Laugardagur, 10. janúar 2009
Gleðilegt Framsóknarár!
(pistill ritaður 5.1.2009 og birtur á www.suf.is)
Ég var að koma heim af vel sóttum og góðum fundi sem Framsóknarfélag Mosfellsbæjar stóð fyrir þar sem þremur frambjóðendum til formanns var boðið til þess að kynna sig og stefnumál sín. Tveir frambjóðendur mættu, þeir Höskuldur Þórhallsson og Páll Magnússon. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson boðaði forföll. Fundurinn var mjög góður, fræðandi og áhugaverðar umræður áttu sér stað.
Þessi fundur sýndi að það er mikið líf í flokknum okkar um þessar mundir, hávært ákall um breytingar og einnig samhljómur um mörg góð atriði. Ég er því bjartsýn á framtíðina og lít á Framsókn til framtíðar. Ég tel flokkinn standa öðrum flokkum framar um uppstokkun, rýni á eigin verk og svari við kalli almennings um breytingar. Ef okkur framsóknarfólki tekst að ná samstöðu á flokksþinginu og fylkja okkur að baki nýrri forystu um breytingar þá eru okkur allir vegir færir. Það er mikil eftirspurn eftir flokki eins og Framsókn sem vill láta samvinnuhugsjónina lýsa okkur leið framfara og vinna fyrir hinn almenna landsmann. Flokkur sem hafnar öfgum til hægri eða vinstri en vill það besta úr báðum áttum. Flokkur sem berst framar öllu um þá mikilvægu atvinnuuppbyggingu og stuðning við atvinnuvegina sem verður að eiga sér stað til þess að hægt sé að halda hjarta hagkerfisins gangandi. Atvinna er hverjum manni eitt það mikilvægasta sem hann á því í eðli okkar viljum við flest leggja okkar að mörkum til samfélagsins. Þjóðfélagið mætti gera betur í þeim efnum að sníða atvinnumöguleikana að þeim fjölbreytileika manna sem býr hér því öll eigum við sama rétt á að geta lagt okkar framlag til þrátt fyrir ólíka getu. Framsókn hefur alltaf verið flokkur atvinnuuppbyggingar og því er erindi okkar við þjóðina ákaflega brýnt á næstu árum. Við lofuðum tólf þúsund nýjum störfum og stóðum við það í síðasta alvarlega atvinnuleysi Íslendinga. Atvinna er undirstaða velferðar sem er eitt mikilvægasta málefni næstu ára. Til þess að koma okkar góðu verkum til skila þarf flokkurinn að vera við góða heilsu og það er stóra verkefni Framsóknar um þessar mundir að styrkja innviði sína og starfið allt.
Ég var ánægð að heyra það að almennt eru frambjóðendur samhljóma í því að auka beint lýðræði í flokknum og vinna að auknu vægi hins almenna flokksmanns. Til þess að vilja leggja alla þá sjálfboðavinnu af mörkum sem þarf í stjórnmálastarfi þá verður fólk að fá traust til baka og geta haft raunveruleg áhrif. Ýmsar leiðir má fara í þeim efnum eins og rætt hefur verið um eins og að opna flokksþing öllum flokksmönnum með ákveðnum skilyrðum (sem koma í veg fyrir skipulagða smölun). Einnig er mikilvægt að nýta sér alla þá tækni sem við búum yfir í okkar daglega starfi, samskiptum og stefnumótunarvinnu. Við erum flokkur alls landsins og þurfum að vinna þannig að ávallt sitji allir landshlutar við sama borð. Til þess er hægt að nýta sér gamla góða bréfpóstinn í kosningum og/eða nútíma tækni.
Það sem við núverandi (og verðandi framsóknarfólk :) ) megum aldrei gleyma er það að í okkur öllum slær sama græna Framsóknarhjartað. Það er miklu fleira sem sameinar okkur heldur en sundrar okkur. Við höfum sömu hugsjónirnar, sömu grunngildin og sömu markmið þó leiðirnar séu mismunandi. Við þurfum að vinna út frá því í stað þess að vinna út frá því sem aðgreinir okkur.
Ég fylgdi einni minni dýrmætustu samferðakonu til hinstu hvílu í dag. Í athöfninni sagði presturinn að öll værum við jöfn gagnvart Guði. Þessu skulum við aldrei gleyma. Við erum 99% lík og við erum flest að sækjast eftir því sama í lífinu; hamingju, öryggi og farsæld. Þegar á okkur verður kallað mun enginn gera greinarmun á því hvort við höfum verið með milljónir á dag eða launalaus alla ævi. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er hvort við höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar af heiðarleika og einlægni og hvort við höfum uppfyllt drauma okkar og öðlast hamingju. Það veit fimm ára barn að hamingjan verður ekki keypt með peningum. Hamingjan kemur innan frá og meðal annars með því að gefa af sér og vinna fyrir aðra. Slíkum grunnatriðum mega stjórnmálaöfl aldrei gleyma og eiga að vinna í samræmi við þau.
Ég á mér draum um Framsókn til framtíðar og vil að sú Framsókn verði betri en sú sem ég hef kynnst hingað til. Ég á mér draum um flokk sem gerir það að aðalmarkmiði sínu að vinna af heilindum og trausti hverju einasta landsbarni til heilla, óháð efnahag, búsetu, kyni, fötlun, stöðu eða öðru því öll erum við á sama báti og öll eigum við að vinna saman. Það eru ein stærstu mistökin sem gerð hafa verið á Íslandi undanfarin ár að með frjálshyggjunni og græðgisvæðingunni gleymdi fólk að standa saman um grunngildi samfélagsins og vinna saman sem hefur alltaf verið grundvallarforsenda þess að okkur gangi vel á okkar litla landi. Þau sjónarmið skulum við Framsóknarfólk kynna fyrir þjóðinni á ný!
Þegar ég skrifa næsta pistil verðum við búin að kjósa okkur nýja forystu og eigum að baki áhrifamikið flokksþing sem sker úr um framtíð okkar. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan og til þeirra horfi ég með bjartsýni og trú á flokkinn minn.
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Facebook
Athugasemdir
heyr heyr sammála síðasta ræðumanni
Arnar Hólm Ármannsson, 10.1.2009 kl. 21:12
Já góðan daginn. nýr framsóknarflokkur og endurbættur ?
Afhverju ekki að leggja þann gamla niður og stofna nýjann ?
Annað nafn, nýtt útlit, ný sóknarfæri ?
Ekki þar fyrir: gull verður ávallt gull, og bull ávallt bull....
hilmar jónsson, 10.1.2009 kl. 21:17
Góður pistill hjá þér Kristbjörg.
Einar Sigurbergur Arason, 11.1.2009 kl. 04:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.