Til hamingju Íslendingar!

 

„Segðu mér eitt litla vinkona, getur verið að það sé rétt munað hjá mér að Ísland hafi einu sinni heyrt undir Danmörku"? Þessa spurningu fékk ég margsinnis í sumar frá einni gömlu konunni sem ég var að aðstoða í öldrunarþjónustunni hér í Árósum. Langtímaminnið var í góðu lagi hjá vinkonu minni þrátt fyrir að skammtímaminnið væri farið að gefa sig sem gerði það að verkum að þessi spurning kom upp í hvert sinn sem minnst var á það að ég væri Íslendingur og kæmi frá Íslandi. En þetta sýnir hversu ungt lýðveldið Ísland er því vinkona mín mundi mætavel þá tíma sem Ísland tilheyrði Danmörku fyrir röskum 64 árum síðan. Segja má í glettni að lýðveldið Ísland sé að komast á eftirlaun.

 

Ísland átti 90 ára fullveldisafmæli í gær. Þann 1. desember 1918 tóku Sambandslögin gildi og Ísland varð fullvalda ríki og sjálfstætt að mestu þó það væri enn undir danska kónginum sem sá um utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir hönd Íslands. Þessi dagur hefur jafnan verið talinn mikill hátíðisdagur enda markaði hann mikil tímamót fyrir þjóðina eftir langa baráttu fyrir fullveldi. Í daganna rás hefur gildi hans gleymst og ekki hefur sérstaklega verið lagt upp úr því að halda hann hátíðlegan. Flestir halda þó 17. júní hátíðlegan og fagna stofnun lýðveldisins Íslands þar sem smiðshöggið var rekið á sjálfstæðið og endanlegan skilnað við Dani.

 

Fyrir 90 árum síðan var fullveldinu fagnað í skugga mikilla erfiðleika. Frostaveturinn mikli 1917-1918 var erfiður og einnig áttu sér stað náttúruhamfarir og pestir með Kötlugosi og spönsku veikinni. Núna 90 árum síðar er fullveldinu fagnað enn á ný í skugga erfiðleika. Í þetta sinn eru það hamfarir í efnahagslífinu og einstaklings- og gróðapestin sem skyggja á gleðina. Þá horfðum við fram á skref til sjálfstæðis en nú er veruleg hætta á því að við séum að horfa fram á skref tilbaka með þungum skuldabyrðum og tilheyrandi missi á efnahagslegu sjálfstæði.

 

Verkefni okkar næstu ár er að finna leið til þess að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði okkar og styrkja lýðveldið Ísland. Það er tímabært að endurskoða stjórnarkerfið í heild sinni og það regluverk sem það starfar eftir. Sú styrka beinagrind sem halda á uppi lýðræðinu er farin að kalka og brotna og sýkingar í henni grassera. Tryggja þarf þrískiptingu ríkisvaldsins. Það þarf að rannsaka rækilega hvar regluverkið hefur brugðist og hvar menn hafa komist upp með glæpi gegn íslenskum almenningi. Bregðast þarf við slíku með viðeigandi refsingum. Einnig þarf að endurhanna það ónýta regluverk sem unnið var eftir og tryggja að leikurinn endurtaki sig ekki. Setja þarf skýrar reglur í stjórnsýslunni. Meðal annars eiga pólitískar stöðuveitingar ekki rétt á sér heldur á að skipa faglega í embættin að loknu gagnsæju ráðningarferli sem byggir á hæfismati eins og skipun í hvert annað starf. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar þurfa einnig að upplýsa um og opinbera efnahagsleg tengsl sín og maka sinna til að almenningur geti treyst því að ákvarðanir þeirra séu teknar af heilindum. Þingmenn Framsóknar hafa reyndar bent á þetta og óskað eftir að samdar verði slíkar reglur og hvatt stjórnmálamenn til að gefa slík tengsl upp. Útbúa þarf refsiramma við lög landsins. Það er til dæmis merkilegt að stjórnvöld sjálf hafa gert sig seka um það í áraraðir að fara ekki eftir eigin lögum um málefni fatlaðra. Það er ekki gott fordæmi og lög eiga að vera lög en ekki falleg orð á blaði þegar það hentar! Til dæmis mætti beita dagsektum á ríkið sem rynni í sjóð fyrir viðeigandi málaflokk.

 

Margir hafa talað fyrir því að eina lausn okkar í núverandi ástandi sé tafarlaus innganga í Evrópusambandið. Það vekur athygli mína að fyrir nokkrum mánuðum síðan virtust flestir samhljóma um það að ekki væri tímabært að fara inn í ESB á meðan efnahagur okkar væri í ójafnvægi og fyrst þyrfti að ná jafnvægi á honum áður en innganga væri raunhæfur möguleiki. Hafa menn gleymt þessu? Að stökkva inn í ESB og líta á það sem töfralausn er ekki heillavænlegt að mínu viti. Það er mögulegt að það sé hluti af lausn vandans að stefna að inngöngu í ESB en slíkt er ekki hægt að ákveða fyrr en þjóðin hefur verið spurð og kannað hvað sé á borði frekar en í orði í aðildarviðræðum. Það áfall sem við höfum orðið fyrir hlýtur að fresta upptöku annars gjaldmiðils frekar en hitt, eða hvað?

 

Á meðan þyrfti að einhenda sér í það að leita allra leiða til þess að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði okkar. Ein leið til að vinna að því markmiði gæti verið sú að hlúa sérstaklega að útflutnings- og samkeppnisgreinum okkar innanlands. Hlúa þarf að frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum. Íslenskt hugvit má gjarnan virkja í hverjum kjálka landsins. Það mætti einnig kanna hvort möguleiki sé á því að fullvinna afurðir í meira mæli á landinu og flytja vöruna svo fullunna út og selja í stað þess að flytja óunnið hráefni út t.d. í fisk- og áliðnaði. Við þurfum að skapa sem mest verðmæti á meðan innflutningur er sem minnstur vegna lágs gengis. Það þarf einnig að tryggja að erlent fjármagn sé ekki í landinu eins og verið hefur með tilheyrandi fölsku gengi og gervilífskjörum.

Með því að beina sjónum sérstaklega að atvinnumálum okkar og verðmætasköpun ætti að vera hægt að draga verulega úr atvinnuleysi sem leggur þungar byrðar á samfélagið allt og gæti eyðilagt innviði þess.

 

Stóra málið á fullveldisafmælinu okkar er því að finna þær leiðir sem færar eru til þess að vinna að uppbyggingu innan frá í stað þess að horfa einungis á utanaðkomandi lausn. Innganga í ESB er ekki tímabær að mínu mati því næg verkefni eru fyrirliggjandi við að koma efnahag landsins á réttan kjöl. Til lengri tíma litið gæti Evrópusamstarf verið til hins góða með tilliti til öryggismála og samstarfs. Ganga þarf hægt um gleðinnar dyr því ekki má slíkt kosta okkur þá sérstöðu og auðlindir sem við eigum og ættu að geta tryggt okkur framúrskarandi lífskjör í framtíðinni ef vel er staðið að verki.

 

Ég vona að ég muni ekki spyrja unga stúlku sem gömul kona hvort það sé rétt munað hjá mér að Ísland hafi einu sinni verið sjálfstætt og hvort það sé rétt munað að mér hafi fundist það vera besta land í heimi.

 

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is í dag).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég tek undir þín lokaorð heils hugar. (Þú fyrirgefur að ég las ekki alla greinina orði til orðs en mér sýndist hún samt góð.)

Einar Sigurbergur Arason, 2.12.2008 kl. 22:34

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Fín grein hjá þér Kidda nema þetta með ESB. Nú í dag eru auðlyndir okkar veðsettar nærri að fullu. Þannig skilst mér að Sjávarútvegurinn skuldi eitthvað um 900 milljarða. Og stór hluti af þvi er erlendis. Því tel ég að hræðsla við að við missum yfirráðin yfir auðlyndum ætti mun fremur við nú en ef við eigum möguleika á að komast inn í ESB. Tel einmitt að aðildarumsókn að ESB gæti orðið okkur tæki í þeirri viðleitni að endurreisa Ísland. Við þurfum m.a. að leysa til framtíðar vandamál með gjaldmiðilinn okkar. Krónan er jú skv. flestum sokkin varanlega og nær sér ekki á strik nema með ógurlegum kostnaði fyrir okkur. Við erum búin að semja við ESB um 21 af 35 megin atriðum samningana með EES og um 8 til 9 atriði í viðbót eru víst þegar komin í Íslensk lög eða er stefna okkar. Það eru því kannski 4 atriði sem verulega reynir á. Og þarf eru fremst Sjávarútvegur og landbúnaður. Við erum þegar með kerfi hér í fiskveiðum sem hefur valdið því að nokkrir menn urðu ríkir á því en flestir sem stunda útgerð eru skuldsettir upp fyrir haus. Það kom fram í Silfri Egils að nú eru menn að leigja kvóta á 250 kr/kg og fá um 200 fyrir veiddan fisk. Hér hafa útgerðamenn enga trú á Hafró og því skil ég ekki af hverju menn eru ósáttir við að erlendir sérfræðingar verði að samþykkja veiðitillögu okkar. Útlendingar eiga í raun allan fiskinn í gegnum skuldir útgerða í dag og gætu leyst til sín flestar útgerðirnar ef þeir vildu. Um landbúnað gildir að við mundum fá sérstaka styrki sbr. Svíþjóð sem gegnur út á að styrkja landbúnað á norðlægum stöðum. Þannig að það er óvíst að bændur hefðu það nokkuð verra en þeir hafa í dag.

Magnús Helgi Björgvinsson, 3.12.2008 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband