Gamlir vinir heimsóttir

Ég fór í dag í langþráða heimsókn.

Þannig er mál með vexti að síðasta sumar starfaði ég á öldrunarheimili hér í Árósum. Þetta eru 3 gangar með 8 íbúðum á hverjum gangi. Hver íbúi hefur sem sagt litla íbúð sem er samsett af baðherbergi, svefnherbergi og stofu með litlu teeldhúsi. Allar hafa íbúðirnar litlar svalir. Á hverjum gangi er svo sameiginlegt eldhús þar sem þeir borða sem kaupa það en fáir sjá um slíkt sjálfir í sínum íbúðum. Núna eru hjón í einni íbúðinni. Þrátt fyrir ágætan aðbúnað er starfsmannahaldið allt of rýrt. Það er að segja allt of fáir á vakt og aðeins hægt að sinna grunnþörfum og mikill stofnanabragur á öllu skipulagi.

Mér finnst þetta vera ágæt fyrirmynd að mögulegri öldrunarstofnun (fyrir utan starfsmannahaldið) þar sem hver íbúi hefur sína eigin litla íbúð. Ég er reyndar hlynnt því að fólk fái þjónustu á sitt eigið heimili svo lengi sem mögulegt er án þess að þurfa að flytja búferlum.

Ég leiddi hugann að því þegar ég hjólaði heim hvernig hinar ýmsu stofnanir leika hlutverk í lífi okkar. Við fæðumst á stofnun og deyjum á stofnun.

Ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég gerði mér grein fyrir því að þriðjungur þeirra sem ég vann fyrir, kynntist og þótti ákaflega vænt um í sumar hafði kvatt þennan heim. Af hverju fór ég ekki fyrr í heimsókn hugsaði ég og sá fyrir mér andlit þeirra sem voru farnir og hugsaði um leiftrandi samræður sem við áttum þar sem ég skildi ekki allt sem þau sögðu og þau reyndu að skilja brosmilda en málhalta Íslendinginn...

Þetta leiddi hugann einnig að öðru. Aðbúnaður og þjónusta öll á að vera til fyrirmyndar á öldrunarstofnunum. Þarna eyðir fólk síðustu mánuðum sínum og það á að fá að gera það á sem bestan, þægilegastan máta og umfram allt með reisn. Þetta er allt fólk sem hefur lagt sitt til samfélagsins og samfélagið á að launa því framlagið ríkulega tilbaka. Er það til of mikils mælst?

Mig langar einnig að hvetja alla þá sem áhuga hafa á að starfa með öldruðu fólki að drífa sig í slíkt. Ég hef sjaldan lært eins mikið á ævinni og af þessum vikum sem ég starfaði þarna. Þvílíkir viskubrunnar og dýrlingar sem þarna var að finna. Það var yndislegt að sjá hvernig fólk passaði upp á hvert annað og hvernig fólk tókst á við raunir þess að eldast og missa færni af beittum húmor og jákvæðni. Þarna eignaðist ég vini sem munu fylgja mér í huganum um ókomna tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband