Gamaldags bloggarar sem elska að hata Framsókn ;)

Það er alveg merkilegt að fylgjast með umræðum þeim sem oft skapast í bloggheimum. Þetta eru ansi sérstakir heimar því sumir þykjast geta sagt hvað sem er um hvern sem er undir dulnefni eða bara vegna þess að þeir sitja við tölvuskjá. Margir láta ýmislegt flakka í bloggheimum sem þeir myndu aldrei voga sér að segja beint framan í þann sem um ræðir. Það finnst mér vera heigulsháttur.

Mér finnst einnig alltaf jafn merkilegt að fylgjast með bloggurum sem keppast um að rífa niður það góða starf og það góða fólk sem er í Framsókn. Þar sem flokkurinn hefur verið að gera góða hluti undanfarið þá hangir þetta fólk með eldgömul gleraugu föst á nefinu á sér og dæmir flokkinn mörgum árum of seint. Dæmir ALLAN FLOKKINN OG FLOKKSMENN af hlutum sem mörg okkar hafa aldrei komið nálægt eða vegna verka manna sem ég myndi ekki einu sinni þekkja í sjón og eru löngu horfnir úr honum eða hefur verið hafnað af grasrót flokksins!

Þetta er eiginlega frekar grátbroslegt vegna þess að Framsókn hefur sýnt mesta kjarkinn, duginn og þorið á erfiðum tímum með því að sýna raunverulega framkvæmd og vilja til breytinga:

  • Við kusum okkur alveg nýja forystu á flokksþingi okkar í janúar
  • Við erum að berjast fyrir stjórnlagaþingi til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá og ná fram raunverulegum breytingum og vald þessa sé í höndum almennings
  • Við buðumst til þess að verja minnihlutastjórn falli til þess að einhverjar breytingar gætu orðið sem voru orðnar löngu tímabærar þar sem ekkert var að gerast í liðnu líki fyrri ríkisstjórnar. Við tókum það skýrt fram að þetta væri með ákveðnum skilyrðum sem við höfum verið að fylgja eftir að nái fram að ganga (stjórnlagaþing, kosningar og aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum). Skilyrðum sem eru klárlega í takt við vilja og þörf almennings. Við fórum ekki í stjórn án endurnýjaðs umboðs frá þjóðinni.

Ég er vissulega hlutdræg þar sem ég er framsóknarkona. En ég er líka orðin ansi langþreytt á því að vera dæmd af liðinni fortíð sem við erum skilin við og erum að sýna með verkum okkar að við ætlum ekki að endurtaka. Kannski þarf flokkurinn að biðjast mun skýrar afsökunar á fyrri verkum sínum en um leið getum við minnst meirihluta verkanna sem eru þau góðu verk sem við höfum náð fram. Framsókn hefur nefnilega gert fullt af hlutum síðastliðin rúmlega 90 ár og líka fullt af mistökum. Sá sem gerir aldrei neitt hann gerir heldur aldrei nein mistök!

Það er ótrúlega kaldhæðnislegt að fólkið sem gasprar hæst og finnur Framsókn allt til foráttu er fólkið sem í sama mund vill sjá breytingar. Framsókn er eini flokkurinn sem hefur virkilega verið að vinna að breytingum og í stað þess að sjá þær og fagna þeim þá hangir þetta fólk fast í fortíðinni þegar það gæti frekar horft til framtíðar. Þetta er stórmerkilegt. Vill fólk þá ekki raunverulegar breytingar eða vill það bara ekki horfast í augu við að þessi góðu mál komi frá flokki sem það er búið að dæma fyrirfram án þess að þekkja einu sinni til núverandi flokksmanna eða núverandi verka. Eða elskar þetta fólk bara að hata Framsókn og getur því ekki breytt mynstri sínu þó flokkurinn breytist?

Það þjónar kannski einhverju skemmtanagildi eða öðru fyrir suma að geta endalaust spunnið upp nýjar og nýjar sögur þar sem reykfyllt bakherbergi, strengjabrúður, dularfull öfl bakvið tjöldin, gildishlaðin lýsingarorð og fleira krassandi kemur við sögu. Ég held samt að þessari orku væri betur varið í að hjálpa okkur hinum að byggja upp betra samfélag til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband