Þriðjudagur, 23. desember 2008
Hugleiðingar um samfylgd og samferðafólk
Þessa dagana brýst mikið um í kollinum á mér. Það er mikið um að vera á mörgum sviðum lífsins.
Ég velti fólki mikið fyrir mér. Fólkið í kringum mann hefur svo mikla merkingu. Það er svo merkilegt hvaða fólk maður hittir á vegferð sinni um lífið. Sumir eru svo einstakir að þeim verður ekki lýst með orðum einum saman. Sumir hafa svo mikið hlutverk í lífi manns að maður skilur varla hvernig maður hefði orðið ef maður hefði ekki kynnst því magnaða fólki sem maður hefur kynnst. Svo eru aðrir sem maður taldi að myndu gegna hlutverki í lífi manns en útkoman verður einhvern veginn allt önnur en sú sem maður hélt.
Öll eigum við okkar samferðatíma. Sumu fólki fylgir maður aðeins um skamma hríð. Aðrir verða ferðafélagar allt lífið í gegnum súrt og sætt. Sumir samferðamenn fylgja manni aðeins í tengslum við ákveðið verkefni eða ákveðið umhverfi eins og margir skólafélagar og vinnufélagar. Leiðir manns liggja svo á ólíklegustu vegu og stundum hittir maður einhvern sem maður þekkti áður er leiðir liggja saman á ný. Það er ekki óalgengt á jafn litlu landi og Íslandi. Ekki fær maður ráðið nema að hluta til hver fylgir manni. Sumt er hrein tilviljun, annað gæti maður séð sem örlög. Stundum liggja leiðirnar ekki saman á sama hátt og maður lagði upp með því lífið sjálft er svo merkilegt að það kemur manni á óvart á hverjum einasta degi. Stundum upplifir maður tóma gleði og stundum mikla sorg.
Þessa dagana er ég að horfast í augu við það að kveðja eina af mínum ástkærustu samferðakonum. Konu sem auðgaði líf mitt svo að ég verð aldrei söm. Yfir því er ég hrygg. Ég er ekki tilbúin að kveðja hana en hennar tími var ekki lengri en þetta. Ég hef upplifað það áður að þurfa að kveðja löngu áður en ég hefði kosið það.
Ég hugleiði því hversu miklu máli skiptir að gleyma því aldrei að lífið sjálft er ekki sjálfgefið og í amstri dagsins og hversdagsleika getur svo margt gleymst sem skiptir öllu máli á vegferðinni um lífið. Ég held að maður eigi að þakka á hverjum degi fyrir fólkið sem er manni samferða í gegnum lífið, fólkið sem auðgar líf manns svo mjög að það á hlut í manni. Því maður veit aldrei hvenær leiðir þurfa að skilja. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu er mjög auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir mestu máli því það er svo margt annað að hugsa um. Ég held að það sé gott að hugleiða öðru hvoru hvað maður myndi gera ef maður vissi að stutt væri eftir af vegferð manns sjálfs eða þeirra sem rölta um götu lífsins við hlið manns. Þá myndi maður meta hverja manneskju og hvert augnablik á nýjan hátt og maður myndi segja hlutina oftar sem maður getur ekki sagt þegar leiðir hafa skilið.
Á hverri mínútu og hverjum degi sköpum við okkar líf. Það gerir það enginn annar fyrir okkur. Stundum tökum við rangar ákvarðarnir og stundum réttar. Stundum er lífið dans á rósum en stundum er það þyrnum stráð. Stundum brosir maður allan hringinn en stundum grætur maður í hryggð sinni. Ég held að það sé gott að minna sig alltaf á grundvallaratriði lífsins og muna að njóta hverrar stundar eins og mögulegt er og njóta ferðarinnar. Einhvers staðar las ég að það væri ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf sem skipti mestu máli (It´s the journey not the destination). Það er nefnilega svo auðvelt að horfa á einhvern áfangastað í framtíðinni sem maður ætlar á og flýta sér svo mikið þangað að maður villist á leiðinni, kemst ekki á leiðarenda og nýtur ekki stundarinnar sem maður ferðast á.
Ég held það sé gott nú um hátíðina að hugsa um sjálfan sig, fjölskyldu sína, vini og alla aðra sem fylgja manni hér og nú. Þakka fyrir þá sem hafa fylgt manni áður og hlakka til samfylgdar við þá sem koma inn á leið manns í framtíðinni. Jólin snúast í mínum huga að miklu leyti um þetta þar sem ég legg ljós á leiði sumra sem ég sakna, sendi jólakveðjur og gef gjafir sem eru í mínum huga þakklætisvottur fyrir það að vera svo heppin að hafa kynnst mínu fólki og fyrir ómetanleg augnablik. Ég get aldrei gefið þá gjöf sem sýnir efnislega hversu mikið ég met mitt fólk, sú gjöf fer meira fram í faðmlagi og fallegum hugsunum til viðkomandi. Þar sem jólin eru svona tilfinningaríkur tími þá er líka ákaflega erfitt að kveðja fólk á þeim tíma en hins vegar er birta jólanna einmitt sá tími sem örlögin kalla suma sína allra bestu engla á ný í ljósið.
Farið vel með ykkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:17 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert algjör gullmoli elsku Kidda mín!
Þú auðgar líf allra sem eru svo heppnir af hafa þig í sínu lífi!
knús
Þín Linda
Linda (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 12:12
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst þér elsku Kidda mín.....þú ert yndisleg á allan hátt og gott að eiga þig sem vinkonu.
Hafðu það sem allra best yfir hátíðarnar og við hlökkum til að sjá þig á nýju ári:)
Berta María Hreinsdóttir, 23.12.2008 kl. 20:30
Samhryggist Kidda! Vegna þessarar samferðakonu þinnar. Og vona samt að þú eigir gleðileg og friðsæl Jól.
Magnús Helgi Björgvinsson, 24.12.2008 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.