Kæri Davíð

Reykjavík, 20. nóvember 2008

 

Seðlabanki Íslands

b/t Davíð Oddsson

Kalkofnsvegi 1

101 Reykjavík

  

Kæri Davíð

 

Þú þekkir okkur sennilega ekki, en okkur finnst við sannarlega þekkja þig. Þú hefur verið fjölskylduvinur hjá okkur flestum síðan fyrir fermingu og við vöndumst því að hlusta á þig tala og hlæja og okkur finnst alltaf jafn heimilislegt þegar þú birtist heima hjá okkur. Um tíma óttuðumst við að það yrði minna um heimsóknir frá þér vegna þess að þú fékkst sjálfum þér nýja vinnu. En viti menn, þú varst samt alltaf til í að kíkja við hjá okkur með eitthvað nýtt og spennandi í pokahorninu, nýja stýrivexti, óreiðumenn eða annað skemmtilegt.

 

Okkur langar endilega til að bjóða þér í mat. Það kreppir nú að vísu að hjá okkur, en aldrei svo að við getum ekki boðið vinum okkar í mat og átt skemmtilegt spjall. Það er bara svo margt að skrafa.

 

Við heyrðum þig nefnilega segja svo merkilega hluti á þriðjudaginn. Þú sagðir okkur frá því hvernig þú hefðir nú séð þetta allt saman fyrir og reynt að vara alla við. Hvernig stendur á því að enginn hlustaði á þig? Eða, hvernig stendur þá á því að í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í maí, er ekki gerð grein fyrir þeirri stórhættu sem þú varst búinn að sjá. Hlustaði kannski enginn í Seðlabankanum á þig heldur? Við könnumst við þetta. Það er heldur ekkert oft hlustað á okkur Framsóknarmenn. En, hvað með vin þinn, Geir? Af hverju trúði hann þér ekki? Þú getur trúað okkur fyrir þessu, við skulum ekkert fara lengra með það. Við kjöftum ekki frá vinum okkar.

 

Annað sem við getum rætt er þetta með Bretana. Við urðum rosalega spennt þegar þú sagðist vita hvers vegna Bretarnir hefðu notað hryðjuverkalög á okkur Íslendinga. Urðum síðan pínu skúffuð þegar þú vildir ekki segja af hverju. Við þekkjum nefnilega fólk, nánar tiltekið 80.385 karla og konur, sem eru svo reið út af þessum prakkaraskap í Gordon Brown að þau skrifuðu sig á heimasíðu til að segja honum að við séum ekki hryðjuverkamenn. Þau langar örugglega öll að vita af hverju Gordon gerði þetta. Við vitum reyndar að svona merkilegir menn eins og þú vita fullt af hlutum sem venjulegt fólk má ekki vita. En þá var nú soldið ljótt af þér að segja okkur að þú vissir. Varstu kannski að monta þig?

 

Best fannst okkur samt að heyra að þú ætlar sko ekki að sitja sem bankastjóri ef í ljós kemur að þú hefur ekki staðið þig. Það er gott að vita að þú lætur þér ekki detta í hug að vera áfram bankastjóri ef sú staða kemur upp að enginn vill hafa þig. Það er karakter.

 

Það er svo margt, margt fleira sem þú sagðir í á þriðjudaginn sem okkur langar til að ræða við þig. Svo endilega láttu okkur vita hvenær þú getur kíkt við. Við verðum með opið hús fyrir þig og aðra áhugasama á Hverfisgötu 33 frá kl. 12 til 14 laugardaginn 22. nóvember nk. Fátt er betra en grjónagrautur og slátur í hádeginu.

 

 

Kær kveðja,

 

Ungir framsóknarmenn


mbl.is Mikil óvissa um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínt bréf frá þér, eins og talað beint úr mínum munni:

J.Þ.A (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 10:29

2 identicon

Heyr heyr heyr þetta eru glæsileg skrif hjá ykkur :)

Baráttukveðjur

Sólveig Fríða (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband