áður gæslusystir) á Kópavogshæli sagði eitt sinn á fyrirlestri fyrir starfsfólkið mitt á sambýlinu: „Við lærum af fortíðinni, lifum í nútíðinni og horfum til framtíðar". Þetta átti við um þjónustu við fatlað fólk. Hið nákvæmlega sama á við um efnahagslífið og stjórnkerfið á Íslandi. Við skulum læra af mistökum fortíðarinnar, lifa daginn í dag en hafa hugmynd um hvert og hvernig við ætlum að vera í framtíðinni.

Stjórnvöld á Íslandi þurfa að átta sig á því að öll þjóðin vaknaði á meðan ríkisstjórnin rumskaði af værum þyrnirósarsvefni. Lýðræði fékk nýja merkingu hjá þjóðinni sem stóð upp og sagði hingað og ekki lengra! Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á stjórnkerfinu og skipulagi þjóðfélagsins. Þegar kerfið bíður skipbrot þá bera þeir ábyrgð. Ef þeir taka ekki ábyrgð á mistökum sínum virkar lýðræðið ekki sem skyldi. Þegar upp er staðið á þjóðin alltaf lokasvarið. Framundan eru því stór og mikil verkefni sem við þurfum að ráðast í sem þjóð. Verkefni um að kortleggja framtíðina eins og mögulegt er og vega og meta kosti og galla ólíkra leiða inn í framtíðina. Stjórnmálanna og kjörinna fulltrúa bíður það verkefni að finna sína leið að markmiðinu og vera í takt við þjóð sína í því verki.

Höfundur er nemi og í varastjórn SUF.

(pistill birtur í dag á www.suf.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Skyndilausnir eru ekki það sem leysir vandann í raun. Fresta honum bara. En þetta er íslenska leiðin .. rétt eins og öll nýbreytni þarf að ganga í tískubylgjum. Einu sinni fiskeldi, einu sinni loðdýrarækt, nýverið álbræðsla .. ég veit ekki hvað gerist með álið, ég vona það besta, en loðdýraræktin er að hverfa.

Það þarf að hugsa til framtíðar. Vona að við í Framsókn fáum nýja forystu sem gerir það. Sú forysta þarf líka að einkennast af heiðarleik, hæfileikum til að vera mannasættar og fylkja liði að baki sér, og geta talað þannig að aðrir skilji af hverju á að styðja hana og flokkinn.

Einar Sigurbergur Arason, 18.11.2008 kl. 23:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband