Jafnara samfélag, stuðningur við þá sem helst þurfa þess

Mig langar nú að byrja á því að benda þeim blaðamanni sem skrifaði þessa grein að hann er ekki alveg í takt við nútímann með því að nota hugtakið "fatlaðir" því eins og kemur fram réttilega á öðrum stað í greininni þá skiptir máli að fjallað sé um fólk með skerðingar fyrst og fremst sem fólk og er þá heppilegra að nota hugtökin fatlað fólk eða fólk með fötlun. Þetta undirstrikar þá hugsun að fólk sem skilgreint er sem fatlað sé fyrst og fremst fólk og manneskjur eins og hver annar og fötlunin sé ekki eitthvað persónueinkenni heldur aðstæður eins og til dæmis er fötlun að hluta til amk. sköpuð af umhverfi sem er ekki sniðið að öllum þegnum samfélagsins. Blindur maður er til dæmis ekki fatlaður þegar hann talar í síma.

Ég hef heyrt það skýrt og greinilega í gegnum tíðina að fólk sem hefur skerðingar og er þess vegna skilgreint fatlað vill fyrst og fremst vera fólk eins og hver annar og því leiðist óskaplega að vera skilgreint eftir fötluninni. Það er mikil ábyrgð að vera blaðamaður því þeir taka þátt í því að móta samtímamenninguna sem speglar og endurskapar oft röng viðhorf til dæmis um fatlað fólk sem byrði á samfélaginu eða einsleitan hóp fólks. Það mætti gagnrýna þessi skrif mín og segja að hér væri einmitt verið að sýna fram á röng viðhorf með því að fjallað sé um fatlað fólk á annan hátt því oft er jú talað um hóp fólks í einu orði eins og samkynhneigðir, bankamenn, framsóknarmenn... Það eru margar hliðar á þessu máli en aðalatriðið er að muna ætíð að öll erum við manneskjur fyrst og fremst og það er það sem sameinar okkur. Að vera endalaust að setja einhverja merkimiða á fólk getur verið óþarfi.

Við uppbyggingu þá sem nú þarf að fara í gang og verður næstu ár þarf að gæta vel að því að styðja best við bakið á þeim verst settu en alls ekki öfugt eins og tilhneiging hefur verið til. Það er því miður oft strengt á sultarólinni þar sem ekki er neitt spik upp á að hlaupa heldur nánast beinagrind. Það er nú staðreynd að undanfarin ár hefur sú arfavitlausa frjálshyggjustefna sem nú hefur blessunarlega strandað valdið því að hæst hafa skattarnir hækkað á þá lægst launuðu og þeir hafa lækkað á þá hæst launuðu. Hyggjuvitið segir mér að nú verði breyting þar á þar sem allsherjar stefnubreyting mun verða á þjóðinni allri. Þetta ætti að vera alveg öfugt og hærra frítekjumark er mjög heppilegt þar sem það nær best til þess hóps sem helst þarf á þessu að halda. Einnig ætti fólk sem er með tekjur frá Tryggingastofnun sem ættu að vera í samræmi við meðallaun að greiða í lífeyrissjóð eins og aðrir launþegar. Það er ekki spennandi fyrir fólk að engin breyting verði á högum þess sem er með örorku við 67 ára aldurinn heldur haldi hlutirnir áfram í sama gamla horfinu...

Það þarf að styðja sérstaklega við bakið á þeim sem verst hafa það því þeir hafa líka minnst upp á að hlaupa til þess að bregðast við óvæntum áföllum. Þannig getur kreppa á Íslandi þýtt fyrir eina fjölskyldu að hætta verður við að gefa öllum fjölskyldumeðlimum Range Rover jeppa í jólagjöf en hjá annarri getur hún þýtt að jólamaturinn og jólagjafir sé sótt til hjálparstofnana. Það er hins vegar ekkert nýmæli. Fyrir hver einustu jól hefur fólk staðið í biðröðum eftir slíku og fátækt er ekki ný af nálinni á Íslandi. Núna mun hins vegar sá hópur stækka.

Ég legg til að þeir útrásarvíkingar, banka- og peningamenn sem bera ábyrgð á því hvert við erum komin bæti ráð sitt til þjóðarinnar með því að í fyrsta lagi flytja allar eignir og tekjur sínar hingað til lands (upp í skuldir) og skrá allt samviskusamlega til skatts og í öðru lagi dragi úr eigin bruðli og láti góða summu rakna til þeirra stofnana sem sjá um aðstoð fyrir fátæka Íslendinga. Sjálfir ættu þeir kannski að taka þátt í úthlutun þá myndu þeir sjá raunveruleikann svart á hvítu. Og fyrst ég er byrjuð þá ætla ég að bæta Davíð og ríkisstjórninni á listann. Það eiga ekki allir einbýlishúsin sín skuldlaus á Íslandi eins og Geir H. Haarde hæstvirtur forsætisráðherra. Ætli jólasveinninn myndi uppfylla þessa ósk mína um að þessi hópur fólks taki þátt í jólaúthlutun og leggi helst til eitthvað af sínum eigin auðæfum? Hvar er Hrói höttur þegar maður þarf á honum að halda?

Þetta eru undarlegir tímar. Sjálf er ég námsmaður erlendis og óttast mikið það hvernig næstu mánuðir verða sér í lagi þegar krónan fer á flot. Nógu erfitt hefur ástandið samt verið. Það er bæði slæmt að þurfa að koma heim fyrr án lokins náms og hinn kosturinn að vera og þurfa að greiða hverja danska krónu margfalt að námi loknu verður líka ansi þungur baggi inn í framtíðina fyrir ungt fólk sem á eftir að taka á sig aðrar þungar byrðar.

Eftir því sem ég fylgist betur með Seðlabankastjóra og ríkisstjórn Íslands því minna botna ég í þessu fólki og því minna verða þau trúverðug í mínum augum. Ég hefði aldrei trúað því að stjórnvöld gætu orðið svo ófagleg eins og staðan er núna og svona langt úr takti við þann hóp sem þau starfa í umboði fyrir. Þau tala bara í hringi eins og hæstvirtur dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason gerði í viðtali sínu við Sölva Tryggvason í kvöld þar sem hann sagði í annarri setningunni að hann gæti ekki rætt málin vegna bankaleyndar en í hinni að hann væri auðvitað ekki bundinn af þessari bankaleynd! Það er nokkuð ljóst að það mun ýmislegt undarlegt koma úr pokahorni þessarar ríkisstjórnar ef öll kurl komast nokkurn tíma til grafar.


mbl.is Fatlaðir gjaldi ekki fyrir kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dóra

Mikið er ég sammála þér Kristbjörg.

Tímar okkar í Danmörku eru rosalegir núna og ekki á það eftir að batna þegar krónan fer á flot..

Við verðum að biða Guð, um að hjálpa okkur því viða er ástandið því miður mjög slæmt og það eru að koma jól.. En eina sem við eigum kannski eftir er lítil von

Ekki trúi ég einu orði á ráðamenn á litla Íslandi.

Gangi þér vel kveðja frá öryrkja í Esbjerg Dóra

Dóra, 19.11.2008 kl. 23:28

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég vinn á sjúkrahúsi og mér skilst að það sé krafa fjármálaráðuneytisins í dag að allar ríkisstofnanir skeri niður um 10%. Ég held að allir skilji þörfina fyrir að herða ólina í ríkisbúskapnum, en hitt skilja ekki allir að svona flatur niðurskurður sé sanngjarn. Hefur heilbrigðisgeirinn sama svigrúm til niðurskurðar og t.d. einhver nefnd sem fer reglulega í dýrar utanlandsferðir? Þarf ekki að horfa eitthvað á þarfir, hvaða þarfir eru brýnni og hverjar mega mæta afgangi í bili? - Vonandi er óþarfi að taka fram að þegar ég tala um utanlandsferðir þá er ég ekki að jafna nefndarstörfum saman við námsmenn. Menntun er eitt það mikilvægasta sem við búum við.

Ég er líka sammála því að ríkisstjórnina skortir trúverðugleika. Hún svaf á verðinum. Ég skil að það sé ekki alltaf verið að kaupa svartsýnustu raddir fræðimanna í blindni, ég þekki það úr akademísku námi að meðal fræðimanna í sama fagi geta verið mjög skiptar skoðanir. En á mig sem þekki hlutina bara úr fréttum þá hef ég aldrei séð önnur tilsvör hjá stjórninni en að það sé bara allt í besta lagi, ég meina fyrir hrunið, og þau gáfu aldrei trúverðug rök fyrir því. Og Seðlabankinn - ég er ekki að segja að við eigum að fara í persónu-hasar og allir að benda á Davíð, en vaxtastefna Seðlabankans lengi undanfarið hefur augljóslega verið arfavitlaus. Háir vextir urðu hvati fyrir bankamenn að fá lánað fé annars staðar á lægri vöxtum og endurlána svo á þessum hærri vöxtum til að græða. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði en föt Seðlabankans eru eins og nýju fötin keisarans.

Spurningin er hvað er hægt að fá í staðinn fyrir þessa jólasveina. Betri jólasveinar óskast, kærar þakkir! Sem eiga betri gjafir handa okkur Íslendingum.

Einar Sigurbergur Arason, 20.11.2008 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband